Borun í Eyjafirði
17. ágúst 2016
Ólafur Oddsson var með 3ggja mínútna erindi um William Bratton, fyrrum lögreglustjóra í New York, þar sem hann náði undraverðum árangri í fækkun glæpa, eða helmingun þeirra í sinni valdatíð.
Stefán Steindórsson var með megin erindi kvöldsins um borun jarðvarmaholu HN-13 á Hrafnagili í Eyjafirði fyrir hitaveitukerfi Norðurorku. Holan er rétt norðan við Botnsreit, sem er sælureitur okkar Rótarýfélaga. Borverktakinn er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða. Gengið hefur á ýmsu, m.a. tafðist verkið um 40 daga þegar borkróna brotnaði frá streng og varð eftir í holu. Stefán sýndi m.a. kvikmyndir sem teknar voru niðri í borholunni. Reiknað er með að holan verði með þeim síðustu sem boruð verður við Hrafnagil í þessum tilgangi, en í framtíðinni verður borað eftir heitu vatni á Hjalteyri, þar sem nægt vatn hefur fundist. Jarðhitakerfið við Botn er nokkuð flókið og er sennilega a.m.k. tvöfalt, enda rennur misheitt vatn úr tveimur aðliggjandi holum á svæðinu og með dælingu má nærri tæma annað kerfið, sem svo endurnýjast aftur af stærra kerfi sem tengist því fyrra fremur treglega. Myndin sýnir borinn Narfa þar sem hann er uppsettur við holuna.