Fréttir

4.7.2016

Þórarinn Hjartarson

29. júní 2016

Þórarinn Hjartarson frá Kvæðamannafélaginu Gefjun sagði frá starfsemi félagsins. Rímur voru vinsæl bókmenntahefð á Íslandi í 600 ár, en ríma er frásögn í bundnu máli. Frásagnirnar voru oftast upp úr riddarasögum, Íslendingasögum og þýddum skáldsögum. Þá varð oft til rímnaflokkur og hver ríma var kafli úr sögunni. Vísurnar í sögunni eru undir rímna-bragháttum. Til voru fjölmargir rímnahættir, með tilbrigðum yfir 2000. Stemmur eru kvæðalög, en rímur eru kveðnar, þar sem frásögnin er í öndvegi.
Þekktustu rímnaskáldin á 19. öld voru Bólu-Hjálmar og Sigurður Breiðfjörð, en með komu hljóðfæra þá viku rímurnar og annars konar afþreying tók við einsog skáldsögur, leikrit og kvikmyndir.
Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði safnaði íslenskum þjóðlögum í aldarfjórðung og gaf út bókina Íslensk þjóðlög árið 1906. Árið 1929 var Kvæðamannafélagið Iðunn stofnað og árið 2005 var Kvæðamannafélagið Gefjun stofnað. Félögin ástunda rímnaarfinn og halda honum vakandi, en í dag eru um 10 kvæðamannafélög á Íslandi.
Í lok fundar fóru fram stjórnarskipti. Nýr forseti er Ragnar Ásmundsson, ritari Inga Þöll Þórgnýsdóttir og gjaldkeri Albertína Elíasdóttir.