Fréttir
  • Hópurinn í Mjólkursamsölunni

10.6.2016

Fréttapistill í apríl og maí

Apríl og maí 2016

Hér á eftir er samantekt atburða hjá klúbbnum í apríl og maí.

Þann 6. apríl komu félagar frá Rótarýklúbbi Eyjafjarðar og farið var yfir áform klúbbanna að halda nokkra fundi sameiginlega og er ánægjulegt að geta haft þessar setur okkar fjölmennari.

Þann 13. apríl kom Hlynur Hallsson listasafnsstjóri í heimsókn og flutti erindi um Listasafn Akureyrar sem stofnað var árið 1993, eftir brotthvarf verksmiðja úr Gilinu. Ný safnhæð verður tekin í notkun á árinu 2018 með brú yfir til Ketilhúss þar sem verður anddyri, safnverslun og kaffihús. Um 22.000 gestir sækja safnið árlega, um veturinn eru Íslendingar um 80% safngesta og erlendir gestir 20%. Á sumrin snýst aðsókn við, ferðamenn eru 75% safngesta en Íslendingar 25% gesta. Hlynur sagði frá þeim sýningum sem eru í gangi, áhersla er lögð á að sýna íslenska list á sumrin en um vetur eru sýnendur bæði íslenskir og útlendir.

Þann 20. apríl var félögum boðið í heimsókn til Mjólkursamsölunnar (MS) þar sem Kristín Halldórsdóttir mjólkurbússtjóri tók á móti okkur og sýndi hvernig þeirra ágætu vörur eru framleiddar.

Þann 27. apríl flutti Elín Díanna Gunnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fróðlegt erindi um streitu. Díanna fjallaði um skilgreiningu á streitu, mismunandi upplifun hennar, aðlögun, bjargráð og afleiðingar streitu.

Þann 4. maí var rótarýfundurinn haldinn í matsal Ráðhússins, Geislagötu 9. Tony Melado sá um matinn.

Þann 11. maí var fundurinn haldinn í Oddvitanum við Strandgötu, þar sem verið er að standsetja veitingastað og Heimskautasetur. Arngrímur Jóhannsson sagði okkur frá þeim áformum og veitti innsýn í margt af því sem lögð verður áhersla á í setrinu.

18.maí fór Björn Teitsson með gamanmál og var gerður góður rómur af því, enda þar á ferð afbragðs góður sögumaður

25. maí kom Hrafnhildur Eva Hagalín í heimsókn ásamt móður sinni. Hrafnhildur Eva fer sem skiptinemi á vegum Rótarý til Argentínu í ágúst nk. og sagði hún okkur frá sjálfri sér og þeirri fyrirhuguðu ferð. Í sumar kemur einnig skiptinemi hingað frá Brasilíu á vegum okkar klúbbs.

Á klúbbfundi 1. jún fjallaði verðandi forseti, Ragnar Ásmundsson, um starfsáætlun og stefnumótun klúbbsins fyrir komandi starfsár sem hefst í byrjun júlí.

8. júní var Ragnar Jóhann með fróðlegt erindi og myndasýningu frá ferð þeirra hjóna til Hong Kong og Víetnam á árinu 2008.

Farið verður á Þeistareyki í félagi með Rótarýklúbbi Húsavíkur þriðjudaginn 14. júní og kemur sú ferð og samkoma í stað áður auglýsts fundar daginn eftir.