Fréttir
  • María Pétursdóttir (t.v.) og Margrét Friðriksdóttir

10.3.2016

Margrét Friðriksdóttir kynnir Rótarý

9. mars 2016

Margrét Friðriksdóttir, skólastjóri Menntaskólans í Kópavogi, var gestur fundarins. Hún var umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi á árunum 2010-2011 og er nú í hlutverki „umdæmisleiðbeinanda“ og kynnir þennan ágæta félagsskap okkar um víðan völl. Margrét svaraði spurningunni „Fyrir hvað stendur Rótarý?“. Í stuttu máli er Rótarý alþjóðlegur félagsskapur sem hittist einu sinni í viku og borðar saman, eflir kynni sín, hlustar á fróðlega fyrirlesara og lætur gott af sér leiða fyrir samfélagið. Um 1,2 milljón félagar eru í Rótarý og áhersla er á að þeir komi úr sem flestum starfsgreinum. „Service above self“ eða „Þjónusta ofar eigin hag“ er slagorð félagsmanna og þjónusta hreyfingarinnar er margþætt hér heima og erlendis. Fundir hefjast yfirleitt á stuttum erindum eða innslögum, þá er borðaður matur og hlustað á erindi og/eða málin rædd. Stundum er farið í heimsóknir, t.d. til fyrirtækis eða haldin starfskynning í grunnskólum, svo eitthvað sé nefnt. Samfélagsþjónusta er stuðningur við menntun og arfleifð, t.d. merking eldri húsa, gerð göngukorta og viðhaldi almenningsgarða. Íslenskir rótarýklúbbar hafa stutt uppbyggingarverkefni í Malawi og Suður-Afríku og eiga aðkomu að SOS-barnaþorpi. Tónlistarstyrkir eru veittir á árlegum Rótarý tónleikum. Að loknum fundi var Margréti þakkað fyrir gott yfirlit yfir starfsemina og hún svaraði einnig nokkrum spurningum. Jón Hlöðver kastaði fram eftirfarandi vísu sem leggur út frá slagorðum Rótarý í fyrstu ljóðlínu:


Þjónusta ofar eigin hag,

það einatt skulum muna.

Glæða sól í sérhvern dag

og samfélagi una