Fréttir

23.11.2015

Valgeir Bergmann og Vaðlaheiðargöng

18. nóvember 2015

Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga kom í heimsókn og ræddi gerð ganganna. Ýmislegt hefur gengið á eins og alþjóð veit og sagði Valgeir að göngin væru stundum nefnd stærstu blöndunartæki landsins þar sem bæði heitt og kalt vatn hefur streymt úr göngunum. En allt er ferlið á réttri leið og er gangurinn góður núna eða 39 metrar sprengdir inn í fjallið í síðustu viku og í dag er búið að sprengja 63% af endanlegum göngum. Í upphafi var hitinn á vatninu Eyjafjarðarmegin yfir 40°C en fór hæst í 63°C. Í dag er hitinn um 58°C og streymið um 115 sekúndulítrar í stað um 350 L/s í upphafi. Svipað má segja um kalda vatnið Fnjóskárdalsmegin en þar er rennslið um 150 sekúndulítrar í dag en var þegar mest gekk á um 530 L/s. Valgeir fór yfir þær lausnir sem í boði eru til að leysa málin og benti á að bæði heita og kalda vatnið væri auðlindir sem mætti nýta í framtíðinni ef magnið helst óbreytt. Valgeiri var þakkað fróðlegt og skemmtilegt erindi.