Fréttir
  • Sigríður Stefánsdóttir, Akureyrarbæ

12.11.2015

Sigríður Stefánsdóttir og móttaka flóttafólks

11. nóvember 2015

Gestur kvöldsins var Sigríður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar. Sigríður rakti ættir sínar til Ísafjarðar og einnig austur á land og velti fyrir sér hvort hún væri orðin Akureyringur en hún flutti hingað 1978. Engin niðurstaða fékkst um það mál.
Efni fundarins var væntanleg móttaka bæjarbúa á flóttafólki. Árið 2003 kom hingað flóttafólk frá fyrrum ríkjum Júgóslavíu og gekk það ferli sérstaklega vel. Margir sem komu þá búa enn hér í bænum og hafa aðlagast íslenskum veruleika. Eftir umræðu síðustu mánaða um ástandið í Sýrlandi var ákveðið að endurtaka leikinn og bjóða hópi að koma hingað til Akureyrar til búsetu.
Sigríður ræddi ástandið sem fólk hefur búið við og sýndi okkur annars vegar nokkurra ára gamlar myndir af blómlegri byggð í borgum eins og Homs og Damaskus og síðan nýlegar myndir frá sömu stöðum í rúst eftir mikla eyðileggingu. Flest flóttafólk flýr til næsta nágrannaríkis eða til Líbanon og er talið að um 1,5 milljón manna sé þar við slæmar aðstæður enda landið sprungið. Stærð Líbanons er 10% af stærð Íslands.
Akureyrarbær mun bjóða flóttafólki ýmiskonar aðstoð eins og húsnæði, fræðslu, skólavist fyrir börn, heilbrigðisþjónustu og öðlast fólkið öll þau réttindi sem venjulegur bæjarbúi hefur. Búist er við hóp flóttafólksins í lok desember eða í byrjun janúar 2016. Um er að ræða 20-25 manna hóp sem kemur frá Sýrlandi en hefur verið í flóttamannabúðum í Líbanon. Undirbúningur er þegar hafinn og hefur Rauði krossinn safnað húsgögnum og einhver fyrirtæki í bænum boðið laus störf. Sigríður sagði að fyrir hverja fjölskyldu sem kæmi til bæjarins þyrfti þrjár stuðningsfjölskyldur sem oft byggðu upp gott samband til lengri tíma. Þetta er flókið verkefni en reynslan hér á Akureyri er góð.
Sigríði var að lokum þakkað gott erindi.