Fréttir
  • Magnús B. Jónsson og María Pétursdóttir

21.10.2015

Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri

21. október 2015

Umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, Magnús B Jónsson og kona hans Steinunn Ingólfsdóttir heiðruðu fundinn með nærveru sinni. Magnús fór í erindi sínu yfir sögu Rótarý hreyfingarinnar frá upphafi eða frá 23. febrúar 1905 í Chicago, en þar var fyrsti klúbburinn stofnaður. Í dag eru meðlimir Rótarý 1,2 milljónir manna og kvenna vítt og breytt um heiminn og klúbbarnir orðnir 34.000 talsins. Magnús sagði að hvergi í heiminum væru Rótarýfélagar fleiri en á Íslandi ef miðað væri við höfðatöluna frægu en íslenskir félagar eru nú 1.217 alls og klúbbarnir 31. Hann ræddi um Rotary-act sem er fyrir ungmenni og hvatti meðlimi til að stuðla að stofnun slíks klúbbs hér fyrir norðan. Magnús ræddi um boðskap Rótarý og slagorð þessa árs sem er „Verum veröld gefandi“ og tilgang félagsstarfsins sem er að bæta heiminn nær og fjær. Hann fór yfir þróun Rótarýstarfs nútímans í samband við netnotkun og boðskipti í gegnum fésbók og aðra miðla. Unga fólkið er framtíðin og við þurfum að fylgja þeim.

Magnús hvatti félaga til að vera sýnilegri og koma boðskapnum betur á framfæri en Rótarý er til dæmis einn öflugasti sjóður mannúðarmála og námsstyrkja í heiminum í dag. Eitt stórra verkefna Rótarý er að berjast gegn lömunarveiki um allan heim en sú barátta hófst 1985 og er stefnt á að útrýma sjúkdómnum árið 2018. Að lokum hvatti Magnús félaga til að kynna starfið, fjölga félögum og ekki síður halda þeim eftir að þeir eru gengnir inn með kynningu og hvatningu.