Fréttir
  • Pétur Halldórsson

30.9.2015

Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins

30. september 2015

Erindi kvöldsins flutti Pétur Halldórsson kynningarstjóri Skógræktar ríkisins og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Samkvæmt venju eru gestir beðnir að rekja ættir sínar stuttlega og Pétur setti nýtt viðmið er hann rakti ættartölu sína aftur um sex ættliði. Fékk hann lófaklapp fyrir.
Skógræktarfélag Eyfirðinga var stofnað 11. maí árið 1930 og er elsta starfandi skógræktarfélag á Íslandi. Pétur ræddi um skógrækt í Eyjafirði og sagði frá að árið 1990 var sett markmið að innan 40 ára yrði 5% láglendis á Íslandi skógi vaxið. Pétur taldi að í framhluta Eyjafjarðar eða frá Akureyri og inn úr firðinum væri þetta markmið uppfyllt. Hann talaði um að 11 reitir væru í umsjá Skógræktarfélagsins. Grundarreitur, í umsjá Skógræktar ríkisins, er frá um 1900 en þá voru náttúrulegir skógar nánast horfnir á Íslandi. Norðurlandsskógar er samheiti yfir bændaskóga eða skógarbændur sem nýta skóginn til að styðja við vistkerfið. Hann veitir meðal annars skjól fyrir vindum og veðrum. Talið er að um 2300 ha í Eyjafirði séu þar undir. Pétur ræddi Botn sem Rótarýklúbbur Akureyrar hefur haldið utan um og sagði reitinn fallegan þótt það mætti grisja hluta hans. Hvatti hann félaga til að bæta aðstöðu fyrir fatlaða og gera malbikaða gangstíga. Að lokum ræddi Pétur um gæði þess að búa í skógi vöxnu bæjarfélagi. Skógurinn bindur mikið ryk, hamlar vindum, eykur loftgæði og gerir vistkerfið auðugra. Að auki bindur skógurinn koltvísýring og má færa rök fyrir að tekjur aukist og hagur batni. Að lokum hvatti Pétur félaga klúbbsins að leyfa risavaxinni Bergfuru sem vex í Botni og er fallin til jarðar að lifa og sagði hana skemmtilegt „skrýmsli“ Nokkrar fyrirspurnir komu og var Pétri þakkað skemmtilegt og fróðlegt erindi.