Fréttir
  • Elva Gunnlaugsdóttir

31.8.2015

Elva Gunnlaugsdóttir, Arctic Services

26. ágúst 2015

Gestur kvöldsins Elva Gunnlaugsdóttir er framkvæmdastjóri Arctic Services. Hún sagði frá að fyrirtækið var stofnað 2012 eftir að Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sá tækifæri í að þjónusta ýmsa starfsemi á Grænlandi. Má þar nefna til dæmis olíuvinnslu og námavinnslu. Grunnhugsun fyrirtækisins var og er þjónusta af ýmsum toga er byggir á þátttöku íslenskra fyrirtækja sem sjá sóknarfæri í að vinna sameinuð að markaðsstarfi til að kynna og selja þjónustu sína á Grænlandi. Sterk fyrirtæki á Akureyri eru til dæmis Fjórðungssjúkrahúsið, Norlandair, ýmsir verktakar og verkfræðistofur. Í dag eru undir þessum klasa milli 60-70 fyrirtæki. Strax í upphafi voru miklar væntingar og kynningarstarf unnið af krafti. Myndband var gert ásamt öðru efni.

Reynslan síðustu ár hefur sýnt að svona starf er langhlaup og verður áfram unnið á sama máta og áður. Stjórnarskipti hafa orðið tvisvar sinnum á Grænlandi síðustu misseri og áherslur breyst. Grænlendingar vilja stíga varlega til jarðar og róa niður þær væntingar sem  var búið að byggja upp. Þó sagði Elva að vilji Grænlendinga til að skipta við Íslendinga væri til staðar en frændur vorir Danir væru ekki alveg eins hrifnir af hugmyndinni.