Fréttir
  • Logi Már Einarsson

10.6.2015

Logi Már Einarsson arkitekt og bæjarfulltrúi

10. júní 2015

Inga Þöll Þórgnýsdóttir sagði í 3gja mínútna erindi sínu frá áströlskum handgerðum kostagrip sem hún fékk að þakkargjöf – eins konar ílát gert úr banksia tré sem inniheldur eukalyptus ilmviðarolíu sem varnar sjúkdómum, þar á meðal kvefi. Ílátið gekk á milli svo allir gætu varið sig gegn helstu farsóttum.

Logi Már Einarsson, arkitekt og bæjarfulltrúi var fyrirlesari kvöldsins. Hann hlýddi óskum félagsmanna að rekja ættir sínar sem reyndust akureyrskar í móðurlegg (Ásdís Karlsdóttir) og þaðan austur til Þistilfjarðar og vestur til Breiðafjarðar en faðirinn Eskfirðingur með ættir á Reykjanesi og öðrum exótískum stöðum. Systkinin eru 5 og einn hálfbróðir. Einar Logi velti í erindi sínu fyrir sér útliti bæja og hóf þá vegferð við upphaf siðmenningar þegar öll list þjónaði byggingum. Endurreisninni (barokk) lauk um 1750 þegar iðnbyltingin tók við og þéttbýli mynduðust. Byggingarefnin breyttust og aðlagaðist í breyttri menningu sem varð fyrir áhrifum frá fjarlægum heimssvæðum. Í Evrópu holdgerðust andstæður módernismans í Adolf Loos og Picasso -“Ornament is a crime“ er haft eftir þeim fyrrnefnda. Arkitektúr og verkfræði renna saman. Ráðhús og bókasöfn rísa í stað halla. Samhverfan víkur fyrir látleysi. Byggingarnar segja til um menningu okkar en stærsta bygging í Reykjavík á 20. öld var kirkja. Byggingar eru almennt reistar til að bæta hag almennings, þótt verknaðurinn sjálfur krefjist margra fórna. Steinsteypan tók síðar völdin, m.a. annars með verkum Le Corbusier og í Bauhaus skólanum (Kurt Weill, Fritz Lang, Rietveld, Mondrian o.fl.) þar sem gerð var tilraun til að samþætta listgreinar. Nasistar lokuðu Bauhaus og sumir rekja upphaf Gyðingaofsókna til nýs borgarskipulags eftir Albert Speer í gettóum Berlínar sem hentaði betur ímynd valdamanna þess tíma. Um miðja 20. öldina varð einkabíllinn og hreyfanleiki hans til þess að dreifa byggð í úthverfi, eitthvað dempað af lyftunni sem kom fram hundrað árum fyrr og auðveldaði framgang háhýsa. „Bíll er aldrei vistvænn“ segir Einar Logi, en hann vill sjá breytingar á skipulagi Akureyrar, einna helst á Eyrinni sem var blómlegur kokkteill af íbúðar-, iðnaðar-, skóla- og verslunarhúsnæðis í kringum 1950 í samfelldu framhaldi af miðbænum gegnum Oddeyrargötu. Nú liggur megin umferðin framhjá því hverfi og draga þarf aftur líf þangað, mögulega með breyttu götuskipulagi og þéttari íbúðabyggð. Sjálfbærni evrópskra borga skal höfð sem fyrirmynd (t.d. borgarhlutinn Hammarby í Stokkhólmi) í stað bandarískrar hraðbrautamenningar. Í svörum við spurningum kom m.a. fram að ekki sé stefnt að aukinni yfirbyggingu í bænum – klæðum okkur frekar betur. Einari Loga var þakkað kærlega fyrir fróðlegt erindi.