Fréttir
  • Grétar Þór Eyþórsson

3.6.2015

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri

3. júní 2015

Fundur hófst á því að Ragnar Ásmundsson var með 3gja mínútna erindi um hlutverk sín sem formaður Uglunnar, hollvinasjóðs Menntaskólans á Akureyri, en Ragnar er 25 ára júbilant frá þeim skóla. Einnig fór hann hlýjum orðum um rafbíl sem honum auðnaðist að sitja í og prufukeyra fyrr um daginn. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, var gestur fundarins. Hann náði að þóknast fundarmönnum með ættartengingu til Norðurlands gegnum tvær langömmur, annars vegar frá Karlsstöðum á Lágheiði og hinsvegar Tjörnesi, en sú síðarnefnda flutti undir Eyjafjöll. Grétar Þór ólst upp í Kópavogi, hlaut doktorsgráðu sína í Gautaborg og starfaði m.a. hjá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, sem svo hét þá, og hjá Byggðarannsóknastofnun. Umræðuefni kvöldsins voru um mögulegan samfélagslegan ávinning Vaðlaheiðagangna, félagsleg og efnahagsleg. Þeir Hjalti Jóhannesson hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) gáfu út frummat á þeim ávinningi á árinu 2001 og nú liggur fyrir ný könnun frá 2014. Áður hafa Grétar ásamt fyrrnefndum Hjalta og Kjartani Ólafssyni hjá RHA unnið sambærilegar samantektir vegna Héðinsfjarðargangna og Landeyjahafnar (sem þá kallaðist Bakkafjöruhöfn).  Vífill Karlsson hefur unnið mat á áhrifum Hvalfjarðagangna sem opnuð voru 1998 og líkt og Vífill gerði er horft til áhrifa á tekjur, atvinnutækifæri, þjónustu, fasteignaverð og jafnvel glæpatíðni, svo eitthvað sé nefnt. Almennt eru áhrif samgöngubóta mest hjá þeim sem upplifa mestu hlutfallslegu styttingu til stærra atvinnusvæðis. Vaðlaheiðagöngin eru m.a. talin geta valdið meira „rápi“ (stuttum óskipulögðum heimsóknum), auknu umferðaröryggi, tekjuaukningu, stækkun þjónustusvæðis (helst umsvif heilbrigðisþjónustu), aukinni atvinnuuppbyggingu á Akureyri og hækkandi fasteignaverði. Sérvöruverlanir í nálægum smáum byggðarlögum gætu lent í vandræðum en lágvöruverslanir á Akureyri ættu að þrífast betur. Sumarhúsabyggð austan við göngin er talin aukast, en hún jókst að jafnaði um 47% á Vesturlandi eftir Hvalfjarðargöngin í samanburði við 33% aukningu á Suðurlandi (samanburðarárin eru 1994 og 2007). Grétar Þór benti á að rangt væri farið með tölur í nýlegum neikvæðum fréttum um Vaðlaheiðagöng – aukning umferðar um Víkurskarð er í nokkru samræmi við hóflegar spár (miðspár), eða 1229 bílar á dag að meðaltali á árinu 2014. Umræða varð um þetta áhugaverða málefni við lok erindis.