Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður
20. maí 2015
Gestur fundarins var fyrrum rótarýfélagi okkar, Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður, sem öðrum þræði var okkar gestgjafi. Að loknum veitingum frá kaffi Ilmi fór Hólmkell í stuttu máli yfir byggingasögu safnsins á Akureyri sem reist var í tveimur áföngum, fyrst 1962-1968 og svo viðbygging 2000-2004. Gunnlaugur Halldórsson hannaði fyrri hlutann, að sögn með leslampa sem fyrirmynd og byggingin er stundum kölluð „týpískasta módernistahús landsins“. Þar voru áður sérsmíðaðir stólar sem Nói (Jóhann Ingimarsson) í Valbjörk safnar nú til eftirgerðar, en hann hefur leyfi til þess frá hönnuðinum, Wegner, en þeir voru skólabræður. Guðmundur Jónsson teiknaði viðbygginguna en hún er stærri, með kjallarahæð til viðbótar. Safnið var fyrst stofnað á Möðruvöllum árið 1827 til að sinna alþýðu- og kristnifræðslu. Amtsbókasafnið er opið frá 10-19 og gestir eru um 400 á dag. Starfsmenn eru 13 í 11 stöðugildum. Íbúar svæðisins eru duglegir að nota safnið en Hólmkell segir að sú notkun sé mælikvarði á arðsemi starfseminnar. Safnið hefur verið aðlagað að þörfum ólíkra hópa, svosem barna og fjölskyldna og lítil breyting í aðsókn eða samsetningu hennar þrátt fyrir tölvubyltingu.
Amtsbókasafnið er annað tveggja skyldusafna (hitt er Landsbókasafn) og hefur lagalega skyldu til að varðveita eitt af fjórum varðveislueintökum prentgagna landsins. Hólmkell sýndi okkur geymslukjallarann sem er 14 hillukílómetra langur, einnig með óvæntri aðstöðu fyrir heimilislausa. Í hillunum leynist margt forvitnilegt, t.d. matseðlar, kjarasamningar, merkir rótarýbæklingar og önnur dreifibréf félagasamtaka. Eitt djásnanna er Flora Danica með koparstungum af jurtum, annað tveggja eintaka á landinu og númer 39 í hinu forna konunglega safni. Elstu prentin eru geymd í sýrufríum öskjum útbúin af Þóri Vilhjálmssyni, t.d. Hranfseyjarprent frá 1783. Á Amtinu hafa margar sýningar verið settar upp og nú er Hið íslenska biblíufélag með sýningu, m.a. með eftirprentun af Guðbrandsbiblíu. Félagi Björn Teitsson nefndi að eitt frumeintakanna af þeirri bók hafi verið til á Knappsstöðum í Stíflu (í Fljótum, Skagafirði) og félagi Bernharð Haraldsson lýsti áhuga á að eiga tvö eintök af Guðbrandsbiblíu, svo hann gæti selt annað þeirra. Hólmkeli var þakkað fyrir fróðlega kynningu og notalega endurfundi.