Jón Knutsen fjallar um endurlífgun
13. maí 2015
Að klúbbvígslu Jóns Ómars Gunnarssonar lokinni steig fyrirlesari og gestur fundar, Jón Knutsen, upp í pontu eftir mikilgerða og kynsæla ættarkynningu Bernharðs Haraldssonar. Jón hafði með sér ýmis tæki og brúður til að sýna handtök við endurlífgun. Eitt helsta tækið til slíkra hluta kallast AED (Automated External Defibrillator), eða hjartastuðtæki, sem nú má finna mjög víða, t.d. í skáp á Glerártorgi, í bönkum, hjá Becromal, Landsvirkjun, skipum Samherja og fleiri vinnustöðum. Þekking til endurlífgunar hefur eflst á Akureyri vegna tíðra kynninga og hér hafa hlutfallslega flestir verið endurlífgaðir (í samanburði við hlutföll af öðrum svæðum). Endurlífgunarkeðjan svokallaða hefst á kalli á hjálp með fyrirbyggjandi aðgerðum, þá tafarlaust hjartahnoð ef um hjartastopp er að ræða, þá tafarlaust rafstuð til að fá eðlilegan hjartslátt. Stundum þarf sérhæfða aðstoð en allt sem gert er miðast við að bæta lífslíkur. Megin áhersla er á hjartahnoð en aðferðin er endurskoðuð af alþjóðlegum samtökum á fimm ára fresti – nú eru fullorðnir hnoðaðir 30 sinnum og blásið 2 sinnum, 100-120 sinnum á mínútu og ýtt með nægilegum krafti svo bringubein fari 5-6 cm niður. Syngja mætti „Staying alive“ með Bee Gees (helst án þeirra) eða „Öxar við ána“ til að halda réttum takti við hnoðið. Hjartastopp byrjar á óreglulegum hjartslætti og hættir ekki skyndilega. Ekki er hægt að stuða alla (t.d. ekki ef hjarta stoppar). Hvoru tveggja sést þó reglulega í amerískum sjónvarpsþáttum, kannski ákveðin vísbending um að þar er ekki í einhverjum tilvikum farið að öllu leyti rétt með staðreyndir.
Við slys skal hringja í 112, gefa upp nákvæma staðsetningu, gefa upp símanúmer og nafn þess sem hringir, segja hvað gerðist svo rétt verkfæri fari í sjúkrabíl, nefna fjölda slasaðra og aðstæður á slysstað, lýsa ástandi hins slasaða og veðurfari á slysstað. Kanna þarf hvort eitthvað ógnar lífi sjúklings, kanna svo andardrátt, blæðingar og hvort um lyfjanotkun hafi verið að ræða. Ef sjúklingur er meðvitundarlaus þarf að tryggja að hann andi og ef hann andar ekki þá þarf hjartahnoð að hefjast strax. Meðvitundarstig er kannað með margs konar áreiti, munnlegu eða með sársauka. Lyf hafa stundum sljóvgandi áhrif á öndun og þá þarf að minna sjúkling á að anda. Heili getur verið allt að 4 mínútur án súrefnis án þess að verða fyrir skaða en það er háð hitastigi (lengur við lægri hitastig). Eftir meira en 10 mínútur tekur við mikill heilaskaði eða dauði. Við hjartahnoð brotna bein í 70% tilvika en það á alls ekki að draga úr þeim sem hnoðar. Ef aðskotahlutir eru í öndunarvegi þarf að nota 'heimlíkar' aðferðir og slá á bak eftir þörfum með aðferðum sem eru í samræmi við aldur sjúklings en enda svo með hjartahnoði ef árangur skortir. Flugvöllur áfram í Vatnsmýri er okkur lífsnauðsynlegur.
Fundarmenn sem mundu eftir að anda þökkuðu kærlega fyrir afar fróðlegan fyrirlestur - efni hans er mjög gott að kunna en afar slæmt að kunna ekki.