Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra
29. apríl 2015
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra var gestur fundarins. Hún er frá Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu, lögfræðingur frá Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Evrópurétti frá háskóla í Stokkhólmi. Halla Bergþóra er fyrsta konan sem fékk starf sem lögreglumaður (í afleysingum) á Húsavík sem vakti vissa athygli á þeim tíma. Hún opnaði lögmannsstofu í Reykjavík og sinnti verjendastörfum. Þá var hún 8 ár í Dómsmálaráðuneytinu og sinnti m.a. nafnabreytingum og löggæslu-, fangelsis- og starfsmannamálum. Við skipun sérstaks saksóknara eftir efnahagshrun tók Halla Bergþóra við lögregluembættinu á Akranesi til bráðabirgða – en var þar í 6 ár áður en hún tók við núverandi embætti. Miklar breytingar hafa átt sér stað í stjórnsýslu lögreglu og stækkaði umdæmi Norðurlands eystra þegar blönduðu sýslumannsembættin voru lögð niður. Þetta er stærsta umdæmi landsins að flatarmáli og mjög stór hluti þess er hálent. Íbúar eru um 29 þúsund manns. Flókinn en ítarlegur undirbúningur að samruna stóð yfir frá ágúst 2014 og lauk farsællega með sameiningunni 1. janúar 2015 ásamt ýmsum öðrum skipulagsbreytingum. Höfuðstöðvar lögreglu eru á Akureyri en sýslumaðurinn hefur aðsetur á Húsavík í samræmi við áherslur stjórnvalda um dreifingu embætta. Öllum lögreglustöðvum var haldið (5 talsins) með 43 lögreglumönnum sem skiptist í almenna deild og rannsóknarlögreglu. Á Akureyri eru fjórar sólarhrings vaktir með fimm mönnum en einn er í dagvinnu. Í Fjallabyggð og í Dalvíkurbyggð starfa fimm lögreglumenn. Tveir lögreglumenn hafa bæst við á Húsavík vegna aðgerða við Holuhraun og þar er enn vöktun vegna afgösunar og hita hraunsins og þar eru samtals 7. Tveir eru á Þórshöfn og rannsóknadeildin á Akureyri sinnir málum á Norðurlandi í samstarfi við félaga sína á Sauðárkróki. Tveir lögreglumenn sinna fíkniefnamálum með einn hund. Við sameiningu embætta hefur betur tekist að nýta samfléttaða starfsþekkingu.
Almennt hefur verið talið að sameining Eyfirðinga og Þingeyinga á hvaða sviði sem er sé ekki líklegt til árangurs en gosið hjálpaði til að pússa hópinn saman, m.a. við langar samverustundir í einsemdinni við Dreka án sjónvarps eða útvarps. Nú þekkjast allir mjög vel. Halla Bergþóra leggur áherslu á verkefnamiðaða löggæslu þar sem átök eru á vissum sviðum í tiltekinn tíma, svo sem leyfiskönnun á veitingahúsum eða símnotkun og beltisnotkun í bílum. Vel gefst að færa lögreglumenn reglulega til þannig að t.d. vaktin á Húsavík sinnir löggæslu á Akureyri og öfugt – gott að kynnast umdæminu þannig. Starf lögreglunnar er auglýst vel á Facebook og auðvelt að gerast þar góðkunningjar lögreglu. Hið nýja embætti fékk uppsafnaðan 40-50 Mkr halla frá forverum í arf sem þarf að greiða niður, þó með hléi í ár vegna kostnaðar við sameiningu. Um 80% rekstrarkostnaðar er vegna launa. Í svörum við spurningum kom fram að starfsemin er ekki tekjutengd (ekki dugar að sekta fleiri til að afla tekna til lögreglu, því þær tekjur renna í ríkissjóð). Umræða var um lokun fangelsis á Akureyri en það er kostur fyrir fanga að afplána nálægt sínum nánustu. Glæpatíðni er hér svipuð og gengur og gerist. Menntun lögreglumanna fæst í Lögregluskólanum og svo námskeiðum þar á eftir. Vopn þurfa að vera til í eigu lögreglu – hver sekúnda skiptir máli ef stöðva þarf skotárásir, t.d. í skóla og það verður ekki gert án vopna. Vettvangur heimilisofbeldis er nú rannsakaður ítarlegar en áður auk þess sem áhersla er á að félagsþjónusta sinni geranda. Að lokum gat Halla Bergþóra upplýst spyrjendur að ákæra verði líklega gefin út á þann sem lenti þyrlu við Holuhraun í leyfisleysi en það er gert ef ekki er gengið að sektarboði. Fundarmenn þökkuðu kærlega fyrir fróðlegt erindi.