Fréttir
  • Minjasafnið á Akureyri
  • Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri

22.4.2015

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri

22. apríl 2015

Soffía Gísladóttir fór í upphafi fundar með þriggja mínútna erindi um Elínu Vigfúsdóttur frá Laxamýri og las ljóð hennar um þúsund ára Íslandsbyggð, Aldaslagur, samið 1974, úr ljóðabókinni „Fagnafundur“ sem fékk mishjartnæma dóma. Soffía kynntist þeim hjónum Elínu og Jóni H. Þorbergssyni á unga aldri á Laxamýri og hefur fyrri reynslu af að lesa þetta sama ljóð sem Fjallkonan á Húsavík.

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, flutti starfsgeinaerindi sitt um Minjasafnið á Akureyri sem er í eigu Akueyrarbæjar og sveitarfélaga í Eyjafirði. Þórður Friðbjarnarson var fyrstur safnstjóri 1962 í Kirkjuhvoli, fyrrum íbúðarhúsi númer 58 við Aðalstræti, sem var stækkað síðar og svo hafa bæst við fleiri safnstaðir á Laufási, í Davíðshúsi, á Sigurhæðum, í Nonnahúsi og Minjasafnskirkjan sem var á Svalbarðseyri. Safngeymsla er að Naustum III. Fastir starfsmenn eru nú 7 talsins sem sinna margþættum hlutverkum, þ.e. söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum og miðlun. Lögbundin skylda er um ákveðna þætti í starfseminni. Safnið er viðurkenndur aðili að Safnaráði sem veitir því rétt til að þiggja opinbera styrki. Engum safnmunum er hent eða seldir, enda myndi fólk þá ekki gefa safninu muni. Margir hafa komið að því að flokka og lýsa munum, t.d. fyrrum starfsmenn Vélsmiðju Odda sem hittust reglulega í safninu í þeim tilgangi. Nú eru ljósmyndir safnsins á bilinu 2,5 til 3 milljónir og birtar á „Sarpnum“ (sarpur.is). Safnfræðsla er fyrir fólk á öllum aldri (2-102 ára), yfirleitt þemasýningar (t.d. jólasýning) en nú stendur yfir sýningin „Ertu tilbúin, frú forseti?“, fyrst sett upp í Garðabæ, sem sýnir föt frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta og ýmsa gripi sem tengjast hennar forsetasetu. Vigdís tók það sérstaklega fram við Harald að karlar þyrftu endilega að sjá þessa sýningu líka, ekki bara konur. Vigdís naut vinsælda hvert sem hún fór og bar vel íslenskan mektarklæðnað, svosem gærur, í erlendum heimsóknum. Haraldur nefndi að föt karla skipta að því er virðist minna máli og því til stuðnings kom fram að þulur nokkur prófaði að koma fram í sömu fötunum í eitt ár án þess að nokkur tæki eftir því. Konur virðast ekki geta leyft sér slíkt (nema kannski Angela Merkel). Fleira er á döfinni hjá safninu; nú stendur til að endurgera Gásir í kjölfar fornleifauppgraftar þar og á Laufási er kirkjan 150 ára. Söfn þjóðskáldanna þriggja, Matthíasar Jochumssonar, Davíðs Stefánssonar og Jóns Sveinssonar (Nonna) eru enn opin og eiga skilið sama ríkisstuðninginn og Þórbergssafnið fær (10 Mkr). Á morgun er sumardagurinn fyrsti og þá verður frítt í söfnin á bilinu 13-17 og fjöldi atburða í gangi, betur auglýstir á vefsíðu minjasafnsins.

Við lokaumræður var Vigdísar vel minnst.