Fréttir
  • Alfa Aradóttir, forstöðumaður æskulýðsmála hjá Akureyrarbæ

15.4.2015

Alfa Aradóttir, forstöðumaður æskulýðsmála hjá Akureyrarbæ

15. apríl 2015

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir flutti þriggja mínútna erindi um leiksýningu á Möðruvöllum sem segir sögu þriggja kvenna með penna. Verkið kallast „Þöggun“ og vísar til raunasögu harmaskáldsins Guðnýjar Jónsdóttur frá Kömbum sem var andlega njörfuð niður af eiginmanni sínum, prófastinum Sveini Níelssyni. Sagan er sögð af Ólöfu frá Hlöðum sem einnig fjallar um Skálda-Rósu Guðmundsdóttur. Ragnheiður mælir vel með þessari sýningu og fór að lokum með brot úr ljóði Guðnýjar, „Endurminning glögg“ sem var fyrsta ljóð eftir kvenmann sem birtist í tímaritinu Fjölni.
Alfa Aradóttir, forstöðumaður æskulýðsmála hjá Akureyrarbæ, var gestur fundarins og flutti erindi um störf sín í þágu ungmenna bæjarins. Samkvæmt óskum fundarmanna byrjaði Alfa þó á að rekja ættir sínar til bifvélavirkjans Ara frá Þistilfirði og Jónu Jónatansdóttur í Norðurgötu 26, systir þekktra íþróttakappa, Magnúsar og Sævars. Alfa var í fyrsta árgangi Háskóla Íslands sem útskrifaðist úr tómstunda- og félagsmálafræði og hefur starfað hjá Akureyrarbæ síðan 2006. Undir æskulýðsmálin heyra mannréttindadeild, íþróttafulltrúi og forvarnarmál. Ekki eru enn til skýr lög um æskulýðsmál en barnasáttmáli var samþykktur á árinu 2013 sem nú er farið eftir. Engin æskulýðsstefna er til fyrir allt landið en hún er í undirbúningi og þar m.a. gerðar kröfur um menntun og starfið betur skilgreint. Einnig eru lög um frístundaheimili í frumvarpi. Helstu verkþættir eru uppbyggingarstarf fyrir ungmenni sem þurfa félagslegan stuðning (t.d. „Tóta hópar“ fyrir langt komna í tölvufíkn), ungmennahús fyrir eldri en 16 ára sem tengist Fjölsmiðjunni ásamt framhaldsskólunum og fleiri aðilum og stuðningur fyrir eldri en 17 ára við fyrstu skrefin á vinnumarkaði. Mikið samstarf er við aðila sem sinna ungmennum, sérstaklega innan skólanna og þar starfa forvarna- og félagsmálaráðgjafar sem fylgjast vel með og láta vita þegar þörf er á aukinni þjónustu. Einnig er gott samstarf við íþróttahreyfingar og lögreglu vegna forvarnarstarfs. Í svörum frá spurningum kom fram að um 40 ungmenni þiggja æskulýðsþjónustu og allt að 140 unglingar til viðbótar þiggja ráðgjöf og aðstoð við atvinnuleit.