Albertína Elíasdóttir, verkefnastjóri atvinnumála
8. apríl 2015
Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, var vígður inn í klúbbinn undir ræðu forseta og fögnuð félaga. Soffía Gísladóttir mætti í ræðustól með origami fugl og flutti þriggja mínútna erindi um „Virkjun hæfileikanna“ sem er átak hjá Vinnumálastofnun. Þar er áhersla á að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að bjóða störf sem nýta hæfileika allra – einnig fólks með skerta starfsgetu eins og t.d. bakveiki. Félagi okkar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, BA í félagsfræði og MA í landfræði, flutti starfsgreinaerindi sitt. Hún er nýr verkefnastjóri atvinnumála á Akureyri og nýtur fjölbreytts starfsferils á Ísafirði, sem fólst m.a. í nýsköpun hjá FabLab og sem forseti bæjarstjórnar. Nú starfar hún í atvinnumálanefnd og tekur við mörgum og fjölbreyttum verkefnum frá bæjarstjóranum á Akureyri sem þarf að klára. Starf Albertínu felst að mestu í eftirfylgni, stuðla að samtölum milli aðila, gæta að innviðum og skipulagsmálum, þátttöku í þróunarverkefnum og hagsmunagæslu. Undanfarið hefur margt tengst hagsmunabaráttu Grímseyinga. Albertína hefur átt aðkomu að Atvinnustefnu Akureyrar 2014-2021, sem er lifandi plagg sem snertir á mörgum þáttum, svo sem rannsóknum, menntun, lýðheilsu, heilbrigðis- og umhverfismálum, ferðaþjónustu, verslun, menningu, skapandi greinum, söfnum, Listagili, iðnaði, sjávarútvegi og hefðbundnum atvinnugreinum. Sjúkrahúsið á Akureyri stefnir á alþjóðlega vottun sem telst forsenda fyrir aukinni þjónustu frá svæðinu. Helsta baráttumál samfélagsins á Norðurlandi er að bæta samgöngur með stærri gáttum inn í landið – þá er átt við alþjóðlega flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum. Vakning er nú í þessum málum á öllum stigum þjóðfélagsins og um allt land. Albertína minnti sérstaklega á nýsköpunarsjóði Rannís og skattaafslætti til fyrirtækja í þróunarstarfsemi sem fáir aðilar hafa nýtt sér á Norðurlandi. Í svörum við spurningum kom m.a. fram að ríkissjóður hefur fjármagnað hjólastíga í Reykjavík eingöngu.