Fréttir
  • Hildur Betty Kristjánsdóttir, Símey

25.3.2015

Hildur Betty Kristjánsdóttir frá SÍMEY

25. mars 2015

Hildur Betty Kristjánsdóttir verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY byrjaði á að þóknast félagsmönnum með því að rekja ættir sínar, reyndar til Hafnarfjarðar og svo til allrar hamingju sænsks afa, Sven Normann, sem bjó á Akureyri og átti þar stóra St. Bernharðs hunda - félagi okkar Hermann Sigtryggsson kannaðist vel við þessa lýsingu af Sven og hundunum. Betty hefur starfað um 8 ár hjá SÍMEY en var áður við kennslu, m.a. í grunnskóla. Hjá SÍMEY fer fram umsýsla og kennsla í sérsniðnum námskeiðum fyrir fólk með margs konar bakgrunn. Helst er námið sniðið að einstaklingum sem ekki luku grunnmenntun á sínum tíma en einnig er veitt aðstoð á öðrum skólastigum, t.d. í samstarfi við Verkmenntaskólann á Akureyri svo eitthvað sé nefnt. SÍMEY starfar með fjöldamörgum aðilum við þróun náms og í að þróa fleiri tækifæri fyrir fyrirtæki og fólk til að efla síg í sí- og endurmenntun. Mikill vöxtur hefur að undanförnu verið á verklegu- og skapandi námi og einnig á því sem kallast FAB Lab (Stafrænar smiðjur) sem er unnið m.a. í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð og VMA. Frá því Betty hóf störf hjá SÍMEY hefur starfsmönnum fjölgað úr 4 í 12 og hefur starfsemin vaxið umtalsvert. Á vegum SÍMEY má stunda vottað nám í námsleiðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og einnig í samstarfi við Keili (Reyjanesbæ). SÍMEY veitir náms- og starfsráðgjöf og hefur umsjón með fyritækjaskólum hjá Samherja, Norðurorku, Höldi, Búsetudeild Akureyrarbæjar, grunnskólum Akureyrar og fleiri aðilum.

Mörg verkefni eru í gangi, t.d. „Markviss“ þarfagreining sem fer fram á vinnustöðum þar sem verið er að greina fræðsluþarfir og möguleika til uppbyggingar mannauðs. Dæmi um nýtt verkefni er „Sjósókn“ þar sem sjómenn sem ekki luku framhaldsskóla eru aðstoðaðir í námi í samstarfi við 6 útgerðarfélög. Mikill vöxtur hefur verið í raunfærnimati þar sem verið er að meta þekkingu fólks á vinnumarkaði á móti ýmsum námsleiðum t.d. Iðnnámi. Betty segir að „sá sem fer í SÍMEY kemst aldrei þaðan...“ - lærdómsþorsti er greinilega ávanabindandi. En kostar þjónusta SÍMEY? Svarið er kannski já og nei – það kostar ekkert að fá kynningu á þjónustunni en kostnaður fylgir sérsniðnum námskeiðum. Stundum er kostnaði mætt með styrkjum sem SÍMEY sækir um ásamt öðrum. Betty fékk að lokum nokkrar spurningar frá félögum og í svörum kom fram m.a. að stofnaðilar SÍMEY voru sennilega um 41 talsins, stéttarfélög, atvinnulíf og skólar og að starfsemin miðist ávallt við að benda á raunhæfar leiðir til að nemendur geti lokið námi. Umræða var um hvort óskir atvinnulífsins berist með skýrum hætti til SÍMEY og hvort mat lægi fyrir á kostnaði við mögulegar launahækkanir sem fylgja bættri menntun. Betty var þökkuð kærlega fyrir fróðlegan og góðan fyrirlestur.