Fréttir
  • Björn Víkingur Björnsson, Fjallalambi

18.3.2015

Björn Víkingur Björnsson, Fjallalambi

18. mars 2015

Björn Víkingur Björnsson frá Fjallalambi, Kópaskeri, var gestur fundarins. Hann bauð okkur upp á ljúffengan hráan lambaforrétt, svokallaðan „Höfðingja“ úr veturgömlum sauð og grafið kindafilé sem kallast "Æringi". Algert lostæti. Björn Víkingur getur rakið ættir sínar til ömmusystur sem bjó á Akureyri og Guðjóns nokkurs á trésmíðaverkstæðinu Fjölni en nefndi ekki af fyrra bragði systur sína Rannveigu, sem er í klúbbnum. Fjallalamb var stofnað á árinu 1990, skammt eftir andlát Kaupfélags Norður Þingeyinga. Um 130 einstaklingar og fyrirtæki eiga hlut í Fjallalambi og heimamenn eru þar 80%. Starfssvæðið er riðufrítt og er það einsdæmi, varið af Jökulsá á Fjöllum í vestri og teygir sig austur að Bakkafirði. 15 til 18 starfsmenn starfa allt árið hjá félaginu sem fylgir Evrópureglum eftir endurskipulagningu á árinu 2004. Fallþungi dilka (eingöngu sauðfé) var 16,9 kg á árinu 2014, sem telst mjög gott en á slæmu ári getur fallþungi legið nærri 14 kg. Allar vörur eru úr lamba- og ærkjöti. Frægust afurða er Hólsfjalla hangikjöt en einnig er Fjallalamb þekkt fyrir forrétti úr ærkjöti, ölpylsur, grillkjöt og slátur. Söluaðilar eru margir, meðal annars Fjarðakaup í Hafnarfirði og Nettó á Glerártorgi. Í nokkur ár hefur verið unnið við upprunamerkingu þar sem framleiðsla er rakin til bæja. Slíkt kerfi getur virkað hvetjandi á framleiðendur. Björn Víkingur fékk margar spurningar frá fundarmönnum en í svörum kom fram að sauðfé neytir fjölbreyttrar gróðurfæðu (t.d. ekki eingöngu kjarngott gras þótt það sé í miklu framboði en það flækir samband fæðuframboðs og fallþunga) og bragð er almennt svipað milli bæja á sama svæði. Einhæf fæða getur þó haft áhrif á bragðið, t.d. hátt hlutfall sjávarfæðu í Grímsey. Birni Víkingi var vel þakkað af söddum fundarmönnum.