Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri
11. mars 2015
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, var gestur fundarins. Hann rekur móðurætt sína til Reyðarfjarðar (Stuðla) og lengra aftur til Ísafjarðar og Hesteyrar (Hesteyrarfjarðar). Föðurættin er sunnlensk en tengist norður gegnum Ingibjörgu Ögmundsdóttur, sem tók við símstöðvarstjórastöðu af manni sínum látnum. Faðir hennar var Ögmundur sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen í náttúrufræðileiðangra og fjallið „Ögmundur“ í Kerlingafjöllum er nefnt eftir honum. Eyjólfur kom til Háskólans á Akureyri ásamt fjölskyldu á árinu 2000, þá verðandi doktor í umhverfis- og auðlindafræði og starfaði sem lektor og dósent til ársins 2007. Þá hvarf hann í annan heim til starfa hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP en leikjasamfélagið sem fylgir Eve Online leiknum er um 400 þúsund manns og 60-70 þúsund manns geta verið að spila samtímis. Erindi Eyjólfs var um háskóla og samfélag. Háskólinn er vettvangur menntunar og rannsókna, þar sem þekking er efld með rannsóknum og henni miðlað alþjóðlega og til nærsamfélagsins. Háskólinn þarf að vera virkur og sýnilegur þátttakandi í samfélaginu og gagnrýna þegar við á. Sýnileiki fæst með þátttöku á margs konar samfélagsmiðlum. Framtíðarsýn HA til ársins 2017 er aukin alþjóðleg virkni sem byggir á þeirri viðurkenningu sem skólinn hefur fengið, upptaka doktorsnáms og leiðandi afl í starfi á norðurslóðum. HA mun halda áfram að styðja við landsbyggðirnar, stuðla að sjálfbærni og yfirfærslu þekkingar. Eyjólfur hvetur til lausna á verkefnum frekar en að gera verkefnin að vandamálum. Samtal háskóla og samfélags má lýsa með fimmhyrndu líkani þar sem hornpunktarnir eru að hlusta, greina, hanna, prófa, ræða og meta.
Eyjólfur kynnti að lokum nýtt tveggja ára diplómanám í tölvunarfræðum við HA, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík með stuðningi Samtaka atvinnurekenda á Akureyri (SATA). Þrívíður sýndarveruleiki er nú þegar mögulegur og felur í sér mikla möguleika í leik og starfi. Að lokum vildi Eyjólfur ráðleggja Rótarýklúbbnum að vera meira sýnilegur á ýmsum vefmiðlum (t.d. Reddit, Twitter og Facebook). Við „erum ekki til“ ef við sjáumst ekki.