Garðar Már Birgisson hjá Þulu
25. febrúar 2015
Garðar Már Birgisson var gestur fundarins, frá félaginu Þula eða þess heldur „Thula“, en hugtakið frumþula hefur verið notað yfir source code. Garðar býr í Eyjafirði við Botnsreit sem er Rótarýfélögum hugleikinn. Félagið var stofnað 2011 og hjá því eru 12 stöðugildi og 5 verktakar, 10,25 starfsmenn á Akureyri og hinir í Reykjavík (0,25), Portúgal (3) og Noregi (2). Helstu hugbúnaðarþulur heita Alfa og E-receipt sem eru annars vegar lyfjaumsýslukerfi og hins vegar lyfseðilskerfi, samtals með yfir 20 þúsund notendur, flestir í Noregi. Enginn klínískur lyfjagrunnur er til á Íslandi og því vinnur Þula nú að því að koma honum á í samstarfi við hérlenda aðila (Lyfjaver ehf, Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri) og aflar sér reynslu hérlendis í samstarfi við öldrunarheimili (aðallega dvalarheimilið Hlíð). Lyfjastofnun í Noregi þarf að semja við Lyfjastofnun Íslands, en norsku aðilarnir hyggjast veita frían aðgang að kerfinu í því samstarfi.
Þula á rætur að rekja til félaga á borð við deCODE, eMR og Theriak og hefur starfsemin aflað umtalsverðra gjaldeyristekna. Þegar Garðar kom fyrst til Akureyrar á árinu 1988 þá var lítið að gera fyrir tölvumenntað fólk, kannski helst á tölvudeildum KEA og ÚA. Unnar Lárusson var þá helsti frumkvöðull á þessu sviði (stofnaði m.a. Tölvutæki). Á árinu 2015 eru talsvert fleiri tölvu- og forritunarfyrirtæki starfandi á Akureyri, þar á meðal Libra, Advania, Wise lausnir, Stefna, DoJo Software, Þekking, Þula og dk hugbúnaður. Nú er gott að vera með svona starfsemi á Akureyri en ferðakostnaður til útlendra viðskiptavina er þó óþarflega hár og tímafrekur.
Við lok kynningar fékk Garðar spurningar um lyfjagrunninn, kynjaskipti starfsmanna og umsvif Þulu erlendis. Hérlendis þarf að skrá upplýsingar um innihald lyfja og gefa leiðbeiningar á íslensku. Kostnað má að hluta sjá í kerfinu. Kvenfólk er í miklum minnihluta en fjölgar. Fleiri þjóðir eru á markaðssvæði Þulu en Noregur er stór biti í bili. Heimilislæknar í Noregi eru ábyrgir fyrir lyfjanotkun og gefa ávísun á innihald lyfja, í stað tiltekins lyfs frá ákveðnum framleiðanda. Garðari var í lokin þakkað fyrir áhugavert erindi.