Fréttir
Heimsókn til Kjarnafæðis á Svalbarðseyri
4. febrúar 2015
Eðvald Valgarðsson, gæðastjóri og Ólafur Már Þórisson markaðsstjóri tóku á móti okkur í nýju 4000 m2 húsnæði Kjarnafæðis á Svalbarðseyri. Þeir félagar fóru yfir starfsemi Kjarnafæðis á meðan gestir gæddu sér á þorramat í boði félagsins. Kjarnafæði var stofnað á árinu 1985, þá með 2 starfsmenn en nú eru þeir um 130 og heildarvelta ásamt tengdum aðilum um 6 til 8 milljarðar króna á ári (Kjarnafæði á eignarhluti í fjölda fyrirtækja, m.a. sláturhúsum, Norðanfiski, Nonna litla og fasteignafélögum). Uppbygging hefur verið frá árinu 1993 á Svalbarðseyri. Starfsemin felst í alhliða kjötvinnslu fyrir stærri aðila en einnig á smásölu- og mötuneytismarkað. Helstu áskoranir eru að komast yfir hráefni, ná að framleiða úr því og standa í inn- og útflutningi fyrir marga hagsmunahópa á sveiflukenndum markaði. Innflutningur er helst á kjúklingum og nauta- og svínakjöti. Ferðamenn til landsins eru orðnir um milljón árlega og ekki er framleitt nóg af mat hér á landi fyrir svo marga. Lambakjöt er þó afgangsvara og þyrfti að kynna betur fyrir útlendingum sem hingað koma. Flytja þarf inn tiltekna hluta úr dýrum fyrir ákveðna framleiðslu (t.d. beikon og skinku).
Bræður stjórna fyrirtækinu sem eru fljótir að aðlaga framleiðsluna að breyttum markaði og starfsmenn hafa langa reynslu af því að haga seglum eftir vindi. Mikil vöruþróun fer fram en einnig þróun í auglýsingum á vöru (sýnd t.d. auglýsing með Ósk Norðfjörð sem sló í gegn en var samt gagnrýnd af femínistum). Nú þarf að auglýsa kæfu í nýjum umbúðum og spurning hvernig það verður best gert. Lykilatriði er að eigendurnir vinna sjálfir hjá fyrirtækinu, ráða traust starfsfólk sem þekkja markaðinn. Stakkur er sniðinn eftir vexti og félagið hefur frá upphafi haft sömu kennitöluna. Vikuþörf í framleiðslu er um 1600 dilkar, 200 grísir, 80 naut, 10 hross og 25 folöld. Slátrun fer fram á Vopnafirði, hjá B. Jensen og Stjörnugrís á Kjalarnesi.
Eðvald sýndi okkur verksmiðjuna þar sem gerðar eru miklar gæðakröfur og mikill rekjanleiki á allri vinnslu. Í vinnslurýmunum eru úrbeiningarvélar, söltunarvélar, flæðilínur, reykingarsalur, kæligeymslur, þvottasalur og pökkunarvélar, svo eitthvað sé nefnt. Mikil hagræðing hefur verið í vinnslunni og sem dæmi vinna nú fjórir við nýja fullkomna pökkunarvél verk sem fjórtán manns sinntu áður.
Fundarmenn kvöddu Svalbarðseyri glaðir í bragði (bókstaflega).
Bræður stjórna fyrirtækinu sem eru fljótir að aðlaga framleiðsluna að breyttum markaði og starfsmenn hafa langa reynslu af því að haga seglum eftir vindi. Mikil vöruþróun fer fram en einnig þróun í auglýsingum á vöru (sýnd t.d. auglýsing með Ósk Norðfjörð sem sló í gegn en var samt gagnrýnd af femínistum). Nú þarf að auglýsa kæfu í nýjum umbúðum og spurning hvernig það verður best gert. Lykilatriði er að eigendurnir vinna sjálfir hjá fyrirtækinu, ráða traust starfsfólk sem þekkja markaðinn. Stakkur er sniðinn eftir vexti og félagið hefur frá upphafi haft sömu kennitöluna. Vikuþörf í framleiðslu er um 1600 dilkar, 200 grísir, 80 naut, 10 hross og 25 folöld. Slátrun fer fram á Vopnafirði, hjá B. Jensen og Stjörnugrís á Kjalarnesi.
Eðvald sýndi okkur verksmiðjuna þar sem gerðar eru miklar gæðakröfur og mikill rekjanleiki á allri vinnslu. Í vinnslurýmunum eru úrbeiningarvélar, söltunarvélar, flæðilínur, reykingarsalur, kæligeymslur, þvottasalur og pökkunarvélar, svo eitthvað sé nefnt. Mikil hagræðing hefur verið í vinnslunni og sem dæmi vinna nú fjórir við nýja fullkomna pökkunarvél verk sem fjórtán manns sinntu áður.
Fundarmenn kvöddu Svalbarðseyri glaðir í bragði (bókstaflega).