Fréttir
  • Sigmundur Ófeigsson

28.1.2015

Sigmundur Ófeigsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar

Fundur 28. janúar 2015

Ragnar Jóhann Jónsson fór með stuttan formála að erindi Sigmundar Ófeigssonar (gestur fundarins) um Golfklúbb Akureyrar (GA). Til stóð upphaflega að fá Gunnar Sólnes til að flytja slíkt erindi, þá í húsnæði klúbbsins að Jaðri en heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur setti strik í reikninginn og skýrir 7 mánaða ruðningsáhrif, og svo breytingu á ræðumanni. Sigmundur er formaður Golfklúbbsins en ekki golfari sjálfur (áhugamaður samt). Að hans sögn er golf fín hreyfing og hentar líka konum. Einn hringur er um 8-12 km og margir fara 2 hringi (einnig hægt að keyra á golfbílum). Golfsvæðið er skemmtilegt og göngustígar að koma sem liggja þar um án þess að göngufólk eigi á hættu að fá kúlu í sig. GA er næstelsti golfklúbbur landsins, stofnaður 1935, og fyrsti formaður var Gunnar Schram. Fyrsti völlurinn var á Gleráreyrum, 6 holur. Í dag er Jaðarsvöllurinn 18 holur og 9 holur í Lundi. Á árinu 2007 var gerð metnaðarfull áætlun um enduruppbyggingu í samstarfi við Akureyrarbæ. Efnahagshrun seinkaði framkvæmdum og jók kostnað en nú hefur verið gerður nýr samningur í aðdraganda móts sem haldið verður 2016. Helsti rekstrarkostnaður tengist umhirðu (grasslætti og viðhaldi) og var t.d. mikið kal um vorið 2011 - vel hefur tekist að vinna á kali með rafhituðum 'þakrennukapli'. Hálfgerð mýri víða og stundum súr jarðvegur. GA hefur góða inniaðstöðu í Íþróttahöllinni og kennari þar í fullu starfi. GA starfrækir einnig fullkomna golfherma. Nú er mikill uppgangur, öflug framkvæmdastjórn og velta nú í fyrsta sinn yfir 100 Mkr á ári. 17 þúsund félagar eru í golfklúbbum um land allt og hafa þeir tvöfaldast síðastliðin 10 ár. Yfir 60 þúsund manns spila golf árlega. Tekið er á móti skólum og á Akureyri hefur Jóhannes Bjarnason íþróttakennari séð um að mæta með hópa þaðan.

Þessi íþrótt er ekki ríkra manna sport eins og víða erlendis - árgjald er 79 þúsund krónur, aldraðir greiða 55 þúsund krónur og unglingar 30 þúsund krónur. Krafist er reglusemi þrátt fyrir veitingasölu á staðnum. Engin unglingavandamál þekkjast. Golfarar fá forgjöf eftir getu, t.d. fær byrjandi 36 högga forgjöf og má þá klára 71 holu braut á 71+36=107 höggum. Þá keppir hver og einn við sjálfan sig og brautina. Samkvæmt félagakönnun 244 félaga þá eru, 84% karlar. Flestir á aldrinum 31-60 ára. 70% þátttakenda spila 2-5 sinnum í viku. Heildarfjöldi félaga er 679, þar af ca. 450 karlar, 130 konur og 100 börn. 25 þúsund hringir spilaðir á ári. Á næstu árum þarf að klára uppbyggingu og kortleggja kennileiti (nú er leitað að kunnugum sem þekkja þau). Ein braut kostar um 15 Mkr, yfirleitt hannaðar af Edwin Roald. Það er ekki auglýst sérstaklega, en Jaðarsvöllurinn er ekki lengur nyrsti völlur veraldar (tveir aðrir norðar). Arctic Open er stærsta mótið á vellinum og margir sem koma langt að finnst frábært að geta spilað í björtu allan sólarhringinn í fullkominni kyrrð (fyrir utan fuglahljóð). Mörg tækifæri tengjast golfvellinum, t.d. ferðaþjónusta, barna, unglingastarf, útivist, hjólabrautir og fleira. Saga félagsins er varðveitt ásamt gögnum á Héraðsskjalasafninu.