Fréttir
  • Kristín Aðalsteinsdóttir

21.1.2015

Stigið inn í nýtt æviskeið

Rótarýfundur 21. janúar

Gestur fundarins, Kristín Aðalsteinsdóttir, fjallaði um hvernig það er að hætta störfum og fara á eftirlaun, eða með öðrum orðum hvernig stigið er inn í nýtt æviskeið. Kristín hefur síðustu 20 árin starfað við Háskólann á Akureyri og lauk því starfi með viðtölum við eldra fólk. Það fólk getur haft áhyggjur af afkomu sinni, orðið einmanna, leiðst og fundið fyrir tilgangsleysi, svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum að skilgreina nýja samfélagsstöðu því margir eru í fullu fjöri þótt þeir séu yfir 100 ára (Kristín sýndi ljósmyndir því til sönnunar). Mataræði, hreyfing og væntumþykja er lykillinn að vellíðan, á þessu aldurskeiði sem og öðrum. 20 mínútna hreyfing á dag kemur í veg fyrir hjartasjúkdóma (ýmsar líkamsæfingar eru hluti daglegs lífs margra, til að mynda í Kína). Einnig þarf fólk að halda áfram að vera jákvætt, borða hollan mat og rækta kærleikann, njóta leikhúss, lesturs, tónlistar, gönguferða, bjóða fólki heim, sinna ættingjum, vinna sjálfboðastarf, skrifa, hvíla sig, hlusta á erindi og/eða útvarp, sækja menningarviðburði og almennt fylgja löngun sinni - dagurinn dugar ekki. Kristín lauk erindi sínu á að rekja ættir sínar til Kelduhverfis og Berufjarðarstrandar, en hún flutti ung að aldri frá Kelduhverfi til Keflavíkur en kom þaðan til Akureyrar tvítug að aldri og kynntist þar manni sínum þegar hann bauð henni í hálendisferð. Doktorspróf sitt hlaut hún í Bretlandi og á 3 börn.