Fréttir
  • Haraldur Sigurðsson

8.11.2014

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur

Fundur 1. október 2014

Félagi Rannveig Björnsdóttir kynnti Harald Sigurðsson eldfjallafræðing og hans merka fræðimannsferil, lengst af prófessor í Rhode Island háskólanum í Bandaríkjunum og nú forstöðumaður eldfjallasafns í Stykkishólmi.
Haraldur hóf erindi sitt á skilgreiningu á heita reitnum undir Íslandi á 660 km dýpi sem hefur á 250 milljón árum staðið kjurr, fyrst undir Síberíu, meðan jarðskorpan hefur færst yfir - eldgos í Grænlandi eru til að mynda frá þessum reit. Skorpuhreyfingar, sprungumyndanir og kvikugangar við Bárðarbungu og Holuhraun voru útskýrð ásamt eðli hraunsins og stærð miðað við helstu umbrot á Íslandi og víða um heim. Kvikan er um 1175°C heit með litla seigju sem leiðir m.a. til fínna þræða (<1 mm) í storkunni sem kallast "nornahár". Íssig bárðarbungu er skýrt annars vegar með bráðnun og hins vegar bergsigi.
Spurningar voru nokkrar og í svörum kom m.a. fram að heitir reitir gætu verið um 49 á jörðinni, mis langlífir. Staðsetning heita reitsins er helst mæld með He samsætugreiningu. Líklegt er að Holuhraunsgosið haldi áfram í svipuðum farvegi um tíma.