Fréttir
  • Dr. Sigrún Stefánsdóttir

16.1.2015

Sigrún Stefánsdóttir heimsækir klúbbinn

Klúbbfundur 14. janúar 2015

Sigrún Stefánsdóttir, PhD í fjölmiðlafræði flutti erindi um sýnileika og jákvæða fjölmiðlun. Fyrirlesarinn er flestum landsmönnum kunn en hún á fjölbreytan starfsferil, að mestu tengdan fjölmiðlum, og er nú forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Segja mætti að Sigrún eigi ættir sínar að rekja til fundarstaðarins (Hótels KEA), þar sem foreldrar hennar kynntust, þá starfsmenn hótelsins. Afi hennar, Árni Stefánsson, var húsasmíðameistari og teiknaði nokkur hús á Akureyri, m.a. við Brekkugötu.
Sigrún nefndi að öll verkefni þurfi "sýnileika". Sýnileiki þarf að vera í mörgum baráttumálum, svo sem í umræðu um Reykjavíkurflugvöll og fjármál HA. Dæmi um mikinn sýnileika er þegar Landspítalinn tók RÚV nánast í "gíslingu" til að lýsa slæmu ástandi þar. Einnig þarf hagsmunaaðilinn að velja fjölmiðlamann sem hefur áhuga á því málefni sem þarf að berjast fyrir. Ekki má gefast upp og ýta þarf á eftir málum. Stundum verða snjóboltaáhrif, t.d. þegar mikil umræða um lokun í Hlíðarfjalli fór af stað eftir litla ábendingu. Rætt var um mistök sem viðmælendur gera og klúður stjórmálamanna sem segja ekki strax hvernig í málum liggur (t.d. lítt sannfærandi eftiráskýringar þegar forsætisráðherra fór ekki á samstöðufund í Frakklandi í kjölfar hryðjuverka þar). Nálægð skiptir máli og stundum tengja fréttamenn erlenda stóratburði við atburði hér heima (t.d. jarðskjálfta eða viðtöl við Íslendinga sem búa í hamfaralandi).
Sigrún les nú athyglisverða bók um jákvæða fréttamennsku, eða "Konstruktiv jounalistik" eftir danska höfunda, þar sem skilaboðin eru að segja vel frá slæmum málum en skila samt einhverri bjartsýni til fólks sem fær fréttirnar.
Svo voru skilaboð til kvenna: Þær þurfa að tala meira í fyrirsögnum eins og karlar gera. Sigrún dróg fram myndir af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni annars vegar og Tinnu Gunnlaugsdóttur hins vegar sem sýna sjálfstraust (og sjálfumgleði?) annars vegar og hlédrægni hins vegar.
Hugðarefni Sigrúnar um þessar mundir er Vísindaskóli HA sem haldinn verður fyrir 11-13 ára gömul börn. Gert er ráð fyrir að lágmarki 75 nemendum og kennt verður í eina þéttskipaða viku í ýmsum fögum, m.a. líffræði, fjölmiðlafræði, heilsufræði og sjávarútvegsfræði.
Fréttatilkynning um það verkefni er að finna á uppgefinni slóð hér fyrir neðan, ásamt myndinni af Sigrúnu sem notuð er hér:
http://www.unak.is/is/frettir/visindaskoli-ha-verdur-ad-veruleika