Jólafundur 17. desember 2014
Að venju voru góðar veitingar á Jólafundi Rótarýklúbbsins. Veitingamenn Hótels KEA kynntu fyrir okkur matinn, sem var m.a. rauðkálsleginn lax, hangikjöt með uppstúf og purusteik. Möndlugrautur (ris a la mande) og kaffi á eftir. Gott upphaf jólahátíðar.
Soffía Gísladóttir las jólahugvekju, þó með þeim formála að reynt hafi verið að fá a.m.k. þrjá aðra til að lesa fyrir okkur, þar af einn prest (Odd Bjarna Þorkelsson, Dalvík) en þeir upplesarar komust ekki af ýmsum ástæðum. Sagan sem Soffía las var gömul frásögn stúlku af ferðum föður síns, Jóns Sigurbjörnssonar, og fleira fólks í verslunarleiðangri frá Fagranesi í Öxnadal til Akureyrar fyrir jólin í miklu illveðri. Farið var m.a. á hestum og skíðum og leitað skjóls ásamt gistingar á mörgum bæjum, þar á meðal Krossastöðum, Þelamörk og Engimýri svo einhverjir bæir séu nefndir. Í poka föðursins við heimkomu var m.a. hveiti, kaffi, sykur og rúsínur sem allt voru munaðarvörur þess tíma. Sameiginleg jólaskemmtun var svo haldin á Bessahlöðum. Jólaylur sögunnar hlýjaði okkur um hjartarætur.
Samkvæmt hefð var sálmurinn "Heims um ból" sunginn fyrir fundarslit kl. 19:40.