3000. fundur Rótaryklúbbs Akraness
Umdæmisstjóri í heimsókn á merkum tímamótum
62 ára gamall klúbbur hélt sinn 3000. fund þann 11.nóvember 2009 að viðstöddum umdæmisstjóra hreyfingarinnar.
Fundur Rótarýklúbbs Akranes miðvikudaginn 11. nóvember síðastliðinn var sögulegur fundur. Ástæðan var sú að komið var að 3000. fundi klúbbsins frá upphafi í óslitinni 62 ára sögu hans. Í tilefni af þessum sögulega fundi voru félagar Rótarýklúbbsins sammála um að minnast tímamótanna á sérstakan máta. Stjórn Rótarýklúbbsins ákvað að styðja við samfélagið á Akranesi á þessum erfiðu krepputímum með því að styrkja starf Mæðrastyrksnefndarinnar á Akranesi. Á fundinum tók Aníta Gunnarsdóttir, fulltrúi Mæðrastyrksnefndarinnar á Akranesi, við styrk upp á 300 þúsund krónur frá Rótarýklúbbi Akraness. Í þakkarræðu sinni sagði Aníta frá þeirri miklu þörf sem er á fjárhagslegum stuðningi til fjölskyldna á Akranesi sem búa við kröpp kjör nú um stundir. Í fyrra tóku um 130 fjölskyldur á Akranesi við styrkjum frá Mæðrastyrksnefndinni á Akranesi og yrðu það ekki færri fjölskyldur sem þyrftu á styrkjum að halda í ár.
Umræddur 3000. fundur Rótarýklúbbs Akraness var þó ekki eingöngu helgaður því að styrkja samfélagið á Akranesi heldur einnig að efla félagsskapinn. Guðlaugur Ketilsson, félagi til 25 ára, rifjaði upp bæði 1000. fundinn sem og 2000. fundinn sem haldnir voru fyrir rúmum fjörutíu og rúmum tuttugu árum með því að lesa fundargerðir þeirra sem grafnir höfðu verið upp á Héraðsskjalasafninu. Lárus Ársælsson, félagi til 14 ára, steig í pontu og kynnti staupglas sem klúbburinn hefur látið gera til minningar um þessi tímamót. Glasið er með merki hreyfingarinnar, merkt Rótarýklúbbi Akraness og 3000. fundinum. Fundarmenn fengu allir staupglas til minnis um þessi tímamót. Glösin verða seld á starfsárinu til fjáröflunar verkefnum sem Rótarýhreyfingin vinnur að á heimsvísu, svo sem til að styrkja baráttuna gegn lömunarveiki og ólæsi.
Fundarefni þessa merka fundar var heimsókn umdæmisstjóra. Því kvaddi Sveinn H. Skúlason, umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, sér hljóðs. Hann sagðist hafa ákveðið að koma í heimsókn í Rótarýklúbb Akraness í júlí án þess að láta sig dreyma um hvað hann ætti í vændum. Í ræðu sinni fjallaði Sveinn um starfsemi Rótarýhreyfingarinnar á alþjóðavísu og á Íslandi, meðal annars um baráttuna gegn lömunarveiki og ólæsi, jafnframt sem hann minntist á starfið fyrir unga fólkið og fólk í atvinnulífinu sem alþjóðahreyfing Rótarýs vinnur að.