Kveðskapur og pistlar

30.4.2012

Ferð til Frakklands 2007

Tekið úr ferðasögu skráðri af Gunnari Sigurjónssyni

Frábær og magnaður dagur sem reyndi á allan tilfinningaskalann var að kveldi kominn og örmagna ferðalangar héldu til náttstaðar. Þó varð ekki öllum svefnsamt, að minnsta kosti ekki þeim er varði allri nóttinni í það að semja mikinn brag um upplifun dagsins.

Hugrenningar frá Paimpole

Ég  horfi út á hafið
við helgan kross á strönd.
Hvar minnismark er grafið
um menn við ókunn lönd.

Ei mæðu nokkur mundi
þá minnkar þeirra bið
sem eiga fegins fundi
við fengsæl aflamið.

Þá gæftir eru góðar
gleymist harmur fljótt.
Þeir ætla sér þá óðar
aftur á miðin skjótt.

Gæfu er núna grandað
gleði í sorg er breytt.
Öllu í stormi strandað
stórgróða burtu eytt.

Þá er ei hugsað happið
heppni né gróða frá.
Öllu er kostað kappið
að koma sér landið á.

Björguðust sumir af sundi
sukku í djúpið öll
sem eigum við endurfundi
við eilífðar sjávarföll.

Mér hugsað varð um hana
sem heima beið í von.
Hver bíða mundi bana
”blessa Guð ? minn son”

“Blessa son og bróður
blessa þá í neyð.
Að léttur reynist róður
þeir rati heim á leið.”

Garður geymir vini
og gengna sómamenn.
Og þær sem syrgðu syni
sína og eiginmenn.

Hvers á hún að gjalda
sem heima fær ei breytt
örlögum er valda
öllu ? í ekki neitt.

Hún gifti sig í svörtu
og sorgar hafði bönd.
Hvítt mun bera á björtu
bænarinnar strönd.

Hve sár mun sorgin vera
og sorgar tárin stríð.
Bænir þeirra bera
blessun alla tíð.

Allir sem aftur sneru
eiga sinn dvalarstað.
Síðustu sókn þeir reru
sælunnar miðum að.

Heilögum hér í garði
helguð er minning kær.
Merkur þó minnisvarði
minningu hinum ljær.

Hvar gaum er gefin sála
en gleymum ekki þeim
sem héldu á Íslands ála
og aldrei komu heim.
Gunnar Sigurjónsson, október 2007.