Stjórnaskiptafundurinn 2010 haldinn í Ólafsfirði
Tekið úr fundargerð skráðri af Bjarnheiði Guðmundsdóttur
Það vakti sérstaka athygli margra, hvað einn félaginn úr Borgum var í flottum fötum á fundinum. Hann hafði nefnilega tekið með sér í misgripum jakkaföt sonar síns og komst ekki í þau, en því var snarlega reddað.
Af því tilefni orti Ingi Kr.:
Í Ólafsfirði indælt var,
á ýmsu má þar smakka
og vænt er að þekkja Valdimar
ef vanta skyldi jakka.
Valdimar er félagi í Rkl. Ólafsfjarðar og hann jafnan vel til fara.
Eftir fundinn gengu margir niður að höfn til að skoða sólarlagið og mannlífið.
Þá orti Ingi Kr.:
Má það teljast mikils virði
að mega vera hér í kvöld
og eiga nótt í Ólafsfirði
í ótrúlegri vinafjöld.
Ingi Kr. var gerður að söngstjóra í rútunni.
Hrafn Harðarson sagði þá:
Er undra þó að enginn syngi
í Ólafsfjarðarrútu,
þá söngstjórinn er sjálfur Ingi
og situr fast(ur) í mútu.
Bjarnheiður, fráfarandi ritari, þakkaði stjórn og félögum fyrir samstarfið og ávarpaði Sveinbjörn, fjarverandi verðandi ritara, þannig:
Tíminn líður tifar klukkan
taktföst segir lifa, lifa.
Blekið þornað, blessuð lukkan
Bjössi vinur, skrifa, skrifa.
Hrafn ( Krummi) hélt tölu um það að hann fyndi til minnimáttarkenndar með jafn ættstóru fólki og skipuleggjendum ferðarinnar. Hann væri hvergi frá, bara úr Kópavogi.
Þá sagði Ingi Kr.:
Lítill mun þar efi á
að ættfræði sé hættuspil.
Krummi er sko hvergi frá
og Kópavogur ekki til.
Ólöf ( Lóa ) sagði “ekkimennina” Krumma og Snorra ( Krummi á ekki uppruna og Snorri kom ekki með jakka ) hafa vakið athygli sína. Hún sagði:
Tvo náunga vil ég nefna í bögu
með neikvæðum formerkjum koma við sögu.
Sá fyrri af kumpánum mætti óklæddur,
en karlanginn seinni er ennþá ófæddur.
Ingi Kr. svaraði:
Í það mætti eflaust spá
og öllum liði sjálfsagt skár,
ef Lóa fengi að fóstra þá,
fæða og klæða í nokkur ár.
Undir lok ferðarinnar og eftir óvæntar og mjög ánægjulegar móttökur Ásgeirs Guðmundssonar að Grímarsstöðum tóku karlarnir að kveðast á af talsverðri leikni svo að Ólöfu þótti ástæða til að hrósa þeim:
Kappar taka´ að kveðast á
karlar vegamóðir.
Hæfnin ekki hallar á
helvíti´ eru´ þeir góðir.