Fréttir

21.2.2018

Viðburðarík dagskrá Rótarýdagsins n.k. laugardag

Rótarýdagurinn verður haldinn laugardaginn 24. febrúar n.k.. Rótarýklúbbar víða um land efna þá til viðburða undir yfirskriftinni „Látum rödd Rótarý heyrast.“ Almenn kynning á störfum Rótarýhreyfingarinnar fer fram og klúbbarnir leggja áherslu á að kynna framlag sitt til samfélagsþjónustu og kosti þess að starfa í góðum félagsskap innan Rótarý. Að þessu sinni verður athyglinni einnig beint að málefnum ungs fólks með tilliti til ásóknar og áhrifa hinna öflugu og margslungnu samfélagsmiðla. 




           
                                                                          Myndir frá fyrri Rótarýdögum


Rótarýklúbbarnir eru að leggja síðustu hönd á undirbúning dagskrár Rórarýdagsins hver í sinni heimabyggð og hafa margir þegar lokið því verkefni þó að ekki sé unnt, þegar þetta er ritað, að birta heildaryfirlit yfir alla viðburði dagsins hjá klúbbunum. Af eftirfarandi dæmum má þó ráða að fjölbreytni ríkir um val viðfangsefna í tilefni af Rótarýdeginum og leggja klúbbarnir áherslu á að kynna starf sitt fyrir íbúum á starfssvæðum sínum og láta rödd Rótarý heyrast.

Sjá dagskrá rótarýklúbbanna á Rótarýdeginum 2018 hér.

Nokkur dæmi undistrika þetta frekar:

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar efnir til dagskrár á Hornbrekku, dvalarheimili aldraðra í Ólafsfirði í tilefni af styrkveitingum á Rótarýdaginn. Þar fer fram kynning á Rótarýhreyfingunni og samfélagsstarfi klúbbsins.  Erindi verður flutt og sýndar ljósmyndir á tjaldi í umsjá stjórnar klúbbsins og Rótarýdagsnefndar. Þá verður haldið kaffisamsæti með heimilisfólki, starfsfólki og gestum í boði klúbbsins. Rótarýdagsnefndin afhendir heimilinu gjafir. Ennfremur verður afhentur fjárstyrkur til Pálshúss (safnahússins í Ólafsfirði) og farið yfir vinnuframlag klúbbfélaga í þágu hússins. Annar fjárstyrkur verður afhentur til Team Rynkeby vegna krabbameinssjúkra barna.Tilefnið er árleg hjólreiða- og söfnunarferð þeirra frá Kaupmannahöfn til Parísar.  Haukur Sigurðsson félagi í kúbbnum og liðsmaður í Team Rynkeby mun veita honum viðtöku. Fyrirhugað er að klúbburinn beri út kynningarbæklinga um Rótarýhreyfinguna á öll heimili í Ólafsfirði

Rótarýklúbburinn Borgir Kópavogi heldur sérstakan viðburð til styrktar Rótarýsjóðnum. Klúbbfélagar hafa tekið höndum saman og bjóða til uppboðs á munum, afþreyingu og gjörningum sem þeir koma að sjálfir. Dagskráin fer fram í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum og hefst kl. 14. Rótarýfélagar eru hvattir til að mæta með gesti með sér en kynningarefni um Rótarý verður aðgengilegt á staðnum fyrir áhugsama. Það verður auk þess heitt á könnunni!

Rótarýklúbbur Héraðsbúa leggur áherslu á unga fólkið í dagskrá sinni á Rótarýdaginn. Rótarýhreyfingin og klúbbstarfið verður sérstaklega kynnt. Fulltrúar unga fólksins flytja erindi.Tónlistarflutningur ungs fólks af Héraði. Fagfólk flytur ávörp um síma-, tölvu- og netnotkun unglinga. Kynning á nemendaskiptum Rótarý. Almennar umræður.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar heldur listsýningu rótarýfélaga  Ástjarnarkirkju laugardag kl. 14-17. Rótarýmessa verður í Ástjarnarkirkju á sunnudeginum kl. 11 og verður sýningin opin til kl. 14. 

Rótarýklúbburinn Reykjavík- Árbær mun í tilefni af Rótarýdeginum gefa gaum að unga fólkinu og verður sjónum beint að netnotkun barna og unglinga. Umfjöllun í Árbæjarblaðinu. Kynning á starfi Rótarý þar sem einnig er rædd og vakin athygli á netnotkun barna og ábyrgð foreldra. Klúbburinn stendur fyrir fræðslu í Ártúnsskóla fyrir 11-13 ára börn ásamt foreldrum.Tekið verður fyrir efnið: Netið og samfélagsmiðlar. Verður það gert í samvinnu við SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni).

Rótarýklúbbur Selfoss mun á fundi sínum á Hótel Selfoss 27. febrúar kl. 18.30 kynna starfsemi Rótarýhreyfingarinnar annars vegar og starfið í klúbbnum hinsvegar fyrir ungu fólki. Allir félagar bjóða a.m.k. einum ungum gesti á fundinn. Markmiðið er að vekja áhuga á Rótarýhreyfingunni og klúbbnum í hugum ungs fólks, þannig að það horfi til Rótarý sem valkosts í félagsstarfi. Stutt erindi flytja Garðar Eiríksson og Ásta Sigurðardóttir. 

 

 

 

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning