Fréttir

14.12.2017

Rótarýfélagar í mótorhjólaferð um Ástralíu

Þrír Íslendingar tóku þátt í alþjóðlegri ferð á vélhjólum um Suður-Ástralíu, sem þarlendir félagar í International Friendship of Motorcycling Rotarians buðu til. Ferðalagið stóð í tvær vikur í fyrri hluta nóvembermánaðar og var ekin 5000 kílómetra leið. Björn Viggósson, félagi í Rkl. Grafarvogs, hefur ritað meðfylgjandi frásögn af þessum sérstæða og skemmtilega  viðburði. Með honum á ferðalaginu voru Þóra Þórarinsdóttir og séra Gunnar Sigurjónsson, bæði félagar í Rkl. Borgum Kópavogi.

- Nú er lokið 16 daga mótorhjólaferðalagi um Suður-Ástralíu, AIR 17, sem skipulögð var af þarlendum IFMR félögum*. Ferðin stóð yfir dagana 30. október til 15. nóvember 2017. Yfir 20 erlendir gestir tóku þátt, þrír frá Íslandi, einn Norðmaður, tveir Þjóðverjar, tveir Belgar, fjórir Bretar, tveir frá Taívan og sjö Bandaríkjamenn. Um 30 heimamenn fylgdu okkur alla 5000 kílómetrana en margir bættust í hópinn og hjóluðu hluta leiðarinnar. Gist var á 11 hótelum og sýnir meðfylgjandi kort hjólaleiðina. 

Það sem kom mest á óvart voru hinar miklu vegalengdir, oft 400-500 km og allt upp í 600 km dagleiðir. Þessu eru heimamenn vanir en ekki við. Algengur hámarkshraði er 100 km/klst en 110 á bestu vegum. Merkilegt þótti mér að maður þreyttist lítið eftir að vera kominn í ferðagírinn, helst var það hraðinn sem erfitt var að halda. Sjaldnast var nema 5-7 tíma svefn, venjulega vaknað klukkan sex og oft lagt af stað um klukkan átta og hjólað í 6-10 tíma. Víða var farið í gegn um bæi þar sem hámarkshraðinn er ýmist 25, 40, eða 50 km/klst. Myndavélum er víða komið fyrir í bæjum og er sektað miskunnarlaust, breytilegt eftir fylkjum.        

                                                                            Íslensku ferðafélagarnir Björn, Þóra og Gunnar.


Á nokkrum stöðum tóku félagar í Rótarýklúbbum á móti hópnum, ýmist var grillað fyrir okkur í hádeginu eða við mættum á fundi þeirra. Við áttum skemmtilegan morgunverðarfund með Rótarýklúbbnum í Orange en borgarstjórinn er félagi í klúbbnum og stýrði móttökunefndinni af miklum skörungsskap. Borgarstjórinn, ung glæsileg kona kunni vel til verka og kallaði til fréttamenn og tökulið frá einni af stóru sjónvarpsstöðvunum. Það fyndna var að einhver hafði sagt henni að með í för væri háttsettur stjórnmálamaður frá Íslandi og hún ætlaði svo sannarlega að hafa mótttökurnar við hæfi. Ekki veit ég hver kom þessu af stað en það var auðvelt að leiðrétta misskilninginn. 

Rótarýklúbburinn í Clare tók á móti okkur með borgarstjórann í broddi fylkingar en hann mætti í sínum mótorhjólagalla. Þeir buðu til hádegisverðar í klúbbhúsi sínu sem er stór bygging sem þeir hafa afnot af til sinnar góðgerðarstarfsemi sem felst í því að safna saman dagblöðum og selja til endurvinnslu. Þar hafa þeir sína fundaraðstöðu sem er sérlega glæsileg. Gist var tvo daga í Ballarat, skammt frá Melbourne, sem eitt sinn var helsti gullgrafarabær í heimi. Þar tók hópurinn þátt í árshátíð IFMR í Ástralíu en hún var haldin í ,,dótakassa“ eins Rótarýfélagans. Þetta reyndist vera hálfgert safn og það ekki svo lítið. Mjög skemmtilegt samkoma sem sótt var af fjölmörgum heimamönnum.

Í Ballarat hitti ég skiptinemann Pat sem kom á vegum Rótarý til Íslands og dvaldi hjá okkur fyrir 10 árum. Þá var hann 17 ára, er frá ávaxtahéraðinu Mildura í Ástralíu, en býr núna í Melbourne. Pat kom um hádegið með konu sinni, Liana og sjö og hálfs mánaðar gömlum dreng þeirra, Clancy. Þau fóru með mig í lautarferð í fallegan almenningsgarð og gáfu mér skyr og rjóma sem nýlega kom á markað í Ástralíu. Það var gaman að hitta þau og áttum við dásamlega stund saman. Gott dæmi um einn þátt í alþjóðlegri starfsemi Rótarý.

Landslagið er fjölbreytilegt en í nokkra daga var keyrt um akurlendi þar sem skiptust á korn- og hveitiakrar, tún, kartöflurækt, ávaxtarækt, vínrækt og bithagar fyrir nautgripi, kvikfé, emúa og geitur. Við hjóluðum inn á öræfin þeirra eða outback eins og þeir kalla þau, gistum í Broken Hill sem oft er nefnd höfuðborg öræfanna. Þaðan lá leiðin til byggða og síðan eftir suðurströndinni sem er stórbrotin. Toppinum var náð þegar hjólað var eftir The Great Ocean Road sem er um 240 km langur hlykkjóttur vegur með fram ströndinni. Á kafla er leyfður 100 km hámarkshraði þó ómögulegt sé að hjóla á þeim hraða í vinkilbeygjunum, en sannkallaður draumavegur. 


Í Ástralíu eru öfgar í veðurfari, aðallega vegna mikils hita. Okkur kom því á óvart að oft var skítakuldi á morgnana, allt niður í 9°C sem vegna raka virkar eins og við frostmark á Íslandi. Hitinn var oftast þægilegur, um 25°C og gat farið yfir þrjátíu gráður. Við fórum um svæði þar sem hitinn er oft um 50°C langtímum saman á sumrin. Nú var vor í lofti, túnin græn og falleg og er það eini tími ársins sem hægt er að sjá slíkt því á öðrum tímum er gróðurinn gulur og skrælnaður vegna þurrka. 

Vegirnir eru hvorki betri né verri en okkar vegir enda glíma þjóðirnar við svipuð vandamál; fátt fólk í stóru landi. Ástralía er með stærri löndum heims og er ásamt Íslandi meðal dreifbýlustu landa með um 3 íbúa á hvern ferkílómetra en þéttbýlustu ríkin eru með um 50.000 íbúa á hvern ferkílómetra. Víða var skrítið að hjóla, því dauð dýr voru hvarvetna á og við vegina. Mest voru þetta stórar og litlar kengúrur (wallaby) og alla vega dýr sem ég kann ekki að nefna. Dýrin eru aðallega á ferli í ljósaskiptunum og verða þá fyrir bifreiðum. Þeir sem fremstir hjóluðu bentu öðrum á hætturnar og þeir létu þá sem á eftir komu vita. Ég verð að játa að ég var skíthræddur fyrstu dagana en síðan hvarf hræðslan. Upplýst var að vegagerðin hefur gefist upp á að hreinsa vegina og er almenningi og hrædýrum ætlaður starfinn.

Rótarýfélagar styðja mörg góð málefni um allan heim og í Ástralíu styðja þeir dyggilega The Flying Doktor sem gera út 69 sjúkraflugvélar sem oft eru einu samgöngutækin um þetta víðáttumikla land. Starfsemin er ekki ólík okkar ágætu slysavarnafélögum. Á ferð okkar öfluðum við fjár fyrir samtökin og gekk það vel. Mörg hótel gáfu helgarpakka og upp í vikudvöl með öllu. Þessi gjafabréf voru boðin upp. Eins er beitt sektum fyrir axarsköft dagsins og var það til gamans gert og kom sér vel í fjáröfluninni. Stemningin í hópnum var góð og var margt sér til gamans gert. Þegar svona stór hópur stoppar þá tekur það óhjákvæmilega langan tíma og gildir það jafnt um bensínstopp, pissustopp eða hádegismat. Glöggt er gesta augað. Hvar sem við komum eru almenningssalerni til mikillar fyrirmyndar, þau eru víða, snyrtilegt og ókeypis. Snyrtimennskan gildir líka um salerni veitingahús og hótela. 

Þegar ekið er í hóp þá er forystusauðurinn alltaf fremstur og við gatnamót þar sem breytt er um stefnu skipar hann næsta manni að stöðva til að vísa öðrum veginn þar til sá sem rekur lestina kemur. Með þessu móti fylgjast allir að enda bíður forystusauðurinn af og til þegar þétta þarf hópinn því oft verða tafir vegna umferðarljósa og vegaframkvæmda. Allur gangur var á hversu vel menn fylgdu þessu skipulagi enda vanari löngum leiðum og frjálsræði.

Það sem upp úr stendur var einstök gestrisni og hjartahlýja heimamanna. Alveg var sama hvað upp kom, leyst var úr hverju máli af einstakri lipurð. Með í för voru tveir hjálparbílar, annar með farangur en hinn með kerru fyrir mótorhjól sem átti eftir að koma sér vel því dekk sprungu á tveim hjólum og eitt hjólið gaf upp öndina. Það var Triumph hjól sem Þóra Þórarinsdóttir ók og fékk hún síðar Harley Davidson hjól í staðinn og lauk ferðinni með stæl. Engin slasaðist á þessari löngu leið og er það mesta mildi því víða leyndust hættur. Þetta var ógleymanleg og um leið einstök upplifun.

Ástralar hafa ákveðið að efna til annarrar ferðar árið 2019 og verður þá hjólað frá Melborne norður til Cairns, alls um 6500 km og víða farið um fjalllendi á svipuðum tíma árs og nú, að vori hjá þeim þó vetur sé genginn í garð hjá okkur. Margt er sérstakt og forvitnilegt Down Under; þar eru um 60 vínræktarhéruð, meðalmaður drekkur um 100 lítra af bjór árlega, kaldi vindurinn blæs að sunnan, þeir selja kameldýr til Sádi-Arabíu, þeir eru heimsmeistarar í fjárhættuspilum og sá sem tæki sér fyrir hendur að heimsækja nýja baðströnd á hverjum degi yrði 27 ár að ljúka verkinu. Á austurströndinni mynda sandstrendurnar 860 km langa samfellda stönd sem er sú lengsta í heimi. Ástralía er heillandi land og kemur manni sífellt á óvart.

Mikil breyting hefur orðið á þekkingu almennings um Ísland. Fyrir átta árum vissi enginn neitt um Ísland þegar við fórum þangað fyrst en núna vita ,,allir“ eitthvað um landið, taka andköf af aðdáun og eru annaðhvort á leiðinni, nýkomnir, þekkja einhvern sem hefur verið þar eða er á leiðinni þangað. Fólkið er vinalegt, afslappað, allir vilja spjalla og engum liggur á. Konan mín, Hallveig Björnsdóttir, dvaldi hjá syni okkar og fjölskyldu hans á meðan á hjólatúrnum stóð því nokkur ár eru síðan hún hætti að hjóla. Sonur okkar hefur búið á Gold Coast í tíu ár og er það sannkallaður draumastaður með þægilegri veðráttu enda vinsælasti orlofsstaður Ástrala. Þetta var fjórða ferðin okkar til Ástralíu og að þessu sinni dvöldum við þar í sjö vikur. Tímamismunurinn eru 10 tímar og flest öfugt eins og fyrr segir. Taugar okkar til Ástralíu eru sterkar en eini gallinn er hversu langt er að fara því ferðalagið tekur 45 tíma, hvora leið!

*Innan Rótarýhreyfingarinnar eru fjölmörg áhugamannafélög og á Íslandi er starfandi skemmtilegur félagsskapur, IFMR, sem er skammstöfun á International Fellowship of Motorcycling Rotarians (www.ifmr.org). Félagið vinnur náið með norrænum félögum en tilsvarandi félög eru víðsvegar um heiminn og starfa vel saman. Nánar á vef Rótarý:http://www.rotary.is/frettir/nr/5944 

                                                                                                                                                     Björn Viggósson


 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning