Fréttir

24.1.2017

Rótarýfélagar bruna á mótorfákum sínum innanlands og utan

Innan alþjóðlegu Rótarýhreyfingarinnar starfar fjöldi klúbba áhugafólks á sérsviðum sem hefur samband sín á milli og notar ýmis tækifæri til að hittast og ferðast saman. Sjá nánar hér. Þetta á ekki síst við um félagsskap mótorhjólafólks, International Fellowship of Motorcycling Rotarians, IFMR. Hér á landi starfar hópur rótarýfélaga á þessu sviði og er m.a. virkur í Norðurlandasamstarfi innan IFMR Norden. Björn Viggósson, Rkl. Reykjavík Grafarvogur, sem er fyrirliði hópsins, gerði nánar grein fyrir starfinu og spennandi tækifærum sem í boði eru.


                            Björn Viggósson að leggja í hann:"Árið 2005 keyptum við Honda Goldwing 1800 hjól                               sem er mikill kostagripur og lúxuskerra."

"Starfið er líflegt hér heima og yfir sumarið eru farnar 8-13 mótorhjólaferðir, venjulega kvöldferðir og ein lengri helgarferð," sagði Björn Viggósson. "Fastur liður undanfarin ár hefur verið að heimsækja aðra rótarýklúbba svo sem Borgarness, Akraness, Rangæinga, Selfoss og Keflavíkur. Einnig hafa klúbbarnir á Ísafirði, Akureyri og Neskaupstað verið heimsóttir. 

Rótarýhreyfingin þarf ávallt nýtt fólk og IFMR er kjörið fyrir ungt og miðaldra fólki sem vill kynnast drauminum um að hjóla innanlands og erlendis með góðum félögum. Fátt er betra til að laða að ungt fólk með drauma. 

Til umhugsunar fyrir félaga: Fáið ungt fólk í IFMR og þá verður það um leið félagar í Rótarý! Einn góður Rótarýmaður sagði eitt sinn að hann hefði eignast marga kunningja í Rótarý en góðu vinirnir væru í IFMR. Sjá nánar um IFMR hér. 

- Ertu búinn að keyra mótorhjól um langt árabil?

"Ég ólst upp í Hlíðunum, átti forláta NSU skellinöðru, hjólaði um hverfið og upp við gamla golfvöllinn, þar sem Kringlan stendur núna. Löngu síðar, eða árið 1999, tók ég mótorhjólaprófið (53 ára) og eignaðist forláta Hondu Shadow 1100. Við hjónin hjóluðum mikið, fórum hringinn á 11 dögum og síðar um Vestfirði, gistum oftast í bændagistingu. Konan mín, Hallveig Björnsdóttir, sat aftan á og líkaði vel. Við fórum tvívegis til Florída á stærstu mótorhjólasamkomu í heimi á Daytona Beach, bæði vor og haust. Þegar mest var er talið að um 200.000 hjól hafi verið á götunum en um 500.000 gestir mættu í það skipti. Við leigðum hjól og fórum víða um með hópi mótorhjólamanna.  

Árið 2005 keyptum við Honda Goldwing 1800 hjól sem er mikill kostagripur og lúxuskerra. Við hjónin fórum þá annan 11 daga túr um landið auk þess að fara styttri ferðir víðs vegar um landið."

- Hvenær byrjaðir þú að starfa í IFMR og í Norðurlandasamtökunum?´

" Árið 2006 fórum við hjónin með nýja hjólið á vormót IFMR í Silkiborg ásamt syni og tengdadóttur. Þá var IFMR Island stofnað og með í för var fyrsti klúbbmeistarinn, Björn Tryggvason ásamt konu sinni, Erlu Björk Steinarsdóttur.

Árið 2007 stóð IFMR Island fyrir norrænni hringferð um Ísland og komu 32 Norðurlandabúar með Norrænu. Við hjónin, Björn Tryggvason og Erla tókum á móti hópnum fyrir austan og fylgdum þeim síðan hringinn. Ein 23 hjól og tveir bílar voru í hópnum. Komið var við hjá rótarýfélögum á Egilsstöðum, Hvolsvelli, Grafarvogi og hittum svo alheimsforsetann  á Hótel Sögu! Við fengum frábært veður allan tímann, gist var á Eddu-hótelum og var viðgjörningur mjög góður og fagmennskan í fyrirrúmi. 

Margir norrænu gestanna hafa víða hjólað en það er samdóma álit þeirra að þetta hafi verið sú eftirminnanlegasta ferð sem þeir hafa farið í. Það er ekkert sem jafnast á við að hjóla inn í landslagið á leið austur um á þjóðvegi eitt. Að nálgast fjöllin og jöklana er mögnuð upplifun og liggur stundum við líðan sem lík er ölvunarástandi, hughrifin eru það sterk."

Sjá meira um IFMR Norden. Smella hér

- Hvernig er starfsemi Norðurlandasamtakanna háttað í aðalatriðum og hvað eru margir í þeim?

"Það eru haldin árleg vormót og haustmót til skiptist í löndunum, sjaldan þó í Finnlandi og á Íslandi. Hvert land skipuleggur sínar hjólaferðir og eins er sameinast um alþjóðlegar ferðir. 

Félagarnir eru um 250 samtals, þar af um 50 makar og nokkrir heiðursfélagar. Hér á Íslandi eru 13 skráðir félagar, auk þess 6 eiginkonur sem aukafélagar. Að sjálfsögðu er það heimsmet miðað við höfðatölu! Ein hjón eru bæði rótarýfélagar og önnur frú hjólar einnig. Aðrar koma af og til sem farþegar eða mæta á samkomur." 

- Hvaða ferðalög með Norðurlandasamtökunum eru þér einkanlega minnisstæð?

"Í september 2010 fór ég með mótorhjólið mitt út með Norrænu og geymdi það um veturinn hjá sænskum Rótarý-hjólavini. Ætlunin var að fara út í lok maí á vormót IFMR sem haldið var í Karrebæksminde á Suður-Sjálandi. 

Um vorið var mér með stuttum fyrirvara boðið að taka þátt í 12 daga draumaferð til Ungverjalands sem skipulögð var af IFMR í Þýskalandi, Sviss og Austurríki. Það tók 5 mínútur að gefa svar eftir símtal við Hallveigu konu mína og út fór ég tveim dögum síðar. Þannig var upphafið á 9000 km hjólaferðalagi um Evrópu sem í raun byrjaði þegar við Hallveig fórum árið 2006 á vormótið í Silkiborg. Þá var ætlunin að hjóla til Noregs og heimsækja vinahjón okkar. Ekki gátum við klárað ferðina þá því Hallveig ristarbotnaði í óhappi sem við urðum fyrir. Núna lauk ég þeirri ferð.

Ég ásamt þrem Svíum fórum frá Svíðþjóð með ferju til Þýskalands, gistum í Berlín þar sem við hittum hjón frá Noregi. Síðan hjóluðum við saman til Prag þar sem gist var í tvær nætur; stórbrotin og falleg borg. 

Við hittum hópinn í Schärding í Austurríki. 43 þátttakendur voru á 37 mótorhjólum, mest Þjóðverjar en einnig Svisslendingar og Austurríkismenn, þrír Svíar, tveir Norðmenn auk mín. Ferðin var mjög vel skipulögð af þýskum rótarýmönnum og höfðu þeir skoðað alla staði áður til að vera vissir um hótel, matsölustaði, stæði og gæslu fyrir hjólin. Gist var á góðum hótelum og heitur matur tvisvar á dag enda varð ég aldrei þreyttur á leiðinni. Oft vorum við á ferðinni í 7 til 11 tíma og mest var ekið í 2,5 tíma í senn enda mikið fyrirtæki að stoppa með svo stóran hóp. Hitinn var stundum yfir 30 stig, oftast 25 til 29 en fór niður í 3 stig í Ölpunum og þar hafði snjóað aðeins um nóttina."  

- Hafið þið farið víða um lönd? Hvernig eru ferðirnar þá skipulagðar?

"Fjarlægðin frá meginlandinu er mikil hindrun. Annað hvort er að taka Norrænu frá Seyðisfirði, senda hjólin með skipi eða leigja hjól sem er algengast. Ég hef farið tvívegis með ferjunni en Björn Tryggvason á tvö hjól og hefur geymt annað þeirra hjá syni sínum sem búsettur er í Svíðþjóð. Hann og Erla konan hans hafa farið í margar ferðir um Norðurlönd og suður um Evrópu á umliðnum árum.

Þegar klúbbar skipuleggja alþjóðlegar ferðir gera þeir það af áhuga og öðrum félögum að kostnaðarlausu. Reynslan sýnir að margir eru góðir samningamenn og ná ótrúlega hagstæðum verðum á ,,Biker Friendly“ gististöðum.

Félagar okkar í Ástralíu skipulögðu tveggja vikna ferð fyrir tveim árum og tókst hún mjög vel. Síðla árs nú á þessu ári, 2017, er boðað í hringferð frá Sidney/Blue Mountains/Broken Hill/Port Augusta/Adelaide/ Melborne. Gert er ráð fyrir 20-30 þátttakendum víðs vegar að úr heiminum og hef ég ásamt tveim hjónum frá Íslandi áformað að fara.

            

- Hvernig er upplifunin af að ferðast um á mótorhjóli? Hvernig líður mönnum á fleygiferð um hraðbrautir með þunga bílaumferð við hliðina á sér? Hættulegt?

"Fólk sem íhugar að byrja að hjóla ætti að drífa í því fyrir sextugt þó það fari að sjálfsögðu alfarið eftir andlegu og líkamlegu ástandi viðkomandi. Samkvæmt rannsóknum er mótorhjólamennskan ein albesta ,,ellivörn“ sem til er. Ástæðan er sú að fátt annað reynir jafn mikið á athyglina. Reynsla kennir mönnum að lesa vel í umferðina og umhverfið því ökumönnum bifreiða hættir til að sjá ekki bifhjólamenn. Hættur leynast víða og þegar slys verða eru meiðslin að jafnaði mikil og hættuleg. Flestir eldri byrjendur gera þau mistök að kaupa of stór og þung hjól sem þeir ráða illa við og verða hræddir. 

Það er mikil frelsistilfinning að hjóla en það er útbreiddur misskilningur að hjólamenn hjóli hratt. Flestir fylgja umferðarhraðanum, sem er þægilegast. Þeim sem hér segir frá líður betur á hjóli en í bíl og telur sig þá öruggari gagnvart umferð sem kemur úr gagnstæðri átt. 

Eitt af undirstöðuatriðum allra hjólamanna er vinátta, sem miðar að því að allir komist heilir heim. Hjólamenn á ferð heilsast nær undantekningarlaust með því að veifa og óska þar með hvor öðrum góðrar ferðar," sagði Björn í lok samtals og fór að huga nánar að undirbúningi Ástralíuferðar.

                                                                                                                                                                       MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning