Íslensk ungmenni orðin fyrirmynd erlendis
Stöðug niðursveifla í neyslu áfengis og vímuefna vekur athygli alþjóðlega
Eftir umræður og hádegisverðarhlé á umdæmisþingi Rótarý, var dagskrá fram haldið og þá undir kjörorðum núverandi umdæmisstjóra “Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur”. Út af þeim orðum mun umdæmið og klúbbarnir í landinu leggja í starfi sínu til að vekja athygli á stöðu barna og ungmenna í flóknu samfélagi nútímans, vandamálum þeirra og velferð.
Þessi liður dagskrárinnar hófst með því að tónlistarmaðurinn Arnar Jónsson flutti þekkt dægurlag eftir Vilhjálm Vilhjálmsson og Jóhann G. Jóhannsson en í textanum er einmitt tilvitnunin hér að framan.
Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, flutti aðalerindi þingsins um þetta efni. Hún á langan feril að baki við afar merkilegar rannsóknir á högum og líðan barna og ungmenna í skólum landsins, einnig víðar í Evrópu og á fjarlægari heimssvæðum, á vegum stofnunar sinnar Rannsóknir og greining.
Inga Dóra rifjaði upp fréttir frá því í lok síðustu aldar, þegar miðbær Reykjavíkur var fullur af drukknu, ungu fólki, sem safnaðist þar saman um miðja nótt í júlí. Tuttugu árum síðar komst Ísland í heimsfréttirnar. Hinn 17. janúar sl. birtist í alþjóðlegum miðli sem heitir Mosaic frétt af því, að á Íslandi væru unglingar hættir að neyta vímuefna, hættir að drekka áfengi og reykja.
Næstu daga birtu ýmsir aðrir miðlar út um allan heim þessi tíðindi og á fimm dögum höfðu meira en milljón manna lesið fréttina á vefnum.
Íslensk ungmenni eru orðin fyrirmynd. Hvað gerðist á þessu tímabili ? Árið 1997 höfðu yfir 47% 15 ára nemenda orðið drukkin á síðustu 30 dögum áður en könnun var gerð, 23% reyktu daglega og 17% höfðu prófað hass einu sinni eða oftar í lífinu. Vímuefnaneysla hafði verið stöðugt vaxandi allan áratuginn. Heilmörg forvarnaverkefni höfðu orðið til og áttu það sameiginlegt að vera ekki byggð á rannsóknum. Inntak þeirra var að benda unglingum á neikvæðar afleiðingar vímuefnaneyslu. Samt jókst neyslan.
Á þessum tíma tók sig saman hópur fólks, rannsóknarfólk, stefnumótunaraðilar og fólk sem starfaði með börnum og unglingum á vettvangi, og ákvað að setja fram víðatæka aðferð til að finna aðra aðferð til að nálgast þennan vanda og draga úr vímuefnaneyslu. Verkefnið var kallað “Ungt fólk” og hafði þrjá lykilþætti: það byggði á rannsóknum, áhersla var lögð á nærsamfélagið, t.d. innan einstakra sveitarfélaga, og skapað var samtal á milli þeirra sem unnu í rannsóknunum, milli þeirra sem unnu að stefnumótun á vettvangi í málefnum ungs fólks og þeirra sem störfuðu með ungu fólki. Oft er talað um að til þess að þetta virki þurfi allir að koma að þessu, foreldrar, kennarar, þjálfarar og lögregla.
Inga Dóra varpaði fram spurningunni: “Afhverju þurfum við að byggja svona mikið á rannsóknum?” Stutta svarið er þetta: Við gerum ekkert í læknisfræði án þess að byggja á rannsóknum. Við byggjum ekki brýr án þess að vita hvernig eigi að fara að því. Við viljum að rannsóknir liggi til grundvallar nýjum lyfjum, sem okkur eru gefin.
“Afhverju ættu ekki að liggja fyrir rannsóknir um líðan, hegðun og heilsu ungs fólks áður en við mótum stefnu í málefnum þess? Rannsóknirnar eru lykilatriði til reyna að sjá hvað spáir fyrir um vímuefnaneyslu,” útskýrði Inga Dóra.
Upphaflega var athyglinni beint að 14-16 ára hópnum og rannsóknir gerðar árlega í skólunum. Nú er hópurinn 10-20 ára og fer rannsóknarstarfið fram á hverju ári í náinni samvinnu við sveitarfélög, skóla og ekki síst nemendur á hverjum stað.
Þó margt sameiginlegt gilti um ungt fólk hér á landi og jafnaldra erlendis var talið nauðsynlegt að setja fram forvarnastefnu sem sniðin væri að íslenskum ungmennum. Drykkjuvenjur voru t.d. aðrar hér á landi, ölvun var meiri. Að sama skapi var algengara að eitthvað neikvætt kæmi fyrir íslensku ungmennin meðan þau voru að drekka.
“Við lærðum að neysla fylgir árgöngum sem sagði okkur og samtarfsaðilunum að það væri mikilvægt að ná til foreldra yngri unglinga og barna áður en þau tækju fyrsta sopann,” hélt Inga Dóra áfram. “Það var skoðað hverjir væru áhættu- og verndandi þættirnir.”
Jafningjaáhrifin eru mikil, því meiri er áhættan ef margir í vinahópnum neyta áfengis. Þátttaka í skipulögðu ungmennastarfi og íþróttum hefur sterkt forvarnagildi. Og það eru sterk tengsl milli ákveðinna fjölskyldu- og foreldraþátta og áfengis- og vímuefnaneyslu. Þar eru lykilþættirnir þrír, þ.e. tilfinningalegur stuðningur, í öðru lagi jákvætt eftirlit og aðhald, sem er þó ekki það sama og að setja reglur heldur meira í því fólgið að vita hvar unglingarnir eru, með hverjum, og að þekkja vini þeirra og foreldra vinanna. Þriðji lykilþátturinn er magn þess tíma sem foreldrar og unglingar verja saman en ekki nauðsynlega spurning um hvað verið var að gera í samverustundum. Þetta er mikilvægur varnarþáttur.
Þessar niðurstöður og fleiri voru síðan nýttar til að setja fram forvarnalíkan sem byggði á því að ná til foreldranna með ákveðin skilaboð, reyna að efla þátttöku unglinganna í skipulögðu ungmennastarfi og íþróttum. Leitast var við að draga úr neikvæðum jafningjaáhrifum með því t.d. að hamla gegn því að haldin væru partí án þess að fullorðnir væru til staðar. Heimsending á útivistarreglum til fjölskyldnanna til leiðbeiningar skipti miklu máli og dæmi um aðgerðir voru foreldrarölt, frístundakortið og forvarnadagurinn. Honum var ætlað að koma þríþættum skilaboðum áleiðis, mjög einföldum: Samvera á heimilinu í klukkustund á dag skiptir máli, þátttaka í skipulögðu ungmennastarfi er mikilvæg, og það að bíða með að drekka áfengi, ekki gera það núna. “Bíddu með að ákveða það þar til þú verður 18”, voru skilaboðin.
Jákvæður árangur hefur skilað sér á öllum sviðum og nú mælist neysla áfengis hjá 15 ára hópnum 5% en hafði verið 47% árið 1997, hlutfall þeirra sem reyktu fór úr 23% í 2%. Mun minni neysla er í framhaldsskólum landsins en fyrir 20 árum og orðin lægri en hún var í grunnskólunum þá. Í fjölþjóðlegum samanburði er Ísland eina landið þar sem stöðug niðursveifla hefur orðið í áfengis- og vímuefnaneyslu.
“Það má með sanni segja um íslensk ungmenni, að kynslóðin næsta sé kynslóðin sem komi til með að geta,” sagði Inga Dóra í lok erindis síns. “Íslensk ungmenni eru ekki bara að standa sig frábærlega vel heldur eru þau fyrirmynd á alþjóðavettvangi.” Lesa meira
Texti og myndir: MÖA