Viðurkenningar Rótarý fyrir nýstárlegt framtak
Rótarýumdæmið hefur það markmið að láta samfélagið njóta góðs af starfi Rótarý á Íslandi. Tilgangur Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý er að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi eða nýstárlegt framtak, sem unnið er í umdæminu á sviði mennta, lista, vísinda eða atvinnumála, og að styðja samfélagsverkefni.
Afhending viðurkenninga fór fram hinn 7. október sl. á umdæmisþinginu í Mosfellsbæ, þar sem Jón. B. Guðnason, formaður stjórnar Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý gerði grein fyrir niðurstöðum sjóðsstjórnar.
“Við búum enn að þeirri gæfu og framsýni sem Rótarýumdæmið sýndi þegar það endurreisti Verðlauna- og styrktarsjóð Rótarý á Íslandi og tryggði þar með framtíð sjóðsins,” sagði Jón m.a. í ávarpi sínu.
“Sú hefð hefur skapast að veita viðurkenningar til aðila á félagasvæði þess rótarýklúbbs sem umdæmisþingið heldur. Í ár er það Rótarýklúbbur Mosfellssveitar. Við úthlutun í ár höfðum við einnig þema umdæmisstjóra að leiðarljósi, „Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur“”.
Ákvörðun stjórnar var að veita viðurkenningar til þriggja aðila á félagasvæði Rótarýklúbbs Mosfellssveitar. Hver aðili hlaut 400.000 krónur en þeir eru:
Berglind Inga Árnadóttir og Hólmfríður Halldórsdóttir en þær fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði samfélagsverkefna. Berglind og Hólmfríður hafa fyrir hönd fræðslunefndar fatlaðra innan Hestamannafélagsins Harðar staðið fyrir og byggt upp reiðnámskeið fyrir fatlaða einstaklinga, börn, ungmenni og MS sjúklinga. Námskeiðin hafa verið sótt af einstaklingum með t.d. einhverfu, blindu, heilabilun, fjölfötlun og þroskaskerðingu.
Agnes Wild fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði lista. Agnes hefur að mestu einbeitt sér að listum og menningu fyrir börn. Einnig stofnaði Agnes leikhópinn Miðnætti og hefur starfað með leikfélagi Mosfellssveitar. Þá er Agnes formaður samtaka atvinnumanna sem gera sviðslistir fyrir unga áhorfendur.
Kristín Einarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði mennta. Kristín hefur verið að þróa og kenna kennsluaðferðina "Leikur að læra" sem gengur út á að kenna börnum m.a. stafi og stærðfræði í gegnum markvissa hreyfingu. “Leikur að læra” er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt. Börn Kristínar, þau Unnar Karl Jónsson og Emma Sól Jónsdóttir mættu fyrir hönd móður sinnar til að veita viðurkenningunni móttöku.
Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, og Jóhanna Björg Hansen, forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar, afhentu síðan viðurkenningarnar og verðlaunahafar gerðu þingfulltrúum nánari grein fyrir verkefnum sínum.
Sjóðsstjórnina starfsárið 2017/2018 skipa: Birkir Jón Jónsson, Rkl. Þinghóll, Jón B. Guðnason formaður, Rkl. Keflavíkur, Lovísa Hallgrímsdóttir, Rkl. Mosfellssveitar, Margrét Friðriksdóttir, umdæmisstjóri 2010-2011 og Tryggvi Pálsson, umdæmisstjóri 2011-2012.
Texti og myndir MÖA