Fréttir

14.10.2017

Fjölga þarf rótarýfélögum og fá ungt fólk í klúbbana

Ársskýrsla 2016-2017 endurspeglar fjölbreytt og öflugt starf innan Rótarýhreyfingarinnar

Forsetar, ritarar og gjaldkerar rótarýklúbba voru komnir til starfa í vinnustofum umdæmisþings Rótarý snemma á laugardagsmorgni 7. október. Garðar Eiríksson, verðandi umdæmisstjóri, stýrði umfjöllun um störf embættismanna klúbbanna, hvatti til umræðna og svaraði fyrirspurnum og veitti leiðbeiningar um hagnýt atriði ásamt núverandi umdæmisstjóra og aðstoðarumdæmisstjórum. Þingforsetar voru Elísabet S. Ólafsdóttir og Hafsteinn Pálsson.


Formleg þingstörf hófust með því að Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, bauð fulltrúa velkomna til starfa í húsnæði Framhaldsskóla Mosfellssveitar. Síðan bað hann viðstadda að ganga til minningarathafnar í anddyri, þar sem minnst var rótarýfélaga er látist höfðu á síðasta starfsári. Þeir voru 15 talsins.

Sóknarpresturinn séra Arndís G. Berhardsdóttir Linn flutti inngangsorð og bæn. Síðan nefndi hún nöfn hinna látnu, rótarýklúbbinn og dánardag en umdæmisstjóri tendraði kerti í minningu hvers þeirra. Í lok athafnar fóru viðstaddir saman með bænina “Faðir vor”. Þessi siðvenja sem tíðkast hefur lengi hjá Rótarý á Íslandi vekur athygli erlendra gesta enda óvíða sem slík hefð hefur skapast. Hafa ýmsir tjáð sig um að þeir vildu sjá hið sama gert í sínum umdæmum.

Guðmundur Jens Þorvarðarson, fráfarandi umdæmisstjóri, fylgdi ársskýrslu umdæmisins úr hlaði. Hún er yfirgripsmikil og vitnar glögglega um fjölbreytt og öflugt starf hjá Rótarý á Íslandi. Skýrslan er aðgengileg á netsvæðinu rotary.is en þó er ástæða til að vekja athygli á nokkrum atriðum.

Varðandi stöðu klúbbanna benti Guðmundur á að í hinum þróaðri heimi eigi Rótarýhreyfingin við fækkunarvandamál að etja t. d. í Evrópu og Bandaríkjunum. Hvað varðar fjölgun í hreyfingunni á Íslandi var markmiðum ekki náð. Umdæmisstjóri hafði á stefnuskrá sinni að fjölga félögum um 35 á starfsárinu. Í upphafi starfsársins voru þeir alls 1240 en 1235 í lok þess, heiðursfélagar meðtaldir í báðum tilvikum. Meðalaldur meðlima rótarýklúbbanna hér á landi er orðinn nokkuð hár og er það einnig vandamál víða erlendis. Aukna áherslu verður að leggja á fjölgun félaga og fleira ungt fólk til starfa í íslensku klúbbunum. 

Guðmundur rifjaði upp að hann hefði hvatt til þess að framlög í Rótarýsjóðinn næmu að meðaltali a.m.k. 20 Bandaríkjadölum á hvern klúbbfélaga á Íslandi og í heildina yrði framlag klúbbanna ekki minna en 24.000 Bandaríkjadalir. Segja má að markmiðið hafi náðst hvað varðaði upphæðir, þrátt fyrir að það hafi ekki verið nema 14 klúbbar af 31 sem lögðu fé til sjóðsins. Umdæmið lagði líka sitt af mörkum. Þess má geta að núverandi umdæmisstjóri stefnir að því að framlag á hvern félaga á þessu ári verði 50 Bandaríkjadalir.

               

Endurskoðaður ársreikningur umdæmisins sýnir að rekstrartekjur umfram gjöld námu 3,2 milljónum og eignir samtals 51,8 milljónum.

Tryggvi Pálsson, fyrrverandi umdæmisstjóri, gerði skilmerkilega grein fyrir skipuriti Rótarý, starfsemi umdæmisins og hlutverki hinna ýmsu nefnda þess. Tryggvi er fulltrúi rótarýumdæmisins í stjórn Rotary Norden, hins sameiginlega tímarits rótarýmanna á Norðurlöndunum. Blaðinu er dreift til þeirra allra, um 69.000 þúsund talsins, og gerist það ýmist með prentuðu blaði, í tölvutæku formi eða með appi fyrir spjaldtölvu og farsíma. 

Rafræna leiðin hefur reynst vinsæl og til að vekja enn frekari athygli á henni bað Tryggvi viðstadda að taka fram farsímann, og þá sem ekki höfðu gert þetta áður, að fara inn á Itunes og sækja þangað appið Rotary Norden. Sams konar rafrænn aðgangur er í boði fyrir upplýsingar um fundi klúbba og staðsetningu þeirra um allan heim. Aðgerðin tókst vel. Lesa meira

Texti og myndir MÖA

 

 


 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning