Fréttir

12.10.2017

Kynning á tilnefndnum umdæmisstjóra         2019 - 2020

Áður en setningarfundi umdæmisþingsins var slitið kynnti Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, Önnu Stefánsdóttur sem er tilnefnd umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2019-2020 og situr í umdæmisráði þangað til. Við þetta tækifæri sæmdi umdæmisstjórinn Önnu sérstöku rótarýmerki fyrir tilnefnda umdæmisstjóra.


Anna Stefánsdóttir er fædd á Akureyri 1947 en ólst upp á Grund í Svarfaðardal, þar sem foreldrar hennar bjuggu til 1960 en þá flutti hún með fjölskyldunni til Dalvíkur. Anna lauk prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1968, hlaut diploma í gjörgæsluhjúkrun frá háskólasjúkrahúsinu í Edinborg 1975 og MS-gráðu í hjúkrunarstjórnun frá Edinborgarháskóla árið 1988. Hún starfaði við hjúkrun og hjúkrunarstjórnun alla starfsævina, lengst af á Landspítalanum, síðast sem hjúkrunarforstjóri í alls 17 ár

Anna hefur ætíð verið virk í félagsmálum. Hún sat í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands á 8. áratug síðustu aldar og var einn af stofnendum deildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga innan þess félags. Hún var stjórnarmaður í Samtökum evrópskra hjúkrunarstjórnenda 2003-2011. Þá hefur Anna starfað í ýmsun nefndum tengdum heilbrigðismálum. Hún hefur einnig haldið fjölda erinda, m.a. um starfsþróun hjúkrunarfræðinga og um hjúkrunarstjórnun.

Anna var formaður Rauða kross Íslands 2008-2014. Hún er félagi í Rótarýklúbbnum Borgum Kópavogi og var forseti hans 2009-2010. Anna er mikill áhugamður um uppbyggingu Landspítala og var formaður samtakanna “Spítalinn okkar” sem stofnuð voru 2014. Hún fékk riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu heilbrigðis- og mannúðarmála 2016. Eiginmaður Önnu var Jón Pétursson, eðlisfræðingur, sem lést árið 2011. Þau eignuðust þrjú börn og barnabörnin eru 10.

Anna þakkaði traustið sem Rótarýumdæmið hefði sýnt henni með því að velja hana umdæmisstjóra 2019-2020. “Ég er stolt af því að tilheyra Rótarýhreyfingunni. Við hreyfum hluti. Við getum áorkað miklu þegar við leggjumst á eitt. Rótarýumdæmið á Íslandi er sterkt. Það er mikið um að vera hjá okkur og við erum öflugt umdæmi,” sagði Anna. “Ég er sérstaklega þakklát Rótarýklúbbnum Borgum í Kópavogi fyrir þann stuðning sem ég fékk, hef alltaf fengið og mun fá í starfi mínu sem umdæmisstjóri. Ég hlakka til að vinna með ykkur og kynnast nýju fólki. Mitt starf sem hjúkrunarfræðingur fólst í því að vinna með fólki. Ég stend frammi fyrir þessu verkefni af auðmýkt. Svo þakka ég ykkur aftur fyrir traustið, kæru Rótarýfélagar,” sagði Anna að lokum. Lesa meiraÚtlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning