Glæsilegar móttökur á umdæmisþingi í Mosfellsbæ
Það var fjölmennt í hinum nýja golfskála í Mosfellsbæ þegar umdæmisþing Rótarý 2017 var formlega sett þar á fundi í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar að kvöldi sl. föstudags, 6. október
Skólalúðrasveit fagnaði gestum utandyra en í samkomusalnum tóku Knútur umdæmisstjóri, Guðný kona hans og félagar þeirra í rótarýklúbbnum á móti þingfulltrúum og mökum þeirra. Gestirnir þáðu veitingar í boði bæjarstjórnarinnar. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, flutti ávarp og rakti í stuttu máli þróun bæjarfélagsins. Margir viðstaddra minntust þess þegar Mosfellssveitin var fyrst og fremst landbúnaðarsvæði fyrir svo sem 50 árum, með nokkrum sumarbústöðum bæjarbúa í Reykjavík og starfsemi Álafossverksmiðjanna og Reykjalundar. Nú eru íbúar bæjarins 10000 og þar hefur risið blómleg byggð á umliðnum áratugum, öflug fyrirtæki og þjónustustofnanir ýmis konar.
Jónína Björg Hansen, forseti rótarýklúbbsins, sem stofnaður var 1991, setti fund og bauð gesti velkomna. Fram var borinn málsverður og á dagskránni voru ávörp og ræður eins og venja er við slík tækifæri.
Í setningarræðu sinni minnti Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, á þemað sem hann hefur valið fyrir starfsárið, “Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur.” Þetta var áhersluatriði í dagskrá umdæmisþingsins, er fjallað var um framtíð barna og ungmenna og velferð þeirra í flóknu samfélagi.
Þá minnti Knútur á Rótarýdaginn, sem haldinn verður 24. febrúar 2018. Þess er vænst að rótarýklúbbarnir efni þá til umræðufunda hver í sinni heimabyggð, þar sem nánar verði fjallað um þetta málefni. “Látum rödd Rótarý heyrast” er annað viðfangsefni Rótarýdagsins, þ.e. að kynna starfsemi rótarýklúbba almennt og framlag rótarýfélaga til samfélagsins með margvíslegum verkefnum og stuðningi.
Tom Thorfinnsson frá Minnesota í Bandaríkjunum var fulltrúi alþjóðaforseta Rótarý á umdæmisþinginu. Tom hefur setið í framkvæmdastjórn Rotary International og er nú starfandi að stefnumótun um næsta meginviðfangsefni Rótarý eftir að Polio Plus-verkefninu verður lokið. Rótarý þarf nú að endurskilgreina verkefni sín en áherslan undanfarin 30 ár hefur verið á útrýmingu lömunarveikinnar með lofsverðum árangri. Í ávarpi sínu gerði Tom einnig grein fyrir uppruna sínum. Langalangafi hans og langalangamma fóru ung að árum frá Íslandi með fjölskyldum sínum vestur til Kanada á 19. öldinni og bjuggu þau um hríð í Winnipeg en fluttu síðar yfir landamærin til Minnesota og eignuðust þar sjö syni.
Norrænu rótarýumdæmin senda jafnan fulltrúa sinn til að sitja umdæmisþingið á Íslandi sem gestur. Að þessu sinni var það Mikko Hörkkö frá Tampere í Finnlandi sem sótti þingið ásamt Tuire eiginkonu sinni. Mikko hefur verið atkvæðamikill í stjórn og skipulagi nemendaskipta á vegum Rótary. Hann beindi því til allra rótarýfélaga að þeir kysu sér viðfangsefni að vinna að. Hann undirstrikaði að sérkenni og styrkleiki Rótarýhreyfingarinnar fælust í samvinnu félaganna í klúbbunum, í umdæmunum og með rótarýfélögunum um allan heim. Sköpun og viðhald stuðnings- og samstarfsnetsins innan samtakanna væri ákaflega gefandi. Milli atriða skemmtu nemendur úr tónlistarskólanum gestunum með söng og hljóðfæraleik.
Það var með nokkurri eftirvæntingu sem fundarmenn biðu næsta atriðis á dagskránni. Eliza Reid, forsetafrú, var heiðursgestur og flutti aðalræðu kvöldsins. Hún fjallaði um uppruna sinn í Kanada, námsferil, skyldustörfin með eiginmanni sínum og reynsluna af búsetu hér á Íslandi. Eliza flutti ræðuna blaðalaust og gerði það listavel. Það skein í gegn að forsetafrúin kann að meta spaugilegu hliðarnar á daglega lífinu og segir skemmtilega frá. Sérstaklega vakti það athygli þegar hún sagði með nokkrum fyndnum dæmum frá viðureign sinni við íslenska málfræði, sem hún ætti stundum í erfiðleikum með. Hún skýrði frá því þegar þau Guðni hittust við nám í Oxford 1998 og frá störfum sínum eftir að hún fluttist til Íslands. Störf á sjúkrahúsi og fyrir Rauða krossinn voru meðal verkefna. Ritstjórn og blaðamennska fyrir Iceland Review og tímarit Icelandair hefur verið á viðfangsefnalistanum. Eliza hefur mikinn áhuga á málefnum innflytjenda og fylgist vel með þróun þeirra en öðru fremur hefur hún lagt áherslu á alþjóðlegt rithöfundaþing, þar sem efnt er til kynningar á íslenskum bókmenntum og haldin stutt, hagnýt námskeið.
Eliza sagðist hafa tekið eftir því á ferðum sínum um landið að Íslendingar bæru mikla virðingu fyrir störfum að listum og menningu. Hún sagði fólk hér áberandi reiðubúið til að vinna saman og láta gott af sér leiða. Þar hefðu rótarýfélagar farið á undan með góðu fordæmi. Sagðist hún vona að hreyfingin myndi eftirleiðis sem hingað til láta margt gott af sér leiða hér innanlands og í samstarfi við Rótarý í öðrum löndum.
Að endingu var farið með fjórprófið en Jóhanna Björg, forseti klúbbsins, sleit síðan þessum velheppnaða fundi. Þingfulltrúanna beið fundarseta á umdæmisþinginu sem hófst í Framhaldsskóla Mosfellssveitar kl. 9.15 að morgni laugardags 7. október með vinnustofum ritara, gjaldkera og forseta. Að því búnu var gengið til dagskrár 72. umdæmisþings Rótarý á Íslandi. Lesa meira
Texti og myndir MÖA