Glæsileg lokaathöfn umdæmisþings í Perlunni
Það ríkti glæsilegur hátíðarbragur yfir veitingasalnum á efstu hæð Perlunnar að kvöldi sl. laugardags er þingfulltrúar og gestir á 71. umdæmisþingi Rótarý á Íslandi komu þangað prúðbúnir til kvöldverðar. Guðjón Magnússon, félagi í Rkl. Borgir-Kópavogi var veislustjóri en Guðmundur Jens Þorvarðarson umdæmisstjóri bauð gesti velkomna.
Umdæmisstjóri og kona hans ásamt erlendu fulltrúunum: Guðmundur Jens Þorvarðarson og Svava Haraldsdóttir, Peter Juhlsgaard Jepsen og Elisabeth Jepsen, fulltrúar norrænu umdæmanna og Rob Klerkx og Bea Klerkx, fulltrúar alþjóðaforseta Rótarý, John F. Germ.
Hinir erlendu gestir frá Hollandi og Danmörku ávörpuðu gesti og þökkuðu fyrir ánægjulega samveru á þinginu og góð kynni af Íslendingum. Þá var einnig venju samkvæmt tilkynnt um úthlutun úr Verðlauna- og styrktarsjóði Rótarý. Jón B. Guðnason, Rkl. Keflavíkur, gerði grein fyrir þeirri ákvörðun sjóðsstjórnarinnar að Fjölsmiðjan, vinnusetur fyrir ungt fólk á krossgötum í Kópavogi, og Sögufélag Kópavogs fengju verðlaunin að þessu, kr. 500.000 hvor aðili. Lesa nánar
Síðar á samkomunni heiðraði umdæmisstjóri þá Guðna Gíslason Rkl. Hafnarfjarðar og Markús Örn Antonsson, Rkl. Reykjavík Breiðholt, fyrir störf þeirra að kynningarmálum Rótarý og umsjón vefsíðunnar rotary.is. Hlutu þeir Paul Harris viðurkenningu. Á myndinni er með þeim Margrét Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri Rótarýumdæmisins.
Á Íslandi dveljast sex erlendir skiptinemar þetta skólaárið, tveir frá Argentínu, einn frá Ástralíu, einn frá Bandaríkjunum og tveir frá Brasilíu. Jafnmargir íslenskir nemendur dveljast erlendis í skiptum milli rótarýklúbba. Hanna María Siggeirsdóttir, formaður æsklýðsnefndar, kynnti erlendu skiptinemana og síðan komu nokkrir þeirra fram og sungu fyrir gesti.
Annar skemmtikraftur tróð upp með söng og gamanmál. Það var Örn Árnason, leikari og félagi í Rkl. Reykjavíkur, sem ekki brást í söngatriðum af margvíslegum toga og fjörlegum frásögnum af mönnum og málefnum.
Texti og myndir MÖA