Fréttir

19.10.2016

Fjölsmiðjan og Sögufélag Kópavogs hlutu Rótarýstyrki

Á umdæmisþingi Rótarý í Kópavogi um siðustu helgi gerði Jón B. Guðnason, stjórnarformaður Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý, grein fyrir þeirri ákvörðun að Fjölsmiðjan, vinnusetur fyrir ungt fólk á krossgötum í Kópavogi, og Sögufélag Kópavogs hljóti styrki úr Verðlauna- og styrktarsjóði Rótarý að þessu sinni, kr. 500.000 hvor aðili.  

Frá afhendingu verðlaunanna. Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri Rótarý, Þórður St. Guðmundsson form. Sögufélags Kópavogs, Páll Guðjónsson, stjórnarmaður í Fjölsmiðjunni og Jón. B. Guðnason, form. stjórnar Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi.

Í ávarpi sínu við afhendingarathöfn í lok umdæmisþings í Perlunni sagði Jón B. Guðnason m.a.:

„Fyrir hönd Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi hef ég það ánægjulega hlutverk að veita í kvöld viðurkenningar úr Verðlauna- og styrktarsjóði Rótarý á Íslandi.  Rótarýumdæmið á Íslandi hefur það markmið að láta samfélagið árlega njóta góðs af starfi Rótarý á Íslandi, en tilgangur Verðlauna- og styrktarsjós Rótarý á Íslandi er að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi eða nýstárlegt framtak, sem unnið er í umdæminu á sviði mennta, lista, vísinda eða atvinnumála, og að styðja samfélagsverkefni. 

Sjóðsstjórnina starfsárið 2016/2017 skipa:  Jón B. Guðnason, formaður, Rkl. Keflavíkur, Birkir Jón Jónsson, Rkl. Þinghóll, Kristján Már Gunnarsson, Rkl. Selfoss, Margrét Friðriksdóttir, umdæmisstjóri 2010-2011 og Tryggvi Pálsson, umdæmisstjóri 2011-2012.

Ákvörðun stjórnar í ár er að veita viðurkenningar til tveggja aðila á félagasvæði Rótarýklúbbs Kópavogs og ráðstafa til þess einni miljón króna. Þessir aðilar eru:

1.            Fjölsmiðjan – vinnusetur fyrir ungt fólk á krossgötum hér í Kópavogi, sem fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði atvinnumála og samfélagsverkefna. Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk en þar gefst ungu fólki tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám.   

2.            Sögufélag Kópavogs sem fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði mennta og samfélagsverkefna.  Sögufélag Kópavogs hefur stuðlað að söfnun og varðveislu sögulegra og menningarlegra minja í Kópavogi og nágrenni. Félagið hefur staðið fyrir umræðu- og fræðslufundum og hefur staðið fyrir vettvangsferðum er varða sögu Kópavogs. 

Við Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins, ætlum að fá til okkar fulltrúa þeirra aðila sem hér hafa verið nefndir til að taka við viðurkenningum og styrkjum.  Við byrjum á Fjölsmiðjunni, sem fær viðurkenningu og styrk að upphæð 500.000 kr.  Páll Guðjónson tekur við viðurkenningu Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi. 

Næst er það Sögufélag Kópavogs, sem fær viðurkenningu og styrk að upphæð 500.000 kr. Þórður Guðmundsson  tekur við viðurkenningu Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi fyrir hönd Sögufélags Kópavogs,“ sagði Jón B. Guðnason formaður sjóðsstjórnar í ávarpi sínu.

Síðan kynntu þeir Páll og Þórður verkefnin sem Fjölsmiðjan og Sögufélag Kópavogs starfa að.

                                                                                                                                                                                    MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning