Fréttir

20.10.2016

Umfjöllun um málefni og starfsáætlanir

Almenn þingstörf fóru fram seinni dag umdæmisþings Rótarý í Kópavogi, laugardaginn  15. október. Fundirnir voru haldnir í Menntaskólanum í Kópavogi.  Fyrir hádegi voru sérstakir liðir á dagskrá en eftir hádegi var farið yfir skýrslu síðasta starfsárs og reikninga auk þess sem fjárhagsáætlun yfirstandandi starfsárs var kynnt.

Áður en fundur var settur kl. 10.30 höfðu forsetar, ritarar og gjaldkerar rótarýklúbba setið á rökstólum í vinnustofum með aðstoðarumdæmisstjórum, þar sem fjallað var um hin margvíslegu verkefni sem þessir embættismenn klúbba þurfa að inna af hendi á starfsárinu.

Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri, setti fund og bauð þingfulltrúa og gesti velkomna en síðan fól hann Jóni Ögmundssyni fundarstjórn. Fyrst á mælendaskrá var Guðný Helgadóttir fyrrv. deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, en hún gerðist félagi í Rkl. Kópavogs í mars á þessu ári. Erindi sitt nefndi hún „Hvers vegna er ég í Rótarý?“

Í upphafi máls síns lýsti Guðný aðdragandum að inngöngu í Rkl. Kópavogs. Það gerðist vegna ábendingar fyrrum skólasystur og félaga í Rk. Kópavogs sem vann að öflun nýrra félaga fyrir klúbbinn. Það vakti athygli Guðnýjar að vikulega eru boðuð fróðleg erindi á dagskrá klúbbsins. Hafði hún víða sótt fundi félaga og stofnana, þar sem áhugaverðir fyrirlestarar voru í boði. Þótti henni ekki verra að geta gengið að slíku á föstum tímum. Það varð úr að Guðný fékk boð um að sækja til kynningar nokkra fundi í Rkl. Kópavogs. Henni var síðan boðið að ganga í klúbbinn á sl. vori, sem hún þáði.

„Ég þekkti ekkert til Rótarý og hafði ekki gengið með neina leynda löngun í maganum um að  komast í slíkan klúbb,“ útskýrði Guðný. „Auðvitað hafði ég eins og svo margir aðrir heyrt talað um Rótarý og þá jafnan af góðu einu; hafði m.a. heyrt um nemendaskipti og rótarýtónleika.“  Hún undirstrikaði mikilvægi „þriðja geirans“ eða „hagnaðarlausa geirans“ í þjóðfélaginu, sem eru hin frjálsu félagasamtök. Þau væru hverju samfélagi mikilvæg og það afl sem í honum býr nauðsynlegt til að styðja og styrkja einstaklinga og leggja góðum málefnum lið til viðbótar stuðningi hins opinbera, sem verður aldrei nógsamlega metið.

Guðný skýrði frá því að hún hefði í tæpa fjóra árartugi verið í Delta Kappa Gamma, félagsskap kvenna er starfa að fræðslu- og menningarmálum. Eins og Rótarý er DKG alþjóðleg hreyfing, sprottin úr bandarísku umhverfi. Sumt í Rótarý minnir á DKG og nefndi Guðný nokkur dæmi um slíkt, m.a. dagskrárefni og hefðir á fundum, vinsamleg samskipti félaga innan klúbba og hreyfingarinnar á alþjóðavettvangi og framlag til mannúðarmála og menntamála, ekki síst í þrónarlöndunum.

„En hvers vegna fór ég í Rótarý? Ef ég á að vera hreinskilin þá eru það fræðsluerindin á fundunum sem heilluðu“ upplýsti Guðný og vitnaði í ummæli rótarýfélagans Vigdísar Finnbogadóttur um Rótarý sem „opna háskólann“.

Guðný sagði sjónarmið sitt kannski vera dálítð eigingjarnt en henni væri ljóst að ekki dugi að vera bara þiggjandi. Manni beri einnig að geta gefið af sér. Hún sagði að þrátt fyrir stuttan starfstíma í klúbbnum hefðu sér verið falin nokkur verkefni, svo sem við ritstjórn Þingstefnu 2016, blaðs umdæmisþingsins, formennsku í menningarmálanefnd klúbbsins og að flytja þetta erindi.

Guðný benti á að af tæplega 1200 rótarýfélögum í landinu séu um 300 konur eða 25%. Svo virðist sem hlutfall kynjanna sé miklu betra í yngri klúbbunum. Á heimsvísu væri hlutfall kvenna í Rótarý um 20%. Við stæðum okkur því ögn betur hér á landi. Þessi samsetning hópsins hlyti að vera Rótarýhreyfingunni ákveðið áhyggjuefni. Fjölskyldan, börn og starf eru í forgrunni hjá konum. Kostnaður við þátttöku í Rótarý og fundartími er viss hindrun í vegi kvenna sem kysu að vera með. Það eigi hins vegar að vera metnaðarmál Rótarý að hafa sem jafnast hlutfall kynjanna í klúbbunum Endurskoðunar væri líka þörf á fyrirkomulagi starfseminnar til að fá yngra fólk til liðs við hreyfinguna. Fækkun funda og þar með lækkun kostnaðar væri komin á dagskrá hér á landi sem erlendis. Á fundum gefst tími til að ræða saman um landsins gagn og nauðsynjar og þeir eru mikilvægur til að efla kunningsskap og treysta vinabönd milli félaga. Gott innra starf sé forsenda þess að klúbbfélagar sinni af áhuga og alúð ýmsum verkefnum í þágu nærsamfélagsins og alþjóðasamfélagsins. Það þyrfti að vera áhugavert og skemmtilegt að mæta á rótarýfundunum.

Í lok erindis síns varpaði Guðný því fram að rótarýhreyfingin hér á landi hugi að verkefnum sem gætu stutt við aukinn fjölda hælisleitenda sem til landsins koma. Þar sé þörf á að fleiri leggi hönd á plóginn. Slík verkefni falli vel að einkunnarorðum hreyfingarinnar  um að þjóna mannkyni, og leiðarstefinu „Þjónusta ofar eigin hag“. 

Hornaflokkur úr Skólahljómsveit Kópavogs heimsótti þingfulltrúa og blés hressilega tónlist, íslensk og erlend lög í lúðra. Stjórnandi var Össur Geirsson, en hann hefur áður hlotið viðurkenningu Rk. Kópavogs sem „Eldhugi Kópavogs.“

Þessu næst kom Jón Ásgeir Jónsson, Rkl Görðum ásamt Sigurði Agli Þorvaldssyni, Rkl. Reykjavík Árbær í ræðustól og gerði grein fyrir úrvinnslu og skráningu skjala og annarra gagna frá fyrri tíð í fórum umdæmisins og einstakra klúbba. Þeir Jón Ásgeir og Sigurður hafa unnið að verkefninu í rúmt ár og var nú komið að því að afhenda Þjóðskjalasafni möppurnar. Eiríkur G. Guðmundsson, þjóðskjalavörður, veitti gögnunum viðtöku. Við þetta tækifæri lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fá gögn frá hreyfingum, félögum, fyrirtækjum og einstaklingum í Þjóðskjalasafn, þar sem þau verða flokkuð, skráð og varðveitt; gerð aðgengileg  og þeirra gætt um alla framtíð. Mikilvægt væri að  færa þau inn á örugga staði þar sem sérfræðingar annist gögnin og veiti aðgang að þeim. Þannig getur öll þjóðin nýtt sér gögn, sem annars eyðileggjast oft í vondum geymslum. Þjóðskjalasafnið vill gjarnan fá persónuleg gögn, dagbækur og fundargerðarbækur til varðveislu. Þjóðskjalavörður þakkaði Jóni Ásgeiri og Sigurði þeirra verk, sem væri þrekvirki og unnið af miklli alúð.

Morgunfundinum lauk með stuttri hugvekju um eflingu nemendaskipta Rótarý sem Hanna María Siggeirsdóttir, formaður æskulýðsnefndar umdæmisins flutti. Lagði hún áherslu á gildi nemendaskiptanna til eflingar friði og vinsamlegum samskiptum þjóða í milli. Hún gerði grein fyrir hinum ýmsu kostum sem fyrir hendi eru og benti á að skiptinemarnir hefðu síður en svo á móti því að dveljast hjá eldra fólki, sem lokið hefði uppeldishlutverki sínu og gæti varið rúmum tíma með nemunum.

Eftir hádegið gerði Magnús B. Jónsson, fráfarandi umdæmisstóri 2015-2016, grein fyrir ársskýrslu sinni. Er hún glöggur vottur um hve öflugt starf og fjölbreytt var unnið í klúbbum, ráðum og nefndum í umdæmisstjóratíð Magnúsar. Fjárhagslega stendur umdæmið einnig mjög vel. Glæsileg dagskrá Rótarýdagsins 27. febrúar 2016, sem fram fór í klúbbum víða um land, verður í minnum höfð. Varpaði hún ljósi á störf Rótarý og kynnti þau fyrir nærsamfélaginu.

Formenn aðalnefnda umdæmisins fluttu skýrslur um störf þeirra. Í máli Birnu Bjarnadóttur, formanns stjórnar Rótarýsjóðsins, kom fram að 15 klúbbar af 31 á Íslandi hefðu lagt að meðaltali 21.77 USD á hvern félaga í Annual Fund (AF) Rótarýsjóðsins, eða „Árlega sjóðinn“ svokallaða. Átta klúbbar lögðu fram meira en 40 USD á félaga. Hæsta framlag á félaga í AF var 115 USD frá Rótarýklúbbi Keflavíkur sem var efstur fjórða árið í röð. Alls námu framlög íslensku klúbbanna til Rótarýsjóðsins 42.527 USD á síðasta starfsári, 26.497 USD í Annual Fund, sem verða til úthlutunar til verkefna klúbbanna 2019.  Í Pólíó Plús sjóðinn námu framlögin 15.082 USD frá samtals 17 klúbbum. Hæsta framlagið í Pólíó Plús kom frá Rótarýklúbbi Seltjarnarness. Hæsta heildarframlagið til Rótarýsjóðsins kom frá Rótarýklúbbnum Reykjavík Miðborg sem lagði fram 5.680 USD í AF og 2.280 í Pólíó Plús. Fulltrúar klúbbanna sem mest hafa lagt af mörkum fengu lófaklapp fyrir góðan árangur.

Kristján Haraldsson, Rkl. Ísafjarðar, umdæmisstjóri 2012-2013, sagði frá störfum  löggjafarsamkomu Rotary International sem hefur samþykkt að rótarýklúbbar geti fækkað fundum, þó þannig að þeir verði ekki færri en tveir í mánuði.

Tilkynnt var að Sigríður Johnsen, Rkl. Mosfellssveitar, hefði verið útnefnd aðstoðarumdæmisstjóri og var því fagnað með lófataki.

Umdæmisráð skipað núverandi og fyrrverandi umdæmisstjórum tók þátt í panelumræðum í þinglok og fjallaði um ýmis umræðuefni með þingfulltrúum, þar á meðal umfang og dagskrá umdæmisþinga og skipulag Rótarýdagsins 2017, sem haldinn verður laugardaginn 6. maí n.k.  Að endingu bauð Knútur Óskarsson, verðandi umdæmisstjóri 2017-2018, ásamt nokkrum félögum sínum í Rkl. Mosfellssveitar, til umdæmisþings í Mosfellsbæ að ári.  Sjá meira

Texti og myndir MÖA


                                                                                                                                                             


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning