Fréttir

19.10.2016

Virðuleg og vekjandi setningarathöfn umdæmisþings Rótarý

Umdæmisþing Rótarý á Íslandi, hið 71. í röðinni, var sett í Digraneskirkju síðdegis sl. föstudag. Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri, setti þingið og bauð þingfulltrúa og gesti velkomna. Um  kvöldið var mótttaka bæjarstjórnar Kópavogs í Gerðarsafni og síðan haldinn rótarýfundur í Rkl. Kópavogs á sama stað með fjölbreyttu dagskrárefni. Þingstörf fóru svo fram á laugardaginn í Menntaskólanum í Kópavogi og lokahóf var haldið um kvöldið í Perlunni.

Rótarýklúbbur Kópavogs, sem er klúbbur umdæmisstjórans, hafði veg og vanda af undirbúningi og framkvæmd þingsins og dagskrár þess. Færði Guðmundur umdæmisstjóri félögum sínum í klúbbnum sérstakar þakkir.Var það samdóma álit allra þingfulltrúa og gesta að Rótarýklúbbur Kópavogs og undirbúningsnefndin undir forystu Guðmundar Ólafssonar hefði staðið að verkefninu með glæsibrag, og framkvæmd dagskrár á þinginu hefði tekist með miklum ágætum undir stjórn annars félaga í Rkl. Kópavogs, Jóns Ögmundssonar, sem var þingforseti.

Við setningarathöfnina í Digraneskirkju flutti fulltrúi alþjóðaforseta Rótarý ávarp. Það var Rob Klerkx frá Hollandi sem kom fram fyrir hönd forsetans og flutti kveðjur og árnaðaróskir hans til Rótarý á Íslandi. Fulltrúi norrænu rótarýumdæmanna var  Peter Juhlsgaard Jepsen, umdæmisstjóri í umdæmi 1480 í Danmörku. Hann er félagi í rótarýklúbbnum í Eystri-Hróarskeldu. Í ræðum sínum fjölluðu hinir erlendu heiðursgestir um brýn viðfangsefni Rótarý um þessar mundir, einkanlega félagaþróun sem sýnir að rótarýfólki fækkar í Evrópu og N-Ameríku, og hvernig bregðast megi við.  Kannanir hafa leitt í ljós að ranghugmyndir um  Rótarý eru útbreiddar. Aukna áherslu beri því að leggja á nútímalegt kynningarstarf, virkni yngra fólks í starfinu og aukna þátttöku kvenna. Þannig yrði betur tryggt en nú að rótarýklúbbarnir endurspegluðu þjóðfélagsmyndina og jafnframt þyrfti að laga starfshætti þeirra að breyttum þörfum nýrra félaga.  Ræðumenn lögðu einnig ríka áherslu á gæði rótarýstarfsins í klúbbunum, vandaða dagskrá hvers fundar og áhugaverð viðfangsefni. Þá rifjuðu þeir einnig upp glæsta sögu Rótarýsjóðsins, sem fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir og vinnur af alefli að ýmsum mannúðarmálum víða um veröld með aðaláherslu á útrýmingu lömunarveikinnar eins og kunnugt er.

Hrund Baldursdóttir, forseti  Inner Wheel á Íslandi,  sagði frá starfi samtaka sinna og flutti kveðjur til þingsins. Hún minnti á einkunnarorð Inner Wheel  en þau eru að „auka sanna vináttu, að efla mannleg samskipti og að auka alþjóðlegan skilning“. Sagði hún tímabært að minna á þau eins og ástandið í heiminum væri nú, þar sem þúsundir manna eru á vergangi eða lifa við afar slæmar aðstæður.

Hátíðarræðuna við setningarathöfn þingsins flutti Styrmir Gunnarsson,  fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins og Kópavogsbúi í tæpa hálfa öld. Ræðan bar yfirskriftina  „Frá fátækt til bjargálna“. Styrmir dró upp mynd af aðstæðum í Reykjavík á síðustu árum stjórnarárum Kristjáns 10. konungs Íslands og Danmerkur á öldinni sem leið:

„Þá töldu þeir sem bjuggu „fyrir vestan læk“, þ.e lækinn sem rennur undir Lækjargötunni, að þeir sem bjuggu austan hans væru annars flokks mannverur. Þeir sem bjuggu vestan hans töldu sig fínna fólk en hina“, útskýrði Styrmir þegar hann lýsti viðhorfunum á uppvaxtarárum sínum. Síðan barst tal hans að Fossvogslæknum sem skildi að Reykjavík og Kópavog. Að mati marga Reykvíkinga ríkti sú skoðun að byggðin sem var að rísa sunnan Fossvogslækjar væri ekki þess virði að tala um. Þetta væru kommúnistar. Í þessu mátti finna leifarnar af fordómum samfélags, sem hér var til fram eftir 20. öldinni.  Styrmir fjallaði um forystu tengdaföður síns Finnboga Rúts Valdimarssonar og eiginkonu hans Huldu Jakobsdóttur í málefnum Kópavogshrepps og síðar Kópavogsbæjar. Finnbogi hefði lagt áherslu á að tryggja Kópavogi framtíðarland, sem kannski myndi leiða til þess að Kópavogur yrði með tíð og tíma stærra bæjarfélag en Reykjavík.  Húsnæðisskortur eftirstríðsáranna og lóðaskortur í Reykjavík hefði orðið fólki hvati til að leita úrlausna í Kópavogi.

„Líklega er ekkert sveitarfélag á Íslandi skýrara dæmi um það nú á dögum að fátækt fólk rísi upp og komist til bjargálna en einmitt þetta sveitarfélag,“ sagði Styrmir í sinni eftirtektarverðu ræðu um  misskiptingu auðs og gæfu í íslensku samfélagi og hvernig fólk hefur verið dregið í dilka eftir þjóðfélagsstöðu og afskiptum stjórnmálamanna á síðustu áratugum. Með ákvörðunum á Alþingi 1990 um framsal aflaheimilda hefði banvænt bandalag myndast milli stjórnmálanna og viðskiptalífs og orðið meginástæðan fyrri efnhagshruninu 2008. Styrmir varaði við vaxandi ójöfnuði og taldi að líkt og Kópavogur gæti orðið stærsta borg á Íslandi á komandi árum myndi almenningur á Íslandi rísa upp ef stjórnamálaforsyta í öllum flokkum sæi ekki að sér. Það þyrfti að skapa sátt á Íslandi og draga úr þeirri sundrungu, sem verið hefði bölvaldur þessarar þjóðar í þúsund ár.

Venju samkvæmt var minnst rótárýfélaga sem látist höfðu á síðasta starfsári. Þeir voru 23 og var kveikt á kerti til minningar um hvern og einn þeirra. Sr. Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur Digraneskirkju og félagi í Rkl. Borgir-Kópavogur, annaðist athöfnina ásamt Jóni Ögmundssyni, þingforseta, sem tendraði ljósin.  

Því næst sungu ungir félagar úr kammerkór Digraneskirkju tónverkið Dropi lífsins. Sólveig Sigríður Einarsdóttir, organisti, lék undir og stjórnaði kórnum. Síðar söng kórinn „Faðir vor“ á svahílí við orgelundirleik.

Setningardagskránni lauk með kynningu umdæmisstjóra á tilnefndum umdæmisstjóra, sem gegna mun embætti umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi 2018-2019. Það er Garðar Eiríksson, félagi í Rkl. Selfoss. Hann starfar sem skrifstofu- og fjármálastjóri hjá Auðhumlu svf, fyrirtæki sem er í eigu um 600 mjólkurframleiðenda og hefur það hlutverk að taka á móti mjólk og breyta í mjólkurafurðir. Garðar og eiginkona hans Anna Vilhjálmsdóttir gengu fram og var þeim fagnað með lófataki og Garðar þakkaði góðar viðtökur og þann heiður að hafa verið valinn til að gegna embætti umdæmisstjóra. Sjá meira

Texti og myndir  MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning