Fréttir

5.2.2015

Farið yfir stöðuna á fundi "í hálfleik"

Umdæmisstjóri boðaði til fundar með forystumönnum nefnda á vegum rótarýumdæmisins þriðjudaginn 3. febrúar sl. Þar var gerð grein fyrir stöðu mála í hinum ýmsu málaflokkum sem undir nefndirnar heyra. Fram kom m.a. að rótarýklúbbarnir eru að undirbúa fjölbreytta dagskrá fyrir Rótarýdaginn 28. febrúar. Stofnun nýrra rótarýklúbba er í undirbúningi. Sex skiptinemar munu væntanlega fara til náms erlendis í haust. Sumarbúðir fyrir ungt fólk verða hér á landi í júní. Knútur Óskarsson, Rkl. Mosfellssveitar, hefur verið tilnefndur umdæmisstjóri 2017- 2018.

Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, sagði í ávarpi sínu við upphaf fundarins að nú væri fyrri hálfleik í störfum rótarýforystunnar lokið og seinni hálfleikur að hefjast. Hann stendur til loka starfsársins í endaðan júní. Það væri því tímabært að fara yfir stöðu verkefna hjá nefndunum og herða róðurinn þar sem þess væri þörf og hvetja til dáða. Almennt er staðan góð og var gerð grein fyrir nokkrum athyglisverðum verkefnun, sem unnið er að.

Rótarýdagurinn 28. febrúar

Knútur Óskarsson sagði frá verkefnum sínum sem aðstoðarumdæmisstjóra og hinna tveggja, þeirra Estherar Guðmundsdóttur og Eyþórs Elíassonar. Þá vék Knútur að undirbúningi Rótarýdagsins 28. febrúar með markmiðinu "að varpa ljósi á Rótarý", gera klúbbana sýnilegri og vekja áhuga hjá nýjum félagsmönnum. Undirbúningsnefnd hefur kynnt verkefnið fyrir klúbbunum og aðstoðar þá við aðgerðir. Greinar munu birtast í dagblöðum og héraðsfréttablöðum og lætur nefndin útbúa kynningargögn sem nýtast öllum klúbbum. Hér á heimasíðunni rotary. is má sjá verkefni einstakra klúbba.

Smella hér. 

Birna Bjarnadóttir, formaður Rótarýsjóðsnefndar, flutti hvatningarorð til klúbbanna um að ná settum markmiðum um framlög til Rótarýsjóðsins þ.e. USD 100 fyrir hvern félaga. Send verður áminning til klúbbanna um að framlög verði greidd fyrir 1. maí n.k. Jafnframt verða rótarýfélagar hvattir til að leggja í sjóðinn í eigin nafni.

Stofnun nýrra klúbba undirbúin

Halldóra Gyða Matthíasdóttir, formaður félagaþróunar- og útbreiðslunefndar, skýrði frá undirbúningi að stofnun nýrra klúbba. Fyrirhugað er að stofnsetja nýjan klúbb í Garðabæ vegna stækkunar sveitarfélagsins eftir að Garðabær og Álftanes sameinuðust og ennfremur vegna áhuga á að stofnaður verði morgunklúbbur þó að ákvörðun um það hafi ekki endanlega verið tekin. Unnið hefur verið með Rótarýklúbbi Borgarness að því að endurvekja klúbba á Vesturlandi með félögum í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi, þar sem fundir yrðu haldnir til skiptis á þessum stöðum. Enn önnur hugmynd, sem þó er skammt á veg komin, er stofnun nýs morgunklúbbs í Reykjavík. Jafnframt er til athugunar að stofna klúbb á Hvammstanga. Það mál er á byrjunarstigi og ekki ljóst hver framvindan verður en áhugi er fyrir hendi. Vonir standa til að tveir klúbbar a.m.k af þessum fjórum verði stofnaðir áður en starfsárinu lýkur 30. júní nk.

Efling nemendaskipta og sumarbúðastarfs

Hanna María Siggeirsdóttir, formaður æskulýðsnefndar, greindi frá úrvinnslu umsókna frá væntanlegum skiptinemum. Horfur eru á að 6 skiptinemar fari á vegum Rótarý á Íslandi til dvalar og skólagögnu í útlöndum næsta vetur. Þá munu 6 nemar koma hingað til lands. Klúbbarnir sem við sögu koma eru Rkl. Miðborg, Rkl. Austurbæjar, Rkl. Borgir, Rkl. Breiðholts, Rkl. Seltjarness og Rkl. Grafarvogs.  Ákvörðun umdæmisráðs um að veita klúbbum 150.000 króna styrk til að taka á móti erlendum skiptinemum virðist hafa örvað þátttöku í nemdaskiptunum miðað við það sem verið hefur undanfarin ár.

Hinn 1. mars n.k. rennur út umsóknarfrestur um dvöl í sumarbúðum erlendis, en einnig er í undirbúningi að efna til starfsemi sumarbúða hér á landi 19. – 28. júní með 10 þátttakendum, 5 stúlkum og 5 piltum á aldrinum 17 og 18 ára.

Hanna María gat þess að fyrirspurnir bærust til æskulýðsnefndarinnar frá ungmennum erlendis um að koma til Íslands í fjölskylduskiptum. Þátttakendur eru aðallega á aldrinum 14 – 18 ára. Erlendur þátttakandi myndi dveljast í þrjár vikur hér á Íslandi hjá fjölskyldu jafnaldra síns og síðan myndu báðir dveljast hjá fjölskyldunni ytra í aðrar þrjár vikur. Engin útgjöld fylgja þessu fyrir rótarýklúbbana því að fjölskyldurnar standa undir kostnaði.

Knútur Óskarsson tilnefndur umdæmisstjóri 2017-2018

Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, skýrði frá því að klúbbforsetum hefði verið send orðsending til kynningar í klúbbunum þess efnis að hún hefði staðfest tillögu valnefndar umdæmisins um að tilnefna Knút Óskarsson, aðstoðarumdæmisstjóra, Rótarýklúbbi Mosfellssveitar, til að gegna embætti umdæmisstjóra 2017-2018.

Magnús B. Jónsson, verðandi umdæmisstjóri 2015-2016, var nýkominn af þingi verðandi umdæmisstjóra í San Diego og rakti hann helstu stefnumál næsta forseta Rotary International, sem er K.R. "Ravi" Ravindran frá Sri Lanka, rösklega sextugur og rótarýfélagi frá 1974. Hann rekur stærsta tevinnslufyrirtæki heimsins sem framleiðir eina milljón tepoka á dag. Einkunnarorð hans eru: „Be a Gift to the World“ og óskaði Magnús eftir góðri þýðingu á íslensku.

Áhersluatriði nýja forsetans lúta að fjölgun félaga og eflingu klúbba. Þessu er einkanlega beint til rótarýklúbba í Vestur- og Norður-Evrópu og N - Ameríku, þar sem félögum fer fækkandi nema hér á Íslandi. Hann vill að klúbbarnir verði nútímavæddir og nýti sér möguleika Internetsins í auknum mæli. Alþjóðaforsetinn vill að rótarýfólk sinni mannúðarmálum á heimavettvangi í meira mæli en verið hefur. Áhersla verði lögð á ungmennastarf og að fá ungt fólk til að ganga í klúbbana. Rótarýhreyfingin verði sýnilegri í samfélaginu. Hann vill að Rótarý stefni að því með Polio Plus-verkefninu að lömunarveiki verði útrýmt fyrir 2018.

Magnús gat þess að lokum að hann væri að vinna að skipun í nefndir umdæmisins og yrði nokkur breyting frá starfsárinu 2015-2016 af ýmsum ástæðum. Hinn 14. marz næstkomandi verður ráðstefna með verðandi forsetum og riturum klúbbanna í Menntaskólanum í Kópavogi og námskeið um félagaþróun og stefnumótun verður haldið 25. apríl. Jens Erik Rasmussen frá Danmörku verður leiðbeinandi.

„Við erum sem sagt að koma okkur í gang“, sagði Magnús að lokum og bað viðstadda síðan að fara með fjórprófið.                                                                                                                   

                                                                                                                                   Texti og myndir MÖA                                 


Umdæmisstjóri og verðandi umdæmisstjórar. Guðbjörg Alfreðsdóttir 2014-2015, Magnús B. Jónsson 2015-2016, Guðmundur J. Þorvarðarson 2016-2017 og Knútur Óskarsson 2017-2018



Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning