Fréttir

14.10.2014

Umdæmisþingið: Gagnlegar umræður um viðfangsefni Rótarý

Aðalfundarstörf á umdæmisþingi íslenska rótarýumdæmisins fóru fram á öðrum degi þingsins í Garðabæ. Á dagskránni voru skýrslur stjórnar og nefnda en auk þess fjöldi fræðandi erinda.

Rótarýfólkið tók daginn snemma. Árla laugardags hófust vinnustofur forseta rótarýklúbbanna, ritara og gjaldkera með forystufólki umdæmisins. Sigrún Gísladóttir og Ingimundur Sigurpálsson, Rótarýklúbbnum Görðum, stjórnuðu þingstörfum.

Þau hófust með ávarpi Guðbjargar Alfreðsdóttur, umdæmisstjóra. Lýsti hún ánægju sinni með fyrri dag þingsins og sérstaklega þátt Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands og Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, í dagskránni.

„Ég er svo lánsöm að hafa þegar heimsótt 12 klúbba af 30 og er farin að þekkja meirihlutann af fólkinu hér inni. Það er einstaklega ánægjulegt að hitta alla félagana á þingi sem þessu og spjalla við þá,“ sagði Guðbjörg. „Framundan er fjölbreytileg dagskrá með margvíslegum erindum, ekki aðeins hefðbundnum fyrirlestrum heldur líka „öðruvísi fyrirlestrum“ og skemmtilegu ívafi. Góða skemmtun og njótið þess, sem við höfum upp á að bjóða. Vonandi fáið þið einhverjar nýjar hugmyndir fyrir klúbbana ykkar til að taka með ykkur heim,“ sagði Guðbjörg.

Björn B. Jónsson, fráfarandi umdæmisstjóri, leit yfir farinn veg og gerði grein fyrir skýrslu um síðasta starfsár. Hann drap á nokkur atriði sem þar koma fram, m.a. einkunnarorð síðasta starfsárs „Virkjum Rótarý til betra lífs". Björn sagði að þau endurspegluðu vel tilganginn sem fyrir fólki vekti með þátttöku í Rótarý. Margt hefði áunnist fyrir almenning um allan heim.

Hann gerði einnig störf aðstoðarumdæmisstjóra að umtalsefni. Þeir hefðu staðið sig frábærlega vel. Til marks um það væri leiðbeiningarit sem þeir tóku saman um inntöku nýrra félaga í rótarýklúbba. Mikilvægt væri að standa rétt að þeim málum, skref fyrir skref.

Björn undirstrikaði mikilvægi alþjóðlegra nemendaskipta Rótarý sem æskulýðsnefnd stendur fyrir. Umdæmisráð ákvað að koma til móts við hvern klúbb sem tekur skiptinema með 150 þús. kr. framlagi. Þannig ættu jafnvel minnstu klúbbar að eiga möguleika á að taka á móti skiptinemum.

„Rótarý er hreyfiafl,“ sagði Björn. „Tónlistarsjóður Rótarý og styrkveiting hans til ungs tónlistarfólks eru til marks um það. Ungir verðlaunahafar segja að sá styrkur hafi skipt sköpum fyrir þá.“ Hann minnti einnig á þá staðreynd að viðurkenningar frá Verðlauna- og styrktarsjóði Rótarý fyrir nýsköpun hjá fyrirtækjum og stofnunum væru vel metnar. Peningaupphæðin væri ekki aðalmálið heldur sú athygli og fjölmiðlaumfjöllun sem fylgir því fyrir fyrirtækin að slík viðurkenning kemur frá Rótarý.

Á dagskránni voru ennfremur stuttar greinargerðir um Rótarýsjóðinn, tónlistarsjóð umdæmisins, félagaþróun, verkefni á vegum Rótarý og kynningar- og útbreiðslumál.

Fulltrúar æskulýðsnefndar íslenska umdæmisins komu á sviðið og fjölluðu um nemendaskipti Rótarý. Með þeim voru skiptinemar, sem skýrðu frá frábærri reynslu sinni af sumarbúðadvöl eða ársdvöl hjá fjölskyldu í öðru landi og námi í erlendum skóla. Tilkynnt var að æskulýðsnefndin myndi skipuleggja sumarbúðir hér á landi sumarið 2015 og var skorað á klúbbana að leggja sitt af mörkum til að gera árangurinn sem glæsilegastan.

Umdæmisráð sat fyrir svörum í pallborðsumræðum og urðu nokkur skoðanaskipti í umræðum með þátttöku fulltrúa úti í sal. Greinilegt var að félagaþróun í klúbbunum er til umræðu og íhugunar. Sífellt er verið að velta fyrir sér réttum leiðum til að tryggja nýliðun og fjölgun rótarýfólks, t.d. hvort það verði gert með stofnun nýrra klúbba eða með því að efla frekar þá klúbba sem þegar eru starfandi. Eftir hádegishlé voru flutt erindi um margvísleg efni. Lesa meira


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning