Fréttir

14.10.2014

Umdæmisþingið: Erindaflutningur vakti sérstaka athygli

Seinni þingdagurinn var helgaður fyrirlestrum með breytilegu sniði. Litið var til sögulegrar fortíðar, skyggnst um í samtíðinni og horft til framtíðar.

Erindaflutningurinn, sem fram fór í síðdegisdagskránni verður minnisstæður.  Félagar úr Rótarýklúbbnum Görðum fluttu hnitmiðaða og athyglisverða fyrirlestra, svokölluð örerindi, þar sem m.a. var fjallað um svo ólík efni sem samanburð á markaðssetningu á pizzum á Íslandi og í Noregi, og stofnun hvalasafns í Reykjavík.

Önnur og ítarlegri erindi voru flutt undir einkunnarorðunum „Vörpum ljósi á“. Ragnheiður Traustadóttir fjallaði um minjar í Álftaneshreppi hinum forna, Janus Guðlaugsson um  fjölþætta heilsurækt, - leit að farsælli öldrun, og Hilmar Gunnarsson hafði svör við spurningunni „Þrívíddarprentuð framtíð?“. Vakti sú tækninýjung óskipta athygli viðstaddra enda ótrúlegir hlutir að gerast með notkun þrívíddarprentara, sem búa til bifreiðahluta, varahluti í mannslíkamann eða styttur úr súkkulaði ef því er að skipta.

Þessu næst sýndu nemendur leiklistarbrautar Fjölbrautaskólans í Garðabæjar nokkur leikatriði sem m.a. voru byggð á spuna í kringum hugmyndir sem komu utan úr sal. Var það skemmtilega gert hjá leikurunum.



Guðni Gíslason, kynningarstjóri umdæmisins, félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, gerði síðan grein fyrir Rótarýdeginum, sem ákveðið er að halda 28. febrúar 2015. Þetta verkefni er í anda einkunnarorða alþjóðaforseta Rótarý, „Vörpum ljósi á Rótarý“. Ímynd Rótarý á að styrkjast og áhugi á að ganga til liðs við Rótarý getur aukist. Ætlunin er að hver klúbbur haldi Rótarýdag á starfssvæði sínu með ofangreint að markmiði en hafi frjálsar hendur með skipulag dagsins.

Einkar ánægjulegu og starfsömu umdæmisþingi lauk síðan með því að Magnús B. Jónsson, verðandi umdæmisstjóri 2015-2016, og Þórir Páll Guðjónsson, formaður undirbúningsnefndar, ásamt fleiri félögum í Rótarýklúbbi Borgarness buðu til næsta umdæmisþings Rótarý, sem haldið verður í Borgarnesi dagana 9. og  10. október 2015. Yfirskrift þess verður „Menntun, saga, menning“.

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning