Rótarýdagurinn varpaði skýru ljósi á störf hreyfingarinnar
Rótarýdagurinn 28. febrúar tókst með miklum ágætum. Rótarýklúbbar um allt land efndu til kynningar á störfum sínum og hreyfingarinnar í heild auk þess sem efnt var til dagskráratriða fyrir íbúa í nærsamfélaginu.
Átján klúbbar tilkynntu um þátttöku sína í þessu kynningarátaki sem er í samræmi við kjörorð alþjóðaforseta Rótarý „Vörpum ljósi á Rótarý“. Sums staðar hamlaði óveður fyrirhuguðum atriðum en í heild tókst ætlunarverkið prýðisvel, þ.e. að ná til almennings og greina frá tilgangi Rótarý og starfsemi klúbbanna. Rótarýfólk var víða statt þennan dag á fjölförnum stöðum, hitti fólk að máli og afhenti kynningarbæklinga sem voru sérstaklega gefnir út fyrir þetta tækifæri. Í aðdraganda Rótarýdagsins birtist fjöldi greina, viðtala og frétta í hinum ýmsu fjölmiðlum. Yfirlit yfir fjölmiðlaumfjöllun og einstaka viðburði í tilefni Rótarýdagsins er að finna hér. Einnig á Facebook.