Vísur

Ljóð til íhugunnar

Þann 12. október 1993 færði Ólafur Ólafsson, bæjartæknifræðingur og rótaryfélagi, Rótarýklúbbi Vestmannaeyja bók sem hann kallaði „Ljóð til íhugunar“. Tilgangur bókarinnar var að hún gangi á milli rotaryfélaga og gesta klúbbsins og að viðkomandi velji eitt ljóð sem hann síðan flytur á rotaryfundi. Flytjandi á síðan persónulega að leggja út af einni hendingu ljóðsins, um hvað sem hann helst vill. 

Hér á eftir koma nokkur ljóð úr umræddri bók;

Ljóð flutt af Ólafi Ólafssyni, rótaryfélaga á rótarýfundi 28. febrúar 1995

Í Rangárþingi

Á björtum degi til austurs þitt auga leit  
yfirbragðsmikil fjöll með jökla að baki. 
Búsæld er yfir bæjum í hverri sveit 
blauta mýrin orðin að grænum reit. 
Lofa skal þá, sem lyftu því grettistaki.

Þér birtist Hekla háleit tigin og fríð, 
í heiðinu austar Tindafjallajökull skartar 
og Þríhyrningurinn dökkblár með dimmgræna hlíð 
hér dunar þér sagan í eyrum frá Njálutíð, 
er kvíslar Fiskár siga fram silfurbjartar.

Já, saga þíns héraðs er fræg, hver frásögn á mátt, 
en framtíðarsagan ræðst af vilja og þori. 
Mold og urðina mylur tæknin í smátt 
myldar jarðveginn, eykur hans gróðurmátt 
svo gömlu sandarnir grænka á hverju vori.

En jökulhjálminn þinn hátt yfir Hlíðina ber 
það hyllir upp Þórsmörk í litum, sem þér eru kunnir. 
Þú veist að sá jökull er vakandi yfir þér, 
sem vísaði landnámsmönnum að ströndinni hér 
á blómlegt hérað, - í sýsluna sem þú unnir.

Pálmi Eyjólfsson, fyrv. sýsluskrifari á Hvolsvelli

Ljóð flutt af Jóni Péturssyni, rótaryfélaga á rótarýfundi 25. apríl 1995

Heima

Hún rís úr sumar sænum 
í silkimjúkum blænum 
með fjöll í feldi grænum 
mín fagra Heimaey. 

Við lífsins fögrum fundum 
á fyrstu bernskustundum 
er sólin hló á sundum 
og sigldu himinfley. 

Hér réri´ann afi á árabát 
og undi sér best á sjó, 
en amma hafði á öldunni gát 
og aflann úr fjörunni dró. 

Er vindur lék í voðum 
og vængur lyftu gnoðum 
þeir höfðu byr hjá boðum 
í blíðvinafund. 

Og enn þeir fiskinn fanga 
við Flúðir, Svið og Dranga 
þó stormur strjúki vanga 
það stælir karlmannslund.

Og allt var skini skartað 
og skjól við móðurhjartað, 
hér leið mín bernskan bjrta 
við bjargfuglaklið. 

Er vorið lagð´að landi, 
var líf í fjörusandi, 
þá ríkti undaðsandi 
í ætt við bárunið. 

Þegar í fjarska mig báturinn ber 
og boðinn úr djúpinu rís, 
eyjan mín kæra, ég óska hjá þér, 
að eigi ég faðmlögin vís. 

Þótt löngun ber´af leiðum 
á lífsins vegi breiðum, 
þá finnst á fornum eiðum 
margt falið hjartamein. 

En okkur æskufunda 
við ættum þó að muna 
á meðan öldur una 
í ást við fjöruskin.
   Kvæði Ása í Bæ

Ljóð flutt af Jóhanni Björnssyni, rótarýfélaga á rótarýfundi 29. október 1996

Heiðarbýlið

Uppi á heiði á Ísaláði 
oft mig dreymir mey 
næturgreiða þar ég þáði 
þann sem gleymist ei.

Brósin klæðin dró svo af mér 
„did the best she could"“
svo í næði seinna gaf mér 
„something just as good“.

Frábærlega fögur var hún 
Fallega-Manga hét 
fyrir mig á borðið bar hún 
brauð og hangiket.

Þótt í stílinn þannig færi 
þakkar slíka gjörð 
Heiðarbýlið hélt eg væri 
himnaríki á jörð

Gamankvæði eftir vesturíslenska skáldið Káin