Um Vestmannaeyjar
Saga Eyjanna hófst að sögn á því, að írskir þrælar Hjörleifs landnámsmanns flúðu þangað eftir að hafa vegið húsbónda sinn. Þá kom Ingólfur Arnarson á vettvang, felldi þrælana og bjargaði konum og börnum sem þeir höfðu rænt. Írar nefndust Vestmenn og Ingólfur skírði eyjarnar því Vestmannaeyjar. Eyjarnar er 15 auk 30 dranga og skerja. Heimaey er langstærst og eina eyjan sem er byggð. Íbúar Vestmannaeyja eru um 5000. Sjósókn og fiskvinnsla eru helstu atvinnuvegir og eru Vestmannaeyjar ein stærsta verstöð landsins. Tyrkjaránið árið 1627 er einn átakanlegasti atburður í sögu Eyjanna, en þá voru 36 drepnir og 242 fluttir úr landi og seldir í ánauð til Algeirsborgar. Mörg kennileiti bera nöfn sem tengjast Tyrkjaráninu og má þar nefna Sængurkonustein og Ræningjatanga.
Gosið á Heimaey. 23. janúar 1973 voru Vestmannaeyingar illþyrmilega minntir á hversu kröftug móðir náttúra getur verið. Þá nótt byrjaði að gjósa á Heimaey og þurftu íbúarnir að yfirgefa heimili sín og voru flestir fluttir til lands sömu nótt. Gosið stóð í rúma fimm mánuði og þegar yfir lauk hafði Heimaey stækkað um 20 prósent.
Eldfell. Nýtt fell myndaðist, Eldfell 225 m á hæð. Stór hluti bæjarins fór undir hraun og ösku, en alls eyðilögðust um 360 hús og enn fleiri skemmdust. Það tók rúm tvö ár að grafa upp hús og hreinsa ösku og gjall sem féll á bæinn. Í dag má víða sjá ummerki eftir gosið og hve lítilmegnugur maðurinn er gegn náttúruöflunum. Til skamms tíma nýttu Eyjamenn hitann úr hrauninu til að kynda hús sín. Surtsey sem er suðvestur af Heimaey myndaðist í neðansjávargosi og er hún ein yngsta eyja í heiminum í dag, rétt liðlega þrítug. Surtsey hefur verið friðuð frá upphafi og hafa vísindamenn fylgst með landnámi jurta og dýra þar, sem er einsdæmi í heiminum.
Milljónir fugla. Vestmannaeyjar hafa löngum verið vinsæll viðkomustaður og árlega staldra við miljónir fugla. Að jafnaði verpa um 30 tegundir fugla í Vestmannaeyjum og nokkrar tegundir hafa til skamms tíma ekki orpið annars staðar á landinu. Í gegnum aldaraðir hefur fugl verið nýttur til matar. Á sumrin fara menn í úteyjar og dvelja þar dögum saman við veiðar og eggjatöku.
Lundinn er konungur fugla í Vestmannaeyjum enda er hvergi í heiminum eins mikið af honum. Í ágústmánuði fer pysjan (ungi lundans) úr holu sinni. Ljósin í kaupstaðnum freista og hundruðum saman þær fljúga á vit ljósanna. Hvarvetna eru hjálpfúsar hendur barna sem fara um bæinn og safna þeim saman. Daginn eftir er farið með pysjurnar niður að sjó, þegar þangað er komið er þeim sveiflað styrkum höndum hátt á loft, þannig að þær grípa flugið á vit frelsisins úti á sjó.
Afþreying. Fiska- og náttúrugripasafn Vestmannaeyja er einstætt, auk lifandi sjávardýra er í safninu mikill fjöldi af uppstoppuðum fuglum og stórt og mikið steinasafn. Byggðarsafn með minjum tengdum sjómennsku og daglegu lífi eyjaskeggja, ásamt sérstakri gosminjadeild. Fjölda verslana og þjónustuaðila er að finna í Vestmannaeyjum. Í Eyjum er einn af betri 18 holu golfvöllum á Íslandi, þar sem leikið er inni í gamalli eldstöð og meðfram þverhníptum hömrur.
Polla- og pæjumót. Hin vinsælu Polla- og Pæjumót í knattspyrnu. Sprang, þjóðaríþrótt Vestmannaeyinga. Hestaferðir. Ógleymanlegar útsýnisferðir á sjó, á landi og úr lofti. Gönguferðir eftir merktum gönguleiðum við sjávarsíðuna og á eldstöðvar. Fuglaskoðun þar sem gengið er um fuglabyggðir eða farið í ógleymanlegar bátsferðir. Sundlaug, þar sem sjó er blandað saman við vatnið. Kvikmyndasýning um gosið í Heimaey og uppbygginguna í kjölfarið.Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Sjóstangaveiðimót og jasshátíð.
Þjóðhátíð Vestmannaeyja í Herjólfsdal er haldin um verslunarmannahelgina en fyrr á öldinni oftast um miðjan ágúst. Hún er arfur frá þjóðhátíðinni 1874, þegar haldin var hátíð í dalnum 2. ágúst eins og víða um landið. Eyjamenn komust ekki upp á fastalandið vegna veðurs þegar átti að fagna þúsund ára afmæli þjóðarinnar á Þingvöllum og héldu því sína eigin þjóðhátíð. Árið 1901 var aftur haldin þjóðhátíð í Eyjum og hefur síðan verið haldin nánast samfellt, einnig strax eftir eldgosið 1973. Íþróttir voru í fyrstu mjög áberandi og hefur bjargsig verið sýnt á hverri þjóðhátíð í rúm sjötíu ár. Frá því um 1920 hafa íþróttafélögin Þór og Týr annast hátíðina, allajafna sitt árið hvort. Árið 1996 voru Þór og Týr sameinuð og heldur hið sameinaða ÍBV þjóðhátíðina nú. Mikið er sungið og trallað í tjöldum í dalnum, dansað og setið að sumbli. Hátíðinni tengjast ýmis sönglög og eru kunnust skáld Árni úr Eyjum og Ási í Bæ en Oddgeir Kristjánsson ástsælastur tónskálda.
Ferðir til og frá Eyjum. Herjólfur siglir daglega á milli lands og Eyja og oftar á sumrin. Þá er flogið oft á dag frá Reykjavík og tekur sú ferð rétt um 20 mínútur. Frá Bakkaflugvelli, Landeyjum, er fugtaxi en þaðan tekur ekki nema 5 mínútur að fljúga til Eyja. Boðið er upp á skipulagðar skoðunarferðir með hópferðabifreiðum en einnig eru til staðar leigubifreiðar og bílaleigubílar.
Veitinga- og gistihús. Í Vestmannaeyjum er að finna veitinga- og skemmtistaði í öllum verðflokkum allt frá skyndibita til staða með fullri þjónustu. Gistimöguleikarnir eru fjölmargir, til að mynda tjaldstæði, staðsett í hinum sögufræga Herjólfsdal, farfuglaheimili, gistiheimili og hótel með öllum nútíma þægindum. Fjölda verslana og þjónustuaðila er að finna í Vestmannaeyjum, þar á meðal gallerí, þar sem seldir eru handunnir minjagripir tengdir Vestmannaeyjum
Myndir: ©Sigurgeir Jónasson