Sérlög fyrir Rótarýklúbb Sauðárkróks
I. kafli. Stjórn.
- grein.
Klúbburinn heitir Rótarýklúbbur Sauðárkróks, og nær yfir lögsagnarumdæmi Sauðárkróks og nágrenni. Klúbburinn er aðili að alþjóðahreyfingu rótarýmanna, Rotary International ( R.I. ).
Stjórn klúbbsins skipa 5 félagar, sem kjörnir eru til eins árs í senn: forseti, verðandi forseti, fráfarandi forseti sem gegnir störfum varaforseta og gjaldkera, ritari, og stallari. Forseti skal kosinn 18 mánuðum hið minnsta áður en hann tekur við embætti. Ritari og stallari skulu kosnir sérstaklega í þessari röð.
- grein.
Á fyrsta fundi í desembermánuði skal forseti skora á félaga að nefna til menn til að vera í kjöri til forseta á þar næsta starfsári og til ritara, gjaldkera og stallara á næsta starfsári. Tilnefning skal vera skrifleg og afhent ritara eigi síðar en eftir 7 daga. Hver félagi má tilnefna einn mann í hvert embætti. Stjórnin athugar allar tilnefningar og tilkynnir síðan á 3ja fundi í desember, hverjir 3 félagar hafi hlotið flest tilnefningaratkvæði í hvert embætti. Eru þeir þrír í kjöri en skrifleg kosning skal fara fram á næsta fundi, þó eigi síðar en 31. desember. Sá er kosinn, er hlýtur flest atkvæði. Nú verða atkvæðin jöfn og skal þá kjósa bundinni kosningu um þá tvo menn er flest atkvæði hlutu við óbundnu kosninguna. Ef þrír menn hafa hlotið jafnmörg atkvæði við kosninguna ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir hljóta báðir jafna atkvæðatölu við bundna kosningu, skal hlutkesti ráða. Nú eru aðeins tveir menn tilnefndir í embætti, og fer þá fram kosning, en hlutkesti ræður ef atkvæði verða jöfn. Ef tilnefndur er aðeins einn maður í embætti, skal hann talinn sjálfkjörinn.
- grein.
Fráfarandi stjórn gerir tillögur um endurskoðanda reikninga og varaendurskoðanda, og skal kjósa þá á sama fundi og stjórnina.
- grein.
Hin nýkjörna stjórn tekur við störfum á fyrsta fundi nýs starfsárs, þ.e. á fyrsta fundi eftir 1. júlí, undir forsæti þess er kosinn var forseti 18 mánuðum áður.
- grein.
Forfallist stjórnarmaður á kjörtímabilinu, setur stjórnin sjálf mann í hans stað.
II. kafli. Stefnumál klúbbsins.
- grein.
Stefnumál klúbbsins eru að vinna þjónustuhugsjón R.I. brautargengi í ljósi þess að hún er grundvöllur góðra verka og leggja sérstaka áherslu á:
1. að auka persónuleg kynni til að geta orðið öðrum að liði.
2. að meta að verðleikum sérhvert gagnlegt starf.
3. að hver geri til sín auknar siðferðilegar kröfur í stöðu og starfi og leitist við að bæta sína þjónustu og vinna þar með í þágu samfélagsins.
4. að efla skilning milli þjóða, velvilja og frið með því að taka þátt í þessum alþjóðlega félagsskap.
5. að efla þátttöku ungs fólks í leiðtogastarfi og gagnkvæmum samskiptaverkefnum.
III. kafli. Skyldur embættismanna.
- grein.
Forseti stjórnar fundum klúbbsins og stjórnarfundum. Hann er málsvari klúbbsins og gegnir öllum forsetaskyldum samkvæmt lögum og venjum.
- grein.
Varaforseti gegnir skyldum forseta í forföllum hans.
- grein.
Ritari annast allar bréfaskriftir, heldur félagaskrá, gjörðabók fyrir klúbbfundi og stjórnarfundi og gerir skýrslur um fundarsókn hvers einstaks félaga. Hann sendir öðrum Rótarýklúbbum tilkynningu, ef einhver félagi þeirra situr fund klúbbsins. Hann semur og sendir skrifstofu umdæmisstjóra eftirfarandi: Misserisskýrslur 1. júlí og 1. janúar, breytingar á félagaskrá og starfsgreinum, tilkynningar um stjórnarkjör, skýrslu um fundarsókn hvers mánaðar að loknum síðasta fundi hvers mánaðar, breytingar á fundarstað og fundartíma. Að öðru leyti innir ritari af hendi þau störf sem forseti klúbbsins eða umdæmisstjóri fela honum. Heimilt er stjórninni að skipa erlendan bréfritara, þegar þess er talin þörf.
- grein.
Gjaldkeri innheimtir allar tekjur klúbbsins og greiðir alla reikninga. Hann gerir reikningsskil á aðalfundi og endranær, þegar stjórnin krefst þess. Hann skal hafa skrá yfir aðrar eignir klúbbsins og geymslustaði þeirra hverju sinni og afhenda eftirmanni sínum afrit af skránni. Fé klúbbsins skal varðveitt í banka á Sauðárkróki. Reikningsárið er frá 1. júlí til 30. júní. Að öðru leiti skal gjaldkeri leysa af hendi öll þau störf, sem samkvæmt lögum og venjum varða embætti hans.
- grein.
Stallari sér um að vel sé búið að félögum á fundum. Hann varðveitir flögg og aðra muni klúbbsins og framkvæmir öll þau störf er slíku embætti fylgja og forseti felur honum.
IV. kafli. Fundir.
- grein.
Reglulega fundi skal halda á hverjum virkum fimmtudegi kl. 18,45. Þó getur klúbbstjórnin fært reglulegan vikufund til annars tíma og/eða dags, þó þannig að hann sé á því tímabili sem hefst daginn eftir síðasta reglulegan fundardag á undan og lýkur daginn fyrir næsta reglulegan fund. Stjórnin getur jafnvel, þegar nauðsyn krefur og veigamiklar ástæður eru fyrir hendi, fellt niður venjulegan vikufund. Stjórnin má ekki á eigin spýtur fella niður meira en fjóra reglulega fundi á rótarýárinu og aldrei fleiri en þrjá í röð. Slíkar breytingar skal tilkynna öllum félögum í tæka tíð.
- grein.
Fyrsti fundur í júlímánuði ár hvert er aðalfundur klúbbsins, stjórnarskiptafundur. Les fráfarandi ritari þá upp ársskýrslu, og fráfarandi gjaldkeri leggur endurskoðaða ársreikninga fram til samþykktar. Jafnframt gerir viðtakandi gjaldkeri tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs.
- grein.
Allir klúbbfundir eru ályktunarhæfir í öllum málum, þegar a.m.k. 2/3 félaga eru á fundi. Meiri hluti atkvæða ræður í öllum málum, nema annað sé ákveðið í lögum klúbbsins.
- grein.
Stjórnin heldur fundi eigi sjaldnar en sex sinnum á starfsárinu. Auk þess skal halda stjórnarfundi, ef forseti eða tveir aðrir stjórnarmenn óska þess.
- grein.
Stjórnarfundir eru ályktunarhæfir ef 3 eru á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum. Atkvæði forseta sker úr ef atkvæði eru jöfn.
V. kafli. Klúbbgjöld.
- grein.
Inntökugjald er ákveðið af stjórn klúbbsins hverju sinni. Félagar skulu greiða árgjald fyrir svæðistímaritið Rotay Norden. Áskrift að tímaritinu Rotarian er frjáls, en klúbburinn skal kaupa eitt eintak og láta senda beint til Héraðsbókasafns Skagfirðinga.
- grein.
Árgjald til klúbbsins skal ákveðið á aðalfundi og greiðast mánaðarlega. Ef brýna nauðsyn ber til, og stjórnin samþykkir, má annar lögmætur klúbbfundur breyta fjárhæð gjaldsins, og kemur þá breytingin til framkvæmda á næsta gjalddaga.
- grein.
Klúbbfundur eða stjórn klúbbsins geta ekki ákveðið hve mikið eða hvort einstakir félagar leggja fram til Rotary Foundation.
VI. kafli. Nefndir.
- grein.
Í byrjun hvers starfsár skipar stjórn klúbbsins þessar fimm aðalnefndir:
Klúbbþjónustunefnd Club Service.
Félaga- og starfsgreinanefnd Membership,Fellowship,
Classification.
Starfsþjónustunefnd Vocation Service.
Samfélagsnefnd Community Service.
Alþjóðanefnd International Service.
Aðrar undirnefndir skipar forseti með samþykki stjórnar sinnar þegar ástæða þykir til. Hver aðalnefnd skal vera skipuð 3 mönnum eða fleiri eftir ákvörðun stjórnarinnar. Formenn aðalnefndanna skal forseti venjulega skipa úr hópi meðstjórnenda sinna.
- grein.
Helstu skyldur aðalnefnda þeirra er um ræðir í 20. grein eru sem hér segir:
Klúbbþjónustunefnd.
Hún skal hafa vakandi auga á allri annarri félagsstarfssemi en þeirri sem fellur í hlut annarra kosinna nefnda og starfsmanna og jafnframt eiga frumkvæði að og koma í framkvæmd árlegum hátíðum klúbbsins, sona- og dætrafundum, konufundum, ferðalögum, klúbbheimsóknum o.fl. Sér til aðstoðar getur klúbbnefnd hvatt til einn eða fleiri félaga utan nefndarinnar ef nauðsyn ber til. Hún skal ein sér eða í samvinnu við forseta og aðrar nefndir stuðla að alhliða eflingu félagslífs svo sem með því að koma á skemmtilegum siðum og venjum og viðhalda þeim og stuðla að því að dagskrár verði fjölbreyttar, fræðandi og skemmtandi.
Félaga- og starfsgreinanefnd.
Hún skal halda skrá yfir þær starfsgreinar í bæjarfélaginu, sem talið er rétt að geti átt fulltrúa í klúbbnum, svo og hverjar þeirra eigi þar fulltrúa. Við endurskoðun starfsgreinaskrárinnar skal farið eftir reglum og vísbendingum frá R.I. “ Outline of Classification” og skal endurskoðun lokið fyrir 30. september ár hvert. Nefndin skal vekja athygli á því ef mikilsverðar starfsgreinar eiga ekki fulltrúa í klúbbnum, eins skulu félagar benda nefndinni á starfsgreinar sem þeir kunna að telja að vanti í skrána. Hún athugar allar uppástungur um nýja félaga í klúbbinn, og kynnir sér gaumgæfilega hvort þeir njóti álits og trausts í störfum sínum og enn fremur hvort þeir séu félagslyndir. Nefndin lætur stjórn klúbbsins í té álit sitt á þeim mönnum. Sá einn getur orðið félagi í klúbbnum sem hefur hlotið meðmæli allra nefndarmanna til þess.
Starfsþjónustunefnd.
Hún skal annast um að klúbbfélagar veiti við og við fræðslu um starfsgrein sína, til þess að félagarnir fái skilið vandamál og starfsaðstöðu hvers annars svo og þjónustuhlutverk það sem hver um sig gegnir í þjóðfélaginu á hverjum tíma.
Samfélagsnefnd.
Hún skal sjá um að helstu mál bæjarfélagsins og þjóðfélagsins verði jafnan kynnt félögum á fundum og leiðbeina þeim eftir föngum um það á hvern hátt þeir geti best lagt þessum málum lið.
Alþjóðanefnd.
Hún skal annast um að veitt verði fræðsla um viðhorf Rótarýs til alþjóðamála og á hvern hátt rótarýfélagsskapurinn og einstakir félagar geta best stuðlað að og eflt velvild og gagnkvæman skilning þjóða á milli. Enn fremur er það hlutverk nefndarinnar að veita erlendum rótarýfélögum fyrirgreiðslu.
- grein.
Forseti setur aðalnefndum og undirnefndum, sem skipaðar kunna að verða, ítarlegra erindisbréf en fyrir er mælt í 21.grein að fengnum tillögum hlutaðeigandi aðalnefnda og skv. leiðbeiningum R.I. í “Manual of Procedure”, þegar ástæða þykir til.
- grein.
Nefndir skulu starfa eftir þeim reglum og leiðbeiningum, sem R.I. setur eða lætur í té og samkvæmt því er forseti klúbbsins mælir fyrir um. Formaður hverrar nefndar stjórnar nefndarfundum og annast um framkvæmdir í þeim málum er nefndina varðar. Forseti klúbbsins getur sótt fundi í öllum nefndum og jafnframt getur hann hvatt nefndir til að sitja stjórnarfundi. Hann lítur eftir því að nefndir ræki skyldur sínar. Halda skulu nefndir gerðabók um fundi sína og aðra starfssemi.
VII. kafli. Fundarsókn.
- grein.
Félagi skal sækja reglulega fundi í klúbbnum. Það telst fundarsókn ef félagi er viðstaddur 60% af fundartímanum. Félagi getur bætt sér upp fundarsókn með því að mæta á fundi í öðrum rótarýklúbbum, eða með störfum fyrir rótarý.
Stjórnin getur veitt einstökum félögum undanþágu um stundarsakir frá því að sækja fundi, enda hafi hann sótt um það skriflega og tilgreint ástæður, sem stjórnin telur fullnægjandi.
Félagi getur óskað þess skriflega við ritara klúbbsins að vera undanþeginn mætingarskyldu, ef summa af aldri og félagsaðild félaga í einum eða fleiri rótarýklúbbum er 85 ár eða meira. Þessar undanþágur verður ekki til að hækka mánaðarfundarsóknartölu klúbbsins. Félaginn heldur öllum sínum félagsréttindum óskertum.
- grein.
Um mætingu og undanþágu frá fundarsókn gilda ákvæði grundvallarlaga R.I. fyrir rótarýklúbba.
VIII. kafli. Félagsaðild.
- grein.
Sérhverjum félaga ber að vinna að því að fá nýja félaga í klúbbinn þegar æskilegt telst. Nú vill félagi gera tillögu um nýjan félaga og/eða starfsgrein, þá skal hann senda forseta skrifleg tilmæli þar um á eyðublaði sem forseti útbýr. Forseti leggur tillöguna fyrir stjórnina og lætur hún Félaga- og starfsgreinanefnd (FS nefnd) kveða upp álit sitt. Að því fengnu ákveður stjórnin hvort starfsgrein verði opnuð, og verði það gjört skal það tilkynnt á fundi og öðrum félögum gefinn kostur á að tilnefna skriflega menn í starfsgreinina innan 7 daga. FS nefnd fær tilnefningarnar til athugunar og umsagnar. Mæli FS nefnd með að leita samþykkis klúbbfélaga um tilnefnda, sem nýs eða nýrra fulltrúa í klúbbnum fyrir hlutaðeigandi starfsgrein, ákveður stjórnin, og tilkynnir á fundi, hverjum hún leggur til að verði boðin aðild. Hafi forseta klúbbsins eigi borist andmæli frá 2 eða fleiri félögum gegn tillögu stjórnarinnar 10 dögum eftir dagsetningu tilkynningarinnar, skal forseti tilkynna tilnefnda bréflega um úrslit málsins og búast við að veita honum inngöngu með virðulegri athöfn innan 4 vikna, enda tjái tilnefndur sig fúsan til að verða félagi, greiða tilskilin gjöld og hlíta lögum og reglum Rótarýfélagsskaparins.
- grein.
Klúbburinn getur kosið heiðursfélaga einstakling innan eða utan klúbbsins. Stjórnin ákveður hversu langan tíma slík félagsaðild gildir. Heiðursfélagi greiðir ekki inntökugjald né árgjöld, hefur ekki atkvæðisrétt, verður ekki kosinn til neinnar stöðu í klúbbnum, er ekki fulltrúi neinnar starfsgreinar en á rétt á að sækja alla fundi og njóta alls þess er klúbburinn hefur að bjóða. Heiðursfélagi þessa klúbbs nýtur engra réttinda né fyrirgreiðslu í neinum öðrum klúbbi, að öðru leyti en því að honum er heimilt að sækja fundi annarra klúbba án þess að vera gestur rótarýfélaga.
- grein.
Hverjum félaga er valin starfsgrein í samræmi við atvinnurekstur hans, stöðu eða stétt.
Ekki mega vera fleiri en fimm fulltrúar úr hverri starfsgrein, nema félagar séu fleiri en 50.
Félagar sem hætta störfum í þeirri starfsgrein, er þeir voru fulltrúar fyrir, teljast ekki með í heildarfjölda í starfsgrein. Þessir félagar halda sömu réttindum og skyldum í klúbbnum.
- grein.
Um félagsaðild að klúbbnum eða slit aðildar gilda reglur grundvallarlaga R.I. um rótarýklúbba.
- grein.
Enginn má utan klúbbsins skýra frá neinu er varðar tilnefningu eða atkvæðagreiðslu um inntöku manna í klúbbinn.
IX. kafli. Ýmislegt.
- grein.
Mál eða tillögur, sem fela í sér skuldbindingar fyrir klúbbinn, skulu ekki bornar fram á fundi fyrr en stjórn klúbbsins hefur fjallað um þær. Komi slík mál fyrir á klúbbfundi án vitundar stjórnarinnar, skal umræðulaust vísa þeim til hennar. Að lokinni athugun skal stjórnin leggja málið fyrir klúbbfund, og ræður þá meirihluti atkvæða úrslitum þess.
- grein.
Samskota má ekki leita og hjálparbeiðnir má ekki bera fram í klúbbnum eða á vegum hans nema með samþykki stjórnarinnar. Klúbbfundur getur ekki samþykkt í því efni fjárframlög einstakra félaga.
- grein.
Stjórn klúbbsins í samráði við Klúbbþjónustunefnd setur reglur um fundarsköp. Skal í þeim stefnt að því að gera fundina ánægjulega og aðlaðandi fyrir gesti og félaga.
Ef upp koma deilur eða missætti í klúbbnum um þetta mál eða önnur, sal farið með þær samkvæmt grundvallarlögum R.I. um rótarýklúbba um sáttarfundi og gerðardóma.
X. kafli. Lagabreytingar.
- grein.
Sérlög þessi skulu vera í samræmi við stofnskrá og sérlög R.I. og grundvallarlög R.I. um rótarýklúbba, og verður að breyta þeim, verði gerð breyting á grundvallarlögunum á löggjafarþingi R.I. sem gengur í berhögg við þau.
Tillögur til lagabreytinga skulu vera skriflegar, og skal stjórnin senda öllum félögum þær a.m.k. einni viku áður en þær koma til umræðu. Hafa skal tvær umræður um breytingarnar. Lagabreytingar öðlast gildi ef þær eru samþykktar á ályktunarbærum fundi með 2/3 atkvæða viðstaddra félaga, enda séu þær í samræmi við grundvallarlög og samþykktir R.I.
Breytingar á 1.málsgrein 1. greinar öðlast ekki gildi fyrr en aðalstjórn R.I. hefur samþykkt þær.
- grein.
Sérlög þessi öðlast gildi 1. júlí 2012 og falla um leið úr gildi lög klúbbsins frá 9. nóvember 1967 með áorðnum breytingum sem samþykktar voru 5. janúar 2006.
Sauðárkróki 1. júlí 2012
Stjórn Rótarýklúbbs Sauðárkróks.
---------------------------------------- ----------------------------------------
forseti verðandi forseti
----------------------------------------- ----------------------------------------
ritari gjaldkeri
------------------------------------------
stallari