Saga klúbbsins

Ágrip af sögu Rótarýklúbbs Sauðárkróks

Kafli úr Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára

1. undirbúningsfundur.

Laugardaginn 4. september 1948 kl. 3.30 var haldinn fundir í Hótel Villa Nóva til að ræða um stofnun Rótarýklúbbs á Sauðárkróki. Þessir menn voru mættir á fundinum:

1.            Séra Helgi Konráðsson sóknarprestur
2.            Torfi Bjarnason héraðslæknir
3.            Sigurður Sigurðsson sýslumaður
4.            Björgvin Bjarnason bæjarstjóri
5.            Kristófer Eggertsson skipstjóri
6.            Árni Jóhannsson byggingavörukaupmaður
7.            Valgarð Blöndal bókhaldari
8.            Ole Bang apótekari
9.            Kristinn P. Briem vefnaðarvörukaupmaður.

Séra Helgi Konráðsson hafði framsögu á fundinum og útskýrði starfsemi rótarýklúbba yfirleitt. Lagði hann fram bréf frá séra Óskari J. Þorlákssyni á Siglufirði, en hann er umdæmisstjóri fyrir rótarýklúbbana á Íslandi. Gat séra Helgi þess m. a., að rótarýklúbbur, sem kynni að verða stofnaður hér, mætti ekki hafa færri stofnendur en 16 til 17 menn.

Þeir 9, sem á fundinum voru, samþykktu að vera með í klúbbnum. Ennfremur upplýstist. að 3 menn aðrir mundu vilja vera með, þeir Guðjón Sigurðsson bakari, Eysteinn Bjarnason sparisjóðsformaður og Sveinn Guðmundsson kaupfélagsstjóri.

Fundurinn tók til umræðu, hverjum skyldi fleirum verða boðið að vera í klúbbnum, og var stungið upp á þessum mönnum og þeir samþykktir af fundarmönnum:

1.            Eyþór Stefánsson söngstjóri
2.            Jón Þ. Björnsson skólastjóri
3.            Guðmundur Sveinsson bókhaldari
4.            Pétur Hannesson póstafgreiðslumaður
5.            Ólafur Sigurðsson bóndi Hellulandi
6.            Kristinn Gunnlaugsson síldarsaltandi.

Fundurinn samþykkti, að komið skyldi saman að nýju mánudaginn 13. september, kl. 3. 30 á sama stað til frekari umræðu um málið.

Fundi slitið

                    Kr. P. Briem (sign.)

Þannig hljóðar orðrétt fundargerð 1. undirbúningsfundar að stofnun Rótarýklúbbs Sauðárkróks. 2. undirbúningsfund sátu 12 menn.en upplýst var, að þegar hefðu 17 menn samþykkt að gerast félagar, ef um stofnun klúbbsins yrði að ræða. Var ákveðið, að sr. Helgi talaði við sr. Óskar í síma. Var það gert, og kvaðst Óskar mundu senda skilríki í sambandi við stofnfund og bjóst við að koma til Sauðár-króks seinna í mánuðinum.

3. undirbúningsfundur var haldinn 23. september. Voru þá mættir 14 menn.

Á fundinum fór fram prófkosning á mönnum í stjórn. Síðan segir orðrétt:

"Samþykkt var að koma saman næst sunnudaginn 26. sept. kl. 3. 15 á sama stað og áður. Skyldi það vera stofnfundur klúbbsins, og var búist við, að sr. Óskar J. Þorláksson umdæmisstjóri á Siglufirði ásamt fleiri Siglfirðingum mundu sitja fundinn.

Fundi slitið

                Kr. P. Briem."

Stofnfundur var svo haldinn sunnudaginn 26. september 1948 kl. 3. 30 í Hótel Villa Nóva. Voru þar mættir 18 innanhéraðsmenn, eins og segir í fundargerð, og gerðust þeir allir stofnendur klúbbsins. Hafa nöfn þeirra allra þegar verið skráð hér að framan.

Stofnfundinn sátu einnig sr. Óskar J. Þorláksson, umdæmisstjóri rótarýklúbbanna á Íslandi og prestur þeirra Siglfirðinga, ennfremur 9 aðrir rótarýfélagar á Siglufirði auk tveggja annarra Siglfirðinga. Þannig gerðist Rótarýklúbbur Siglufjarðar móðurklúbbur Rótarýklúbbs Sauðárkróks.

Á stofnfundinum var kosin 1. stjórn klúbbsins, og var hún þannig skipuð:

Forseti sr. Helgi Konráðsson
Varaforseti Torfi Bjarnason héraðslæknir
Ritari Kristinn P. Briem kaupmaður
Gjaldkeri Ole Bang lyfsali og
Stallari Valgarð Blöndal hótelhaldari

Á stofnfundinum var og ákveðið að halda næsta fund fimmtudaginn 7. október kl. 3. 30. Hafa fundir klúbbsins, sem haldnir eru vikulega allt árið um kring, ætíð síðan verið haldnir á fimmtudögum. Hverjum skyldi þá hafa dottið í hug, að fimmtudagurinn yrði sjónvarpslausi dagurinn á Íslandi, kannske í tvo áratugi eftir að það tók til starfa, 20 árum eftir að klúbburinn á Sauðárkróki var stofnaður.

Fullgildingarhátíð Rótarýklúbbs Sauðárkróks var haldin í nýju barnaskólahúsi á Sauðárkróki hinn 3. september 1949.

Þar voru samankomin eitt hundrað og ellefu manns. Þeirra á meðal voru fulltrúar frá öllum 9 rótarýklúbbunum á Íslandi. Gestir frá öðrum klúbbum en heimaklúbbnum voru 79.

Margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Að lokum var stiginn dans.

Framkvæmdir klúbbsins á 35 ára ferli hafa verið fremur strjálar og láta lítið yfir sér, enda ekki beinlínis á stefnuskrá félagsskaparins að standa í stórræðum. Þó hefur öðru hverju verið unnið að þörfum verkefnum. Má m. a. nefna uppsetningu útsýnisskífu á Nöfunum austan kirkjugarðs, uppgræðslustörf í brekkunum vestan við bæinn, norðan Kirkjuklaufar, blásturshljóðfærakaup handa Lúðrasveit Sauðárkróks, sem um nokkurt skeið hefur verið í verulegum öldudal. 1974 aðstoðaði klúbburinn við undirbúning þjóðhátíðar á Hólum. Veittar hafa verið viðurkenningar fyrir besta námsárangur í skólum bæjarins árlega.

Í fjáröflunarskyni var eitt sinn nokkrum félögum gert að mála myndir (málverk), líklega einum 4 eða 6 mönnum, sem allir brugðust vel við og skiluðu líklega nokkuð misgóðum myndum, innan tilskilins tíma, þ. e. fyrir árshátíð það árið. Voru málverkin þar til sýnis og síðan boðin upp og seld og fengu færri en vildu við háu verði. Annað ár var félögum uppálagt að yrkja ljóð. Dómnefnd valdi 12 þau bestu, og voru þau gefin út, sem hátíðarútgáfa af Rafpóstinum, vikublaði klúbbsins, fyrir árshátíð 1967 í 20 tölusettum eintökum, árituð af höfundunum. Bókin er skrautrituð og fjölrituð, og ber hún nafnið Ýrator, sem fannst með því að lesa nafn hreyfingar okkar afturábak. Var bókin boðin upp, og seldust öll eintökin á háu verði.

 

Haraldur Árnason.

Forsetar í Rótarýklúbb Sauðárkróks frá upphafi.

Ártal Forseti
1948-1959  
1948/1950 Helgi Konráðsson
1950/1951 Torfi Bjarnason
1951 Eysteinn Bjarnason
1951/1952 Sigurður Sigurðsson
1952/1953 Kristinn P. Nriem
1953/1954 Pétur Hannesson
1954/1955 Guðjón Sigurðsson
1955/1956 Valgarð Blöndal
1956/1957 Ole Bang
1957/1958 Haraldur Júlíusson
1958/1959 Guðjón Ingimundarson
1959/1960 Eyþór Stefánsson
1960-1969  
1960/1961 Adolf Björnsson
1961/1962 Ole Bieltvedt
1962/1963 Árni Þorbjörnsson
1963/1964 Rögnvaldur Finnbogason
1964/1965 Steinar Arason
1965/1966 Björn Daníelsson
1966/1967 Haraldur Árnason
1967/1968 Friðrik Friðriksson
1968/1969 Guttormur Óskarsson
1969/1970 Jón Ragnar Pálsson
1970-1979  
1970/1971 Þórir Stephensen
1971/1972 Kristján Skarphéðinsson
1972/1973 Halldór Þ. Jónsson
1973/1974 Steinn Steinsson
1974/1975 Árni Blöndal
1975/1976 Árni Guðmundsson
1976/1977 Stefán Guðmundsson
1977/1978 Brynjar Pálsson
1978/1979 Jóhann Guðjónsson
1979/1980 Sigurður Jónsson
1980-1989  
1980/1981 Gunnar Guðjónsson
1981/1982 Guðmundur Guðmundsson
1982/1983 Friðrik Guðmundsson
1983/1984 Guðmundur Tómasson
1984/1985 Gestur Þorsteinsson
1985/1986 Sigurður Ágústsson
1986/1987 Árni Ragnarsson
1987/1988 Jónas Snæbjörnsson
1988/1989 Birgir Guðjónsson
1989/1990 Matthías Viktorsson
1990-1999  
1990/1991 Frímann Guðbrandsson
1991/1992 Þórarinn Guðmundsson
1992/1993 Reynir Barðdal
1993/1994 Ágúst Guðmundsson
1994/1995 Ólafur R. Ingimarsson
1995/1996 Pétur Valdimarsson
1996/1997 Kristján Æ. Arason
1997/1998 Baldvin Kristjánsson
1998/1999 Sævar Einarsson
1999/2000 Jóhannes H. Pálsson
2000-2009  
2000/2001 Snorri J. Evertsson
2001/2002 Jóhann Svavarsson
2002/2003 Knútur Aadnegard
2003/2004 Gestur Þorsteinsson
2004/2005 Ingimundur Kr. Guðjónsson
2005/2006 Pétur Ingi Björnsson
2006/2007 Sigurður Páll Hauksson
2007/2008 Ómar Bragi Stefánsson
2008/2009 Baldvin Kristjánsson
2009/2010 Örn Ragnarsson
2010-2016  
2010/2011 Jón Daníel Jónsson
2011/2012 Hjalti Pálssom
2012/2013 Jóel Kristjánsson
2013/2014 Heimir Þór Andrason
2014/2015 Pétur Bjarnason
2015/2016 Róbert Óttarsson